Litla-Framsókn

Greinar

Verkin tala í stjórnmálum sem á öðrum sviðum. Þótt flokkarnir hafi sumpart misjafnar stefnuskrár, eru þeir nokkurn veginn eins í helztu meginatriðum, þegar til kastanna kemur. Þannig fórnar til dæmis Alþýðuflokkurinn alltaf stefnu sinni í landbúnaði, er á reynir.

Að mestu leyti hallast allir stjórnmálaflokkarnir í reynd að verki, sem er í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins. Sá veruleiki felst í verndun landbúnaðar í stað nýrra greina; miðstýringu í stað frjálshyggju; og velferðarkerfi gæludýra í stað velferðarkerfis almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum verið kallaður stóri eða stærsti Framsóknarflokkurinn. Landbúnaðarráðherrar fyrri flokksins hafa jafnan reynzt harðari hagsmunagæzlumenn en aðrir landbúnaðarráðherrar og einn þeirra var meira að segja höfundur kerfisins.

Sjálfstæðisflokkurinn á aðra rót sína í embættismannakerfinu og hina í atvinnulífinu. Helztu stjórnmálamenn hans hafa oftast verið lögmenn, sem falla betur að ríkis- og borgarkerfinu en atvinnulífinu, þótt sumir þeirra hafi gælt við frjálshyggju á unga aldri.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi allra síðustu árin meira hampað frjálshyggju en oft áður, hefur reyndin verið önnur. Hann hefur færzt nær Framsóknarflokknum, meðal annars vegna mannaskipta í þingflokki hans, sem fela í sér, að hreinum framsóknarmönnum hefur fjölgað.

Lengi hefur verið ljóst, að gamlir þingmenn á borð við ráðherrana Halldór Blöndal og Þorsteinn Pálsson eru hreinir framsóknarmenn í verki. Færri átta sig á, að þetta gildir ekki síður um nýja þingmenn, sem sumir hverjir eiga eftir að verða valdamiklir í flokknum.

Meðal þessara framsóknarmanna þingflokksins eru Sturla Böðvarsson, Einar Guðfinnsson, Vilhjálmur Egilsson og Tómas Ingi Olrich. Afstaða þeirra á þingi bendir til, að innan tíðar verði þeir orðnir nákvæmlega eins og Egill Jónsson frá Seljavöllum og Pálmi Jónsson frá Akri.

Leita verður með logandi ljósi í hópi þingmanna flokksins úr tveimur kjördæmum suðvesturhornsins til að finna einhvern, sem telji aðra atvinnuvegi nýtilegri en landbúnað og telji afkomu skattgreiðenda og neytenda skipta meira máli en afkomu hefðbundins landbúnaðar.

Eins er erfitt að finna nokkurn, sem telur velferðarkerfi almennings skipta meira máli en velferðarkerfi gæludýranna. Enn síður er auðvelt að benda á einhvern, sem í reynd tekur valddreifingu fram yfir þá miðstýringaráráttu, sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn.

Kjörorðið er Báknið burt, en reyndin er Kerfið kjurt. Það endurspeglast í aukinni hlutdeild ríkisbúskaparins í þjóðarbúskapnum í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins á síðustu misserum. Sú sáralitla einkavæðing, sem sést, er fyrst og fremst einkavinavæðing.

Með því að sameina verstu þætti frjálshyggjunnar við verstu þætti ríkisdýrkunar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að breytast í miðflokk á borð við Framsóknarflokkinn, í fortíðarflokk miðstýringar og velferðarkerfis gæludýra, þar á meðal og sér í lagi landbúnaðar.

Ein nýjasta birting þessa samruna hefur verið öllum sýnileg í skinkumálinu og málum, sem tengdust því. Komið hefur í ljós, að framsóknarmaðurinn Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra er hinn raunverulegi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og höfuð ríkisstjórnarinnar.

Skoðanakannanir sýna, að ekki hæfir lengur að kalla flokkinn Stóru-Framsókn. Allt þetta ár hefur fylgi hans mælzt þannig, að rétt er að kalla hann Litlu-Framsókn.

Jónas Kristjánsson

DV