Gúlagið tapaði naumlega

Greinar

Ólympíunefndin slapp fyrir horn, þegar 45 nefndarmenn völdu Sydney sem vettvang ólympíuleikanna árið 2000. Sú niðurstaða var auðvitað ekki að þakka þeim 43 nefndarmönnum, sem vildu halda þessa leika í gúlaginu í Beijing, miðstöð mannréttindaskorts í heiminum.

Fram á síðustu stund var talið líklegt, að Stóri bróðir í Kína fengi að halda þessa ólympíuleika. Hann hafði flutt mútur inn á nýtt og stærra svið með því að gefa ólympíunefndinni einn af þekktustu forngripum ríkisins, 2.200 ára gamla hermannastyttu frá uppgreftrinum í Xian.

Gamall fasisti frá valdatíma Francos á Spáni, Juan Antonio Samaranch, er formaður nefndarinnar. Hann stjórnaði þeim hópi, sem vildi afhenda alræðisstjórninni í Kína ólympíuleikana og beið lægri hlut í sögulegri atkvæðagreiðslu í Monte Carlo á fimmtudagskvöldið.

Ekki er gæfulegt, að 43 nefndarmenn skyldu styðja sjónarmið Samaranchs gegn meðmælum helztu mannréttindasamtaka heimsins, og enn síður, að nefndin í heild skyldi endurvelja sem formann þennan gamla fasista, sem hefur fyrr og síðar skaðað ólympíuhugsjónina.

En nefndin slapp naumlega fyrir horn í staðarvalinu með 45 atkvæðum gegn 43. Ef Beijing hefði fengið þessa ólympíuleika, hefði það verið svipað áfall og árið 1936, þegar Adolf Hitler notaði ólympíuleikana í Berlín til að fegra og auglýsa sitt viðurstyggilega þjóðskipulag.

Kína er einn síðasti móhíkaninn í flokki kommúnistaríkja og það ríki, sem næst kemst hryllingsríkinu, er rithöfundurinn George Orwell lýsti í bókinni “1984″. Það er skólabókardæmi um alræðisríkið, sem aldrei komst almennilega á legg í Austur-Evrópu járntjaldsins.

Ríkisvaldið í Kína þolir alls enga gagnrýni. Það lítur á sjálfstæðar skoðanir sem landráð og hneppir fólk í þræla- og pyndingabúðir fyrir það eitt að lýsa skoðunum sínum í fámennum hópi. Ríkisvaldið í Kína er eins lítið ólympískt og nokkurt ríkisvald getur verið.

Kínastjórn notaði skriðdreka til að valta yfir námsmenn á Torgi hins himneska friðar. Fjöldamorðin á torginu sýndu umheiminum hið rétta ógnareðli þjóðskipulagsins í Kína, þar sem elliærir valdhafar svífast nákvæmlega einskis til að varðveita alræðið.

Kína er land, þar sem ríkisvaldið lætur skrúfa fyrir allan hita í Beijing til þess að geta logið því að gestkomandi ólympíunefnd, að þar sé sæmilega hreint loft. Kína er land, þar sem ríkisvaldið getur lofað, að ekki nokkur mótmælandi muni dirfast að varpa skugga á leikana.

Ef ólympíuleikar væru haldnir í Beijing, mundi ríkisvaldið láta handtaka tugi þúsunda Kínverja, sem hugsanlega gætu verið grunaðir um að hafa opinn huga, til þess að tryggja, að þeir kæmu hvergi nálægt útlendingum. Svo stórkarlaleg er alræðisárátta kínverskra valdhafa.

Eitt lítið dæmi um hugarfar ráðamanna íþrótta og ríkis í Kína er, að fyrir nokkrum dögum var hótað, að Kínverjar mundu ekki mæta á næstu ólympíuleika, ef þeir fengju ekki vilja sínum framgengt. Þeir töldu, að slík hótun mundi efla stuðning við ólympíuleika í Beijing.

43 félagar í ólympíunefnd gamla fastistans frá Spáni studdu heimsins mesta alræðisríki í atkvæðagreiðslunni á fimmudagskvöldið. Það munaði bara hásbreidd, að þeir fengju vilja sínum framgengt í Monte Carlo. Svo tæpt stendur ólympíuhugsjónin í lok tuttugustu aldar.

Hinn naumi sigur í nefndinni sýnir, að fylgismenn hins forngríska anda, sem er rót ólympíuleika og mannréttinda í senn, verða að halda vöku sinni ár og síð.

Jónas Kristjánsson

DV