Einfalt er að sjá, hvenær misnotaður er kynningarbæklingur eða annað prentmál, sem stjórnvald gefur út. Það er þegar birt er mynd og ávarp ráðherrans, borgarstjórans eða nefndarformannsins. Þá er sá að búa í haginn fyrir sig eða flokkinn í prófkjöri eða kosningum.
Aðdragandi byggðakosninga virðist verða verri en áður að þessu sinni. Borgarstjóri og formaður léku þennan leik í bæklingi um heilsdagsvist skólabarna og bæjarstjóri Seltjarnarness í bæklingi um þjónustu bæjarins. Fleiri stjórnmálamenn munu feta í þessi spilltu fótspor.
Hér á landi skortir viðnám gegn fjölbreyttri spillingu stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Fátt eitt er til af reglum um slík efni. Það gefur stjórnmálamönnum tækifæri til að halda sig á útjaðri gráa svæðisins og gera tilraunir til að víkka það með nýjum og nýjum fordæmum.
Í nágrannalöndunum hafa verið sett lög, reglugerðir og bókfærðar vinnureglur til þess að mjókka gráa svæðið og hefta ferðir út fyrir það. Þetta hefur verið gert, af því að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa aðstöðu til að úthluta gæðum til sín og annarra aðila.
Fjárreiður stjórnmálaflokka eru meðal atriða, sem bundin hafa verið í lög í flestum nágrannalöndunum. Þar er ákveðið, hvernig sé háttað bókhaldsskyldu flokkanna og aðgangi almennings að bókhaldinu. Ennfremur er ákveðið, hvernig framlög til þeirra skuli bókfærð.
Hér á landi eru stjórnmálaflokkarnir ekki bókhaldsskyldir og almenningur hefur ekki aðgang að því bókhaldi, sem til kann að vera. Engin skjöl eru opinber um framlög til þeirra. Augljóst er, að þetta hömluleysi gefur tækifæri til miklu meiri spillingar en í nálægum löndum.
Átta háskólakennarar hafa sameinazt um að leggja til, að um þetta verði settar hliðstæðar reglur og gilda í nágrannalöndunum. Þeir vísa til aðstöðu flokkanna til að úthluta gæðum, sem leiði aftur á móti til þess, að setja verði um þá strangari reglur en aðra bókhaldsaðila.
Grundvallaratriðið er, að stjórnmálaflokkarnir verði bókhaldsskyldir og að reikningar þeirra verði opnir öllum eins og stórfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Lög um þetta verði þannig úr garði gerð, að stjórnmálaflokkarnir geti ekki haldið hluta af veltunni utan bókhalds.
Annað meginatriði er, að skattfrelsi framlaga til flokkanna gildi aðeins upp að vissu marki, sem miðað sé við einstaklinga, og að framlög, sem séu umfram þá upphæð á einu ári, séu bæði skattlögð og birtingarskyld. Þá má sjá, hvaðan stórgjafir koma til flokkanna.
Rökstuddur grunur er um, að ýmsir voldugir aðilar í þjóðfélaginu sjái sér hag í að verða við fjárbeiðnum stjórnmálaflokka vegna þess að sömu flokkar hafi eða geti fengið aðstöðu til að taka ákvarðanir, sem hafa umtalsverð áhrif á fjárhag og gengi þessara aðila.
Nýlega höfum við séð dæmi um, að umfangsmiklum verkefnum hefur verið úthlutað af hálfu Hafnarfjarðar og Reykjavíkur án hefðbundins útboðs. Slík vinnubrögð fela í sér pólitíska úthlutun gæða, sem kallar á strangar reglur um þá aðila, sem skammta gæðin í þjóðfélaginu.
Þegar settar verða reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka, er rétt að taka inn í myndina fjárreiður stjórnmálamanna vegna prófkjörs og kosninga, svo og fjárreiður þeirra, sem flokkarnir hafa sett til að vera skömmtunarstjórar í þessu landi mikillar opinberrar íhlutunar.
Fráleitt er að ætla, að hér séu menn svo miklu siðvæddari en í nágrannalöndunum, að ekki þurfi að skjalfesta reglur, sem haldi stjórnmálaflokkum frá gráum svæðum.
Jónas Kristjánsson
DV