Hnignun og hrun vesturs

Greinar

Sjónvarpsfréttamynd af misþyrmingum á líki bandarísks hermanns í Mogadishu leiddi til þess, að Bandaríkin gáfust upp á stríðinu við Aidid herstjóra í Sómalíu. Þau eru hætt að eltast við hann og kenna raunar ranglega Sameinuðu þjóðunum um eltingaleikinn við hann.

Ein sjónvarpsmynd sneri við almenningsálitinu í Bandaríkjunum og gerði stjórn Clintons ókleift að standa við stóru orðin um Aidid. Þess vegna mun bandaríski herinn fara frá Sómalíu eftir áramót, svo og aðrir vestrænir herflokkar, og hungrið taka völdin á nýjan leik.

Aidid bætist í hóp hinna mörgu, sem hefur tekizt að bjóða hernaðarmætti Bandaríkjanna birginn. Fyrir voru meðal annarra í þeim hópi þjóðarskelfarnir Saddam Hussein í Írak og Gaddafi í Libýu, Milosevits í Serbíu og Karadzic í Bosníu, Cédras og Francois á Haiti.

Stjórnin í Washington hefur ekki áttað sig á samhengi þessara vandræða sinna. Þess vegna var utanríkisráðherra hennar enn einu sinni að hóta Serbum loftárásum í síðustu viku, jafnvel þótt öllum sé ljóst, að ekki stendur til, frekar en fyrri daginn, að standa við stóru orðin.

Hnignun Bandaríkjanna sem forusturíkis Vesturlanda hefur orðið að hruni á fyrsta valdaári Clintons forseta. Alls staðar sjá Aididar, Saddamar og Cédrasar heimsins, að Bandaríkin eru orðin að pappírstígrisdýri, sem urrar í sífellu, en er að verða tannlaust með öllu.

Bandaríkin eru ekki ein um þennan vanda. Brezka og franska ríkisstjórnin bera mesta ábyrgð á hörmungunum í Bosníu. En Bretland og Frakkland telja sig ekki vera heimsveldi og hafa því ekki úr eins háum söðli að falla og Bandaríkin, sem enn telja sig heimsveldi.

Hnignun og hrun Vesturlanda sem máttarstólpa friðar á jörð kemur beint í kjölfarið á hruni og hvarfi óvinarins í mynd voldugra Sovétríkja. Í ljós er að koma, að bindiefnið í alþjóðapólitískri velgengni Vesturlanda var einmitt hin hernaðarlega spenna milli austurs og vesturs.

Á sama tíma hefur sjónvarpsöldin fært Vesturlöndum foringja, sem lítið bein hafa í nefinu og eru sífellt að reyna að hlaupa á eftir ótryggu almenningsáliti eins og það er á hverjum tíma. Kjósendur eru að hætta að velja sér foringja og velja sér sjónvarpsstjörnur í staðinn.

Bandarískir kjósendur sjá ekki lengur neinn óvin í austri og þeir þola ekki lengur að sjá bandarískt blóð í stríðsfréttum sjónvarps. Bandarískir foringjar sjá þessa stefnubreytingu og taka afleiðingunum á þann hátt, að þeir kasta frá sér heimsveldishlutverki Bandaríkjanna.

Ein afleiðinga hrunsins er, að andstæðingar lýðræðis og annarra vestrænna hefða færa sig upp á skaftið. Áhrifasvæði Vesturlanda mun dragast saman. Um leið verða Vesturlönd innhverfari en áður, einkum þó Bandaríkin, þar sem einangrunarstefna hefur lengi blundað.

Með aukinni innhverfu og einangrunarstefnu á Vesturlöndum munu magnast átök um viðskiptahagsmuni, þannig að fríverzlunarstefna mun verða að víkja fyrir verndar- og sérhagsmunastefnu á borð við þá, sem einkennir aðalstöðvar Evrópusamfélagsins í Bruxelles.

Þegar Sovétríkin hrundu að innan, stóðu Vesturlönd á krossgötum. Þau hafa kosið að fara ekki leiðina í átt til heimsyfirráða vestrænna hefða í lýðræði og fríverzlun, heldur í átt til innhverfu og einangrunar. Þau hafa látið hjá líða að fylgja eftir sigrinum í austri.

Hnignun og hrun Vesturlanda er beint framhald af hnignun og hruni Sovétríkjanna, stutt af kjósendum, sem í vaxandi mæli velja sér núll og nix sem leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV