Misstu andlitið

Greinar

Talhlýðnir fjölmiðlungar í ljósvakanum hafa gert að sínum orðum fullyrðingar um, að bæði spilavítagengin hafi bjargað andlitinu með samkomulagi um nýju spilavélarnar. Í rauninni var þetta rangt, því að gengin gátu ekki bjargað því, sem þegar var tapað í meðferð málsins.

Spilavítagengi Rauða krossins náði nokkrum árangri um helgina í leiftursókn, sem knúði ráðherra spilavíta til undanhalds eftir helgina og síðan spilavítagengi Háskólans til samkomulags. Leiftursókn þessi verður síðar talin marka tímamót í sögu íslenzkra þrýstihópa.

Niðurstaða leiftursóknarinnar varð, að spilavítagengin náðu samkomulagi um skiptingu markaðarins, alveg eins og hliðstæð gengi hafa jafnan gert í skuggahverfum stórborganna. Græðgin hefur jafnan reynzt öflugt sáttaafl. En enginn bjargaði andliti, sem ekkert var orðið.

Allir töpuðu og mest félagið, sem hefur atvinnu af meðferð og endurhæfingu spilafíkla eins og annarra fíkla. Með leiftursókninni hefur félagið auglýst, að það sitji báðum megin borðs og hafi beinar tekjur af framleiðslu vandamála, sem það síðan hefur tekjur af að lina.

Svo markvisst var unnið í leiftursókninni, að fyrirtæki á sviði almannatengsla var kallað til aðstoðar. Má búast við blómaskeiði á því sviði, er fleiri hagsmunagengi í þjóðfélaginu fara að nýta sérfræðikunnáttu til að þrýsta sérhagsmunum sínum fram á borði Stóra bróður.

Í rauninni voru hinar ósögðu hótanir lítils virði. Reynslan sýnir, að fjölmenn samtök með mikilli virkni margra félagsmanna eru máttlítil í stjórnmálum. Stéttasamtök launþega eru á undanhaldi og verða að sæta endurteknum vanefndum á loforðum stjórnvalda.

Ekkert bendir til, að íþróttafélög og hvað þá björgunarfélög eða háskóli geti stýrt viðhorfum félagsmanna, þegar stéttarfélög geta það ekki. Fjölmenn og virk félög geta framleitt mikinn hávaða, sem síðan endurspeglast ekki í atkvæðum á landsfundum, í prófkjörum og í kosningum.

Stjórnmálamenn hafa ekki áttað sig á þessu. Þannig ofmeta þeir mátt spilavítagengja hins íslenzka nútíma til að hafa áhrif á gengi stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Því eru þingmenn hræddir um sinn hag í hávaðanum og hafa vitnað í röðum í ræðustól á Alþingi.

Í öllum málum af þessu tagi tapar fólkið í landinu. Óbeinir og illa skilgreindir almannahagsmunir verða í vaxandi mæli að víkja fyrir markvissum sérhagsmunum þrýstihópa, sem beita aukinni sérfræðikunnáttu til að blekkja Stóra bróður til stuðnings við sérhagsmunina.

Auglýsinga- og ímyndatækni nútímans hefur stungið af getu almennings og stjórnmálamanna til að halda áttum. Fólk lætur sig til dæmis hafa það að ganga um með auglýsingar um eigin heimsku og ósjálfstæði með því að klæðast dýrri merkjavöru með áberandi merkimiðum.

Flest bendir til, að í náinni framtíð muni yfirburðir sérhagsmuna halda áfram að aukast og að almannahagsmunir verði útundan í auknum mæli, enda eru hópar á borð við neytendur og skattgreiðendur tæpast meðvitaðir um óbeinan kostnað sinn af velgengni sérhagsmuna.

Sérhagsmunagengin kunna tæknina við að ná eyrum Stóra bróður, en almenningur horfir bara á. Nú á að senda fólk í auknum mæli í spilavíti, sem þegar hafa valdið hörmungum í mörgum fjölskyldum. Slagurinn um helgina var bara um skiptingu á auknum gróða.

Spilavítagengjanna er mátturinn, en ekki dýrðin. Þau munu græða á aukinni tæknivæðingu og fjölgun spilavíta, en ekki halda andliti, því að það er horfið.

Jónas Kristjánsson

DV