Mikill fórnarkostnaður fylgir heilsukortakreddunni. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ná með heilsukortum í peninga til heilbrigðismála mun kosta skattgreiðendur að minnsta kosti 64 milljón krónur á ári ofan á þær 235 milljón krónur á ári, sem nýtast heilbrigðiskerfinu.
Enginn beinn aukakostnaður væri við að ná með hefðbundnum skatti í þessar 235 milljón krónur á ári. Heilsukortin sjálf kosta hins vegar 29 milljónir, gíróseðlar 11 milljónir, póstsendingar 3 milljónir og laun 20 milljónir. Samtals er beinn fórnarkostnaður 64 milljón krónur á ári.
Til þess að ná inn 235 milljón krónum á ári og eiga líka fyrir 64 milljóna fórnarkostnaði á ári þarf ríkið að leggja 309 milljón króna árlegan heilsukortaskatt á landsmenn. Þetta er greinilega afar óhagkvæm aðferð í skattheimtu og hlýtur að eiga sér annarlegar forsendur.
Að baki heimskulegra heilsukorta ríkisstjórnarinnar er sumpart sú óskhyggja, að heilsukortaskatturinn verði ekki talinn vera skattur, af því að hann sé ekki nefskattur, sem allir verði að greiða. Þannig geti fjármálaráðherra fullyrt, að hann sé í rauninni enginn skattur.
Þessi óskhyggja er ekki nægileg skýring, því að fjármálaráðherra mun ekki takast að telja mörgu fólki trú um, að heilsukortin séu ekki skattur. Þau eru skattur alveg eins og afnotagjald til Ríkisútvarpsins er skattur, þótt fræðilega séð geti fólk neitað að greiða hann.
Fólk þarf að greiða afnotagjaldið til að geta fengið sér sjónvarpstæki til þess eins að horfa á myndbönd. Þess vegna er afnotagjaldið skattur. Og fólk þarf að greiða heilsukortin til að fá aðgang að þjónustu, sem kostar miklu meira en 235 milljónir heilsukortaskattsins.
Ástæðan fyrir heilsukortaskattinum er, að við óskhyggjuna bætist sú kredda, að fólk eigi að vera ábyrgt fyrir velferð sinni, en ekki sækja hana ókeypis í hendur ríkisins. Hugmyndafræðilega séð er heilsukortaskatturinn grein á sama meiði og skólagjaldaskatturinn.
Gallinn við framkvæmd kreddunnar er, að hver einstaklingur er látinn greiða brot af verðgildi þjónustu við meðaleinstakling. Það er því augljóslega hagkvæmara fyrir hann að taka á sig skattinn en að segja skilið við velferðarkerfið. Þess vegna er þetta bara skattur.
Ef kreddan væri framkvæmd á þann hátt, að fólk stæði andspænis raunverulegu vali, þar sem það gæti hugsanlega komizt að þeirri niðurstöðu, að það ætti að standa utan velferðarkerfisins, væri verið að framkvæma kredduna um, að fólk eigi sjálft að taka ábyrgð á sér.
Með því að hlaða dæmið í hag velferðarkerfinu, á fólk engan hagkvæman kost annan en að greiða 2000 krónur á ári í heilsukortaskatt. Þess vegna virkar kreddan ekki og þess vegna virkar óskhyggjan ekki og þess vegna er heilsukortaskatturinn aðeins óhagkvæmur skattur.
Þessi dýri skattur hefur þá aukaverkun í för með sér, að undirstéttin í þjóðfélaginu mun ekki greiða hann og þar með ekki fá aðgang að heilbrigðiskerfinu til jafns við venjulegt fólk. Undirstéttin hefur ekki 2000 krónur aflögu, þegar á reynir, og lendir því í vandræðum.
Af því að kreddan nær ekki enn svo langt, að undirstéttin megi deyja drottni sínum, neyðist kerfið til að bæta heilbrigðiskostnaði hennar við annan velferðarkostnað, sem það hefur af undirstéttinni. Sveitarfélög landsins þurfa því að auka félagsmálaútgjöld sín.
Niðurstaða heilsukortaruglsins verður því, að 235 milljónirnar, sem ríkið nær með 64 milljóna tilkostnaði, renna aftur út í sand velferðarkerfisins á öðrum stað.
Jónas Kristjánsson
DV