Ástmögur Norðurlanda

Greinar

Rúslan Khasbúlatov þingforseta hefur í annað skipti í röð verið boðið að sækja árlegan fund Norðurlandaráðs í byrjun nóvember. Samkvæmt upplýsingum embættismanna Norðurlandaráðs er honum boðið sem fulltrúa látinnar stofnunar, sem er þing Sovétríkjanna heitinna.

Í fyrra var það fulltrúi Finnlands í forsætisnefnd ráðsins, er átti hugmyndina að boði Khasbúlatovs, sem kostaði ráðið um 600.000 krónur íslenzkar. Í þetta sinn virðast það vera embættismenn ráðsins, sem höggva í þennan sama knérunn, sennilega af ánægju með fyrra boðið.

Er Norðurlönd buðu Khasbúlatov í fyrra, var það túlkað á alþjóðavettvangi sem óbeinn stuðningur þeirra við hann gegn Borís Jeltsín Rússlandsforseta. Fróðlegt verður að fylgjast með túlkun nýja boðsins, þegar Khasbúlatov er orðinn skarpara einkennistákn gamla tímans.

Nauðsynlegt er að leiðrétta þann misskilning, að endurtekin boð til Khasbúlatovs hafi einhverja innri merkingu. Þau tákna ekkert, ekki frekar en að tilvera Norðurlandaráðs hefur nokkra meiningu. Boðin eru bara hugsunarlaus framleiðsla vanhæfra afdalamanna norrænna.

Í nærri fjóra áratugi hefur ekkert gerzt í Norðurlandaráði. Veraldarsagan hefur haldið áfram, en ráðið hefur verið utan gátta. Breytingar á samskiptum þjóða hafa komið frá öðrum stofnunum, svo sem Fríverzlunarsamtökunum, Evrópusamfélaginu og tollaklúbbnum GATT.

Norrænt samstarf stefnir ekki lengur að niðurstöðum. Það rekur að vísu nokkrar gagnlegar stofnanir, en starfar ekki að neinum nýjum framfaramálum. Það stendur fyrir nokkur hundruð samstarfsverkefnum og brennir nokkrum milljörðum íslenzkra króna á hverju ári.

Norrænt samstarf felst fyrst og fremst í ferðum og veizlum. Það er ekki lengur efnahagslegt, peningalegt eða viðskiptalegt fyrirbæri, heldur er það eins konar félagslíf. Flest félög og flestar stofnanir stunda ferðir og veizlur og annað blómlegt félagslíf á norrænum vettvangi.

Það eru ekki bara ráðherrar, þingmenn og embættismenn, sem stunda sirkusinn. Bæjarstjórnir og nefndir á vegum sveitarfélaga eru önnum kafnar í vinabæjatengslum. Svipað er að segja um stofnanir ríkisins. Frjáls félög og stéttarfélög leggja mikla áherzlu á norræn samskipti.

Sá klúbbur telst ekki með klúbbum, að hann hafi ekki einhver félagsleg tengsli við norræna systurklúbba. Ferðir fólks á vegum ýmissa myndbirtinga norrænnar samvinnu eru þáttur í lífsstíl fólks, sem velst til forustu, hvort sem það er í saumaklúbbi eða ríkisstjórn.

Daglegar flugsamgöngur milli Íslands og Norðurlanda byggjast á þessu líflega félagslífi, er minnir eindregið á félagslíf aldraðs fólks, sem setzt er í helgan stein og stundar klúbbana sína. Enda eru Norðurlönd setzt í helgan stein sem aldurhnigin ríki í samfélagi þjóðanna.

Norðurlönd hafa lagt sitt af mörkum til umheimsins og veraldarsögunnar. Þaðan er velferðarríkið, sem náði hátindi sínum fyrir um það bil áratug, en er nú á undanhaldi á Vesturlöndum, þar á meðal á Norðurlöndum og ekki sízt á Íslandi, þar sem verið er að brytja það.

Þótt Khasbúlatov hafi gerzt formlegur ástmögur Norðurlanda, hefur það enga pólitíska merkingu, enda hafa embættismenn Norðurlandaráðs afar litla hugmynd um, hvað er að gerast í umheiminum og veraldarsögunni; og mundu vafalaust ekki kæra sig um að frétta af því.

Þetta er bara hefðbundin viðleitni keðjuklúbba aldraðs fólks að stækka keðju félagslífsins, jafnvel til látinna stofnana, svo að hægt sé að fylla tómarúm iðjuleysis.

Jónas Kristjánsson

DV