Ný leið úr Gunnarsholti

Greinar

Vistheimilið í Gunnarsholti er ekki meðferðarstofnun eða endurhæfingarstofnun, heldur samastaður þeirra, sem ekki hafa not af meðferð eða endurhæfingu. Það er nánast geymslustaður á borð við elliheimili. Þess vegna er Gunnarsholt ódýrt, 3.800 krónur á mann á dag.

Heilbrigðisráðherra segist ætla að spara fjörutíu milljónir króna með því að leggja niður vistheimilið í Gunnarsholti. Hann fer með ranga tölu, því að það eru ekki nema þrjátíu milljónir, sem hann getur sparað í Gunnarsholti, ef vistmenn verða settir á Guð og gaddinn.

Ofan á þetta hefur heilbrigðisráðherra fullyrt, að hver einasti vistmaður fái aðra vist við sitt hæfi. Þær stofnanir, sem koma til greina, eru allar dýrari en Gunnarsholt á mann á dag, svo að niðurstaðan af flutningi vistmanna getur orðið meiri kostnaður en nokkru sinni fyrr.

Heilbrigðisráðherra hyggst vafalítið leysa þetta með því að stífla meðferðar- og endurhæfingarstofnanir með vistmönnum Gunnarsholts, þannig að fækkun verði á tækifærum þjóðfélagsins til að endurhæfa meðferðarhæft fólk á stofnunum, sem reknar eru á því sviði.

Á sama tíma er heilbrigðisráðherra að skera slíkar stofnanir niður. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður Staðarfell lagt niður og Hlaðgerðarkot nánast rústað. Heildarniðurstaða dæmisins felst þannig í meira umfangi áfengisbölsins í landinu en annars hefði orðið.

Áður hefur komið fram, að ríkisstjórnin styður áfengisbölið með ýmsum hætti. Við því er ekkert að segja, því að hún endurspeglar vafalítið þingviljann eins og Alþingi endurspeglar þjóðarviljann. En lokun Gunnarsholts er bæði flókin og dýr leið að því markmiði.

Ofan á allt þetta hefur svo komið í ljós, að ekki er þingvilji fyrir þessari leið. Röksemdafærsla heilbrigðisráðherra í Gunnarsholtsmálinu hefur verið svo mikið úti að aka, sumpart röng og sumpart fávísleg, að stjórnarsinnar á Alþingi hafa séð gegnum hana eins og aðrir.Ein leið hefur ekki verið reynd í þessari erfiðu stöðu. Hún er sú, að nokkrir bændur á svæðinu sameinist um að gera ríkinu tilboð um að taka heima hjá sér við hlutverki Gunnarsholts gegn því að fá greitt sem svarar ákveðnum hluta af kostnaði ríkisins, til dæmis 80%.

Raunar er gömul og góð reynsla fyrir því að senda fólk í sveit. Við þær aðstæður, sem nú hafa skapazt í landbúnaði með árvissum niðurskurði á kvóta, er hugsanlegt, að fóstrun lítilmagnans geti orðið búgrein, sem komi að einhverju leyti í stað kvótamissis í kúm og kindum.

Víða til sveita eru húsakynni mikil og aðstæður að öðru leyti góðar og ábúendum vel treystandi til að umgangast af ljúfmennsku það fólk, sem af ýmsum ástæðum, svo sem elli eða ólæknanlegum veikindum getur ekki séð um sig, fólk á borð við vistmenn Gunnarsholts.

Útilokað er, að ferðaþjónusta og hrossarækt geti tekið við óhjákvæmilegri minnkun verkefna í hefðbundnum búgreinum. Það er verðugt verkefni fyrir bændur, samtök þeirra og ríkisvaldið að finna, hvort ekki sé flötur á samstarfi á þessu sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Vel má hugsa sér, að gerð verði tilraun. Vistmenn Gunnarsholts eru margir hverjir lagnir í höndunum og gætu gert ýmislegt gagn til sveita, sérstaklega í viðhaldi, lagfært girðingar og útihús. Slíkt mundi henta þeim mun betur en fyrirlestrar á endurhæfingarstofnunum.

Flestar leiðir eru skárri en sú fyrirætlun ráðherrans að stífla endurhæfingarstofnanir með fólki, sem ekki er meðferðarhæft. Hér hefur verið bent á eina augljósa.

Jónas Kristjánsson

DV