Borís Jeltsín Rússlandsforseti átti að hamra járnið meðan það var heitt og senda þingið heim fyrir fimm mánuðum, þegar fólkið hafði í þjóðaratkvæðagreiðslu lýst trausti á honum sem forseta og einnig á vestrænum efnahagsumbótum hans. Nú kann það að vera of seint.
Rússneska þingið hefur ekkert hliðstætt umboð frá þjóðinni til að stjórna ríkinu. Það er arfur frá tímum Sovétríkjanna, skipað kerfiskörlum þess tíma. Samt hefur það hagað sér eins og það sé hinn raunverulegi valdhafi í landinu og stíflað lýðræðisþróunina að mestu.
Með aðstoð stjórnlagadómstóls og seðlabanka ríkisins, sem einnig eru leifar fyrri tíma kommúnismans, hefur þinginu tekizt að koma í veg fyrir, að Jeltsín stjórnaði ríkinu, þótt hann sé lýðræðislega kjörinn og hafi fengið áðurnefndar traustsyfirlýsingar þjóðarinnar í vor.
Í fimm mánuði hefur verið kristaltært, að rússneska þingið mundi ekki virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í vor og áfram beita kjafti og klóm gegn efnahags- og lýðræðisumbótum. Jeltsín hefur árangurslaust reynt að friða það með því að fórna umbótasinnum.
Nú hefur Jeltsín loksins höggvið á hnútinn. Ekki er enn ljóst, hvort hann og sjónarmið hans sigra í eftirleiknum. Augljóst er, að tök hans á almenningsálitinu í Moskvu hafa rýrnað frá í vor. Andstæðingar hans hafa í vaxandi mæli látið að sér kveða á götum og torgum.
Herinn lýsti fyrst hlutleysi í valdabaráttunni og síðan stuðningi við forsetann. Innanríkislögreglan styður Jeltsín líka, að minnsta kosti á Moskvusvæðinu, sem er mikilvægast. Og valdhafar í héruðum og löndum ríkisins virðast flestir telja heppilegt að styðja hann.
Upphaflegt hlutleysi hersins í valdastreitunni var aðeins sjónhverfing, túlkuð sem jákvætt hlutleysi í garð Jeltsíns. Það fólst meðal annars í, að honum yrði gert kleift að framkvæma nýjar þingkosningar gegn vilja núverandi þings. Síðan tók herinn opinbera afstöðu.
Ef hallarbylting Jeltsíns nær fram að ganga og þingkosningar verða fyrir jól, fá Rússar tækifæri til að koma á fót löggjafarvaldi, sem endurspeglar mismunandi sjónarmið og hagsmuni í nútímanum, nákvæmlega eins og gerist á Vesturlöndum og er einmitt það, sem vantar.
Ef kommúnistar komast aftur til valda í þingkosningum eða til aðildar að völdum eins og þeir hafa nú komizt í Póllandi, er ekkert við því að segja, því að það er gangur lýðræðisins. Rússar hafa ekki fengið slíkt tækifæri, en fá það vonandi nú, eftir síðbúna aðgerð Jeltsíns.
Smám saman er að koma í ljós, að efnahagsleg örlög ríkjanna í Varsjárbandalaginu sáluga fara eftir stuðningi fólksins við vestrænar umbætur. Tékkum gengur betur en Slóvökum og Eistlendingum betur en Litháum. Pólverjum hefur gengið vel, en nú er hætta á bakslagi.
Rússar hafa skýrara dæmi nær sér. Úkraína lýtur stjórn kommúnista af sama toga og rússneskir þingmenn. Þar hefur valdhöfum tekizt að framkalla þvílíkt efnahagsöngþveiti, að ástandið í Rússlandi er barnaleikur í samanburði. Úkraína er víti til varnaðar Rússum.
Vonandi tekst Borís Jeltsín að fylgja hallarbyltingunni eftir og láta kosningar til nýs þings verða að veruleika. Þá loksins lýkur löngu og dýru þrátefli, sem hefur gert Rússum ókleift að fylgja eftir sumum öðrum þjóðum Varsjárbandalagsins, er hafa valið hinn vestræna veg.
Forseti Sovétríkjanna hefur notað síðasta tækifærið, sem hann hafði. Þess vegna má vona, að Rússar fái nú loksins tækifæri til að verða eigin gæfu smiðir.
Jónas Kristjánsson
DV