Næstu grös

Veitingar

Fagurmálað hús gefur væntingar um ljúfa innviði að baki litlum glerrúðum. Heiti matstofunnar Á næstu grösum gefur væntingar um aldingarðinn Eden eða að minnsta kosti grænmetis- og ávaxtadeild Hagkaups.

Salurinn kastar köldu vatni á væntingarnar. Ekkert er rómantískt við tréveggi og trégólf. Þetta er eins og mötuneyti í herbúðum. Staðurinn er ber og kaldur. Naktir gluggar og rytjuplöntur enduróma í óþægilegum stálstólum með tréplötur í sessi og baki við eyðileg hringborð, klædd ljótum rúðudúkum, brúnum og hvítum, svo og óbrjótandi vatnsglösum. Hér er ekki vottur af stíl.

Staðurinn er nákvæm staðfesting þeirra fordóma, að neyzla náttúrufæðu hljóti að vera afneitun og meinlæti, ef ekki hrein refsing fólks, sem upp úr magasári hafi glatað lífslyst og fegurðarskyni og er orðið svo innhverft, að það sé orðið ónæmt fyrir umhverfi sínu.

Skenkurinn í horninu staðfestir, að þetta sé mötuneyti. Í stað hafsjávar af grænmeti og ávöxtum er þar fátæklegt hrásalat, aðallega jöklasalat, sízt merkilegra en hrásalatið á öðrum hverjum stað við Laugaveg. Það er langur vegur frá litadýrð allsnægtaborða heilsuhælisins í Hveragerði yfir til þessa fátæklega hlutleysis.

Ekkert val, ein súpa og einn réttur. Annar hver matstaður í bænum býður jafnmarga heita grænmetisrétti, þar á meðal þeir austurlenzku og ítölsku, sem byggja á matargerðarhefðum, er leggja áherzlu á jarðargróða. Hollustufæði er fáanlegt víðar í bænum en hér.

Verðið er ekki í mötuneytisstíl. Um 1.220 krónur kostar að fá sér súpu og fullan skammt af aðalrétti, svipað og víða annars staðar, þar sem framboð er meira. Í hádeginu er þetta raunar dýrt í samanburði við önnur hús, sem bjóða súpu og grænmetisrétti á þriggja stafa verði.

Á þessu verði á að vera hægt að gera út náttúruhús með klassa í gömlu timburhúsi á borð við þetta. Þar á að vera hægt að hafa blóma-, grænmetis- og ávaxtahaf, sem höfðar til þeirra, sem vilja náttúrulega fæðu, en hvorki meinlæti eða sjálfsafneitun. Stað fyrir venjulegt nútímafólk, sem lítur á heilsurækt sem sjálfsagða.

Súpur og réttir dagsins breytast frá degi til dags, svo og eldamennskan. Austurlenzkir réttir eru tíðir, einkum indverskir. Stundum eru þeir bragðmiklir og persónulegir og stundum renna þeir út í daufa bragðleysu. Raíta, sem er indverskt jógúrtsalat, hafði í eitt skiptið dauft gúrkubragð, en var í annað sinn hæfilega hressilegt.

Mild lauksúpa varð bragðgóð, þegar sesamsalti hafði verið stráð í hana. Tómatsúpa var mikil og sterk, með góðu oregano-bragði, full af káli og grjónum. Stundum er heimabakað og gott brauð boðið með súpum.

Fylltar pönnukökur með smjörbauna-pottrétti voru volgar, hlutlausar og þurrar, gerðar úr krydduðu heilhveiti og fremur þykkar. Volgt Gado-gado grænmeti í Indónesíustíl með tofu-baunahlaupi var ákveðnara í bragði. Ágætis hýðishrísgrjón voru með öllum mat.

Margt er fyrirgefið, þegar kemur að tertunum. Þær eru ekki bara ein eða tvær, heldur fimm eða sex. Þar á meðal fékk ég mjög góða súkkulaðitertu og enn betri gulrótarteru, góða döðlu- og eplatertu, bananaköku með sultu og með beztu ostatertum bæjarins, sérstaklega mjúka.

Jónas Kristjánsson

DV