Asía

Veitingar

Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á Asíu við Laugaveginn. Þetta er eins konar blanda af kínversku, indónesísku, tælenzku, malasísku og jafnvel japönsku veitingahúsi. Þjóðlegi fókusinn er tætingslegur sem fyrr, en matreiðslan er orðin sómasamleg og þjónustan ágæt.

Fjarlæg Austurlönd eru fræg fyrir góða þjónustu. Þess vegna er athyglisvert, að hin austrænu veitingahús höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Asía, treysta undantekningarlítið á alíslenzka þjónustu, sem undantekningarlítið er mjög góð. Kannski eru Íslendingar í rauninni liprari við fólk en af er látið og kannski er kennslan í þjónaskólanum okkar bara svona fyrsta flokks.

Eitt helzta tromp Asíu er hádegishlaðborð, svokallaður Asíuvagn, súpa og sex réttir á 790 krónur, upp á síðkastið með betri mat en á svipuðu borði í Sjanghai ofar við götuna. Hlaðborðið er auðvitað minna sótt en í Sjanghai, samkvæmt þeirri reglu, að Íslendingar forðast það, sem betur er gert, að minnsta kosti í matargerðarlist.

Tær og mild hvítkálssúpa var fremur góð. Krabba- og grænmetissalat var afar bragðsterkt. Djúpsteiktar rækjur voru sæmilegar. Grannt þráðarpasta með grænmeti og rækjum var mjög gott. Svínrif með mildri sósu voru góð. Nautakjöt með sterkri sósu var óvenjulega gott, miðað við hlaðborð. Til hliðar voru sætsúr sósa og karrísósa, svo og aflöng hrísgrjón að vestrænum hætti.

Í hádeginu eru líka boðnir nokkrir stakir réttir með kaffi, vel skammtaðir, að meðaltali á 460 krónur. Djúpsteiktar rækjur í sætsúrri sósu voru óvenjulega góðar og með hæfilegum steikarhjúpi. Pönnusteikt smálúða var líka hæfilega elduð, borin fram með gróft skornu grænmeti, einnig pönnusteiktu. Þetta voru mikil gæði fyrir lágt verð, himinhæðum ofan við MacDonalds og allt dótið.

Utan dyra auglýsir Asía aðallega kvöldverðarhlaðborð, sem sagt er tuttugu rétta, en reyndist vera þrettán rétta, þegar ég prófaði það. Það er svo sem nóg að hafa þrettán rétti, en menn eiga að standa við það, sem þeir auglýsa. Þá var borðið tælenzkt, en nú er það orðið víetnamskt. Verðið nam litlum 1.390 krónum, að bjór eða gosi meðtöldu, stundum líka að bambus-fordrykki meðtöldum. Þetta er mikil og frambærileg veizla fyrir lítið fé.

Þarna var meðalsterk og fremur góð Tom Yum súpa; svínakjöt í súrsætri sósu; meyr kjúklingur í kókossósu; nautakjöt í sterkri Panang-karrísósu; stórar og of mikið hjúpaðar rækjur djúpsteiktar; skemmtileg egg kryddhúðuð; fremur góður humar djúpsteiktur; góður fiskur, einnig djúpsteiktur; afar seigur smokkfiskur; mildur grænmetisréttur; stökkar kröpök-brauðflögur; langkorna hrísgrjón gufusoðin; og nokkrar tegundir ferskra ávaxta.

Í Asíu er ofan á allt þetta boðið upp á tólf mismunandi matseðla á 1740 krónur á mann. Þeir koma úr ýmsum áttum Asíu og eru sennnilega samanlagt ofætlun einu litlu eldhúsi, en ég hef ekki prófað neinn þeirra nýlega.

Salarkynni Asíu eru tvískipt um miðjuna, þar sem skartað er hlaðborði hádegis og kvölds. Hægra megin við innganginn er látlausi og bjarti hlutinn, sem mest er notaður í hádeginu, og vinstra megin er þungskreytti og dimmi hlutinn með austrænum formúluskreytingum ferðamannastaða, mest notaður að kvöldi til.

Jónas Kristjánsson

DV