Marklausir landsfundir

Greinar

Hundruð manna sækja aðalfundi stjórnmálaflokka og láta sér sæmilega líka, þótt slíkir fundir séu hættir að skipta nokkru máli í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar. Sú umræða hefur að mestu flutzt á síður DV og Morgunblaðsins og að nokkru í samtök og stofnanir úti í bæ.

Áratugum saman hefur verið feiknarleg umræða á opinberum vettvangi um landbúnað. Hún hefur fundið sér farveg utan stjórnmálaflokka og smám saman leitt til nokkurn veginn sömu niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Í hálfan annan áratug hefur einnig verið svipuð umræða á opinberum vettvangi um sjávarútveg. Hún hefur líka fundið sér farveg utan flokkakerfisins og leitt til nokkurn veginn samhljóða niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Þess sér engin merki á stjórnmálaflokki á borð við Sjálfstæðisflokkinn, að þar viti menn um þessa umræðu og niðurstöður hennar. Og enn síður sér þess merki, að sá flokkur eða nokkur annar hyggist taka mark á niðurstöðum þessarar stjórnmálaumræðu eða annarrar.

Menn geta treyst því, að Sjálfstæðisflokkurinn muni áfram, eins og aðrir flokkar, jafnan standa með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum, einkum gegn skattgreiðendum og neytendum. Raunar stendur sá flokkur fremst í ofbeldi ríkisins gegn almannahagsmunum.

Menn geta treyst því, að innihald Sjálfstæðisflokksins verði áfram eins og annarra flokka. Þetta eru allt saman tæki til að koma atvinnumönnum stjórnmála í stöður og stóla. Það er vel við hæfi, að fjárreiður flokkanna eru eitt bezt varðveitta leyndarmálið í íslenzkum nútíma.

Skoðanakannanir sýna, að kjósendur eru farnir að átta sig á þessum staðreyndum og forðast flokkana í auknum mæli. Einkum hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn, enda hefur hann haft gott tækifæri til að sýna áhugamál sín í landsstjórninni.

Breytingar á þessu ástandi koma ekki frá fulltrúum á landsfundum og öðrum aðalfundum stjórnmálaflokka. Þar mætir fólk ekki til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og niðurstöðum slíkrar umræðu. Það er þvert á móti mætt til að fylkja liði um flokk og flokkseigendur.

Flestir gera þetta sjálfvirkt, af því að þeir eru mættir í sínum klúbbi, sumir fæddir þar. Þeir virða verkaskiptingu, þar sem sumir eru settir til að hugsa, aðrir til að stjórna, en flestir til að rétta upp hendi. Þeir hafa daufar eða engar skoðanir á raunverulegum stjórnmálum.

Sumir fulltrúa ætla sér einhvern hlut af kökunni, sem flokkurinn aflar sínum mönnum. Þetta eru hinir framagjörnu, sem komast í nefndir og hafa von um formennsku í nefnd. Í hillingum birtist framboð í byggðakosningum og jafnvel sæti á lista í alþingiskosningum.

Stjórnmálaflokkar og aðalfundir þeirra eru líka vettvangur framapotara, sem ætla smám saman að klifra til valda og fjár á baki handauppréttingamanna flokksins. Hvorki framapotarar né handauppréttingamenn aðalfunda hafa nokkuð til málanna að leggja í stjórnmálum.

Í nokkur hundruð manna hópi er svo eitthvað um sérvitringa, sem halda uppi því, sem sumir kalla málefnalega þverbresti í stjórnmálaflokkum. Sameiginlegt með þessum sérvitringum er, að þeir eru hver fyrir sig og sameiginlega gersamlega áhrifalausir í sínum flokki.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur að þessu sinni verið enn ein staðfesting þeirrar skilgreiningar á stjórnmálaflokkum og aðalfundum þeirra, sem hér hefur birzt.

Jónas Kristjánsson

DV