Styðja ekki eigið álit

Greinar

Forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness stendur að nefndaráliti um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Reykjavíkur og Seltjarnarness, en getur ekki svarað fjölmiðlum, þannig að skiljanlegt sé, hvort hún sé með eða móti einmitt þessu sama nefndaráliti.Svipuð viðhorf hafa víðar komið í ljós. Einn nefndarmanna afsakaði sig með því, að nefndin hefði verið skyldug til að standa að einhverju áliti. Milli línanna má lesa, að nefndarmenn hafi ekki tekið hlutverk sitt alvarlega og talið sér heimilt að skrifa undir hvaða plagg sem er.

Það er engan veginn gott veganesti í almennri atkvæðagreiðslu, sem verður 20. nóvember í sveitarfélögunum, ef einmitt þeir, sem semja tillögur um sameiningu, treysta sér ekki til að mæla með tillögum sínum, heldur fara undan í flæmingi og tala út og suður.

Tillögur, sem ekki eru studdar heils hugar af eigin höfundum, verða auðvitað felldar, því að ekki er hægt að ætlast til, að kjósendur botni meira í þeim en höfundarnir, sjái skýrar yfir kosti þeirra og galla eða geti spáð rökréttar í niðurstöður þeirra og ýmsar afleiðingar.

Ljóst er orðið, að undirbúningur að sameiningu er í molum í flestum tilvikum. Hver sveitarstjórnarmaður á fætur öðrum lýsir efasemdum sínum, þekkingarskorti og hræðslu við hið ókunna. Hvernig er þá hægt að ætlast til að kjósendur styðji þessar róttæku breytingar?

Það er ábyrgðarhluti að efna til mikils kostnaðar við að smíða tillögur og efna til kosninga, sem ekki leiða til neinna breytinga, af því að málin falla í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Það eru slæm vinnubrögð, sem eiga eftir að vera til skammar málsaðilum sameiningar.

Sameining sveitarfélaga er mál, sem þarf að undirbúa svo vel, að höfundarnir skilji það og styðji sjálfir og að töluverður hluti sveitarstjórnarmanna sé reiðubúinn að leggja hönd á plóginn. Þær forsendur eru því miður ekki til í flestum tilvikum, sem hafa verið til umræðu.

Ef markmið sameiningarinnar er að spara peninga í rekstri sveitarfélaga og gera þau hæfari til að mæta kröfum, sem meðal annars stafa af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá hlýtur að vera hægt að undirbúa málið svo vel, að það verði fólki skiljanlegt.

Ef hins vegar enn er óljóst, hver verkaskiptingin verður, hverjar verða kröfur til sveitarfélaga í náinni framtíð og hver verður raunverulegur sparnaður af sameiningu, er farsælast að bíða með atkvæðagreiðslur, unz þokunni hefur létt og útkoma fengizt úr reikningsdæmum.

Í félagsmálaráðuneytinu halda menn því fram, að línur hafi einmitt skýrzt í verkaskiptingunni og að vitað sé, hver verði verkefni sveitarfélaga. Þar á ofan sé ljóst, að lítil sveitarfélög muni ekki ráða við þessi verkefni. Efasemdir sveitarstjórnarmanna séu bara fyrirsláttur.

Ef þetta er rétt, verður átakanlegra en ella það ábyrgðarleysi sveitarstjórnarmanna að skipa í sameiningarnefndir, sem framleiða sameiningartillögur, er hvorki nefndarmenn né aðrir sveitarstjórnarmenn hyggjast styðja, þegar á hólminn er komið 20. nóvember.

Í þessari stöðu er bezt, að sameiningarnefndir hundskist til baka með tillögur sínar og að frestað verði kosningum um þær, þangað til unnt reynist að sýna kjósendum kosti tillagnanna. Bezt væri að fá nýja nefndarmenn, sem eru líklegri til að skilja og styðja eigin tillögur.

Við höfum horft á margan skrípaleikinn í pólitíkinni, en undirbúningurinn að almennri atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga tekur flestu fram á því sviði.

Jónas Kristjánsson

DV