Vaxandi sveiflur

Greinar

Kosningaúrslitin í Kanada sýna ótrúlega sveiflu. 170 þingmanna Íhaldsflokkur, sem hafði meirihluta á þingi, situr eftir með tvo þingmenn, er mega ekki kalla sig þingflokk. Tveir nýir þingflokkar fengu rúmlega 50 þingmenn hvor og Frjálslyndir rúmlega tvöfölduðu þingstyrk sinn.

Í Kanada eru einmenningskjördæmi, sem magna fylgissveiflur. Meðan Íslendingar búa við listakjördæmi, má ekki búast við kanadískum úrslitum hér á landi. En sveiflur hafa líka vaxið hér á landi og verða ekki minni í náinni framtíð, ef miðað er við skoðanakannanir.

Ekki er lengur deilt um nákvæmni skoðanakannana hér á landi. Nokkrir aðilar kanna skoðanir almennings og nota nokkrar aðferðir til þess. Í öllum tilvikum sýna þessar kannanir sömu sveiflur í fylgi flokkanna. Stærðfræðilega eru þessar sveiflur greinilega marktækar.

Kannanir eru hins vegar ekki kosningar. Margir kjósendur hafa ekki gert upp hug sinn, þegar skoðanir eru kannaðar, en eru búnir að því, þegar þeir standa í kjörklefanum. Margir kjósendur skipta um skoðun við lok kjörtímabils. Spágildi kannana er því takmarkað.

Þær eru þó einu spárnar, sem við höfum. Samkvæmt þeim hafa stjórnarflokkarnir tveir glatað trausti í samstarfinu. Fylgi þeirra mælist mun minna en í kosningunum, forustumenn þeirra hafa persónulega lítið fylgi og búa raunar sumir við meiri óvinsældir en vinsældir.

Raunar er aðeins einn foringi í stjórnarliðinu, sem nýtur trausts meðal kjósenda. Það er Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, sem hefur verið í hlutverki eins konar stjórnarandstöðu í stjórninni og er þar gersamlega einangruð. Hún nýtur ekki trausts samráðherra.

Verst er staða Alþýðuflokksins og hefur enn versnað við ráðherraskipti flokksins. Til sögunnar eru komnir tveir skrípakallar, sem fæla kjósendur frá sér og flokknum í hvert skipti, sem þeir sjást á skjánum, enda eru þeir af tegundinni, sem ekki nennir að kynna sér mál.

Athyglisvert er, að í könnunum blómstra flokkar og leiðtogar, sem sárasjaldan sjást á skjánum. Steingrími og Halldóri og Ingibjörgu Sólrúnu bregður þar fyrir svo sem einu sinni í mánuði, en flokkar þeirra, Framsókn og Kvennalisti, eru að nálgast meirihluta í könnunum.

Á sama tíma eru ráðherrar fjármála og utanríkismála, heilbrigðismála og landbúnaðar, svo og forsætisráðherra nánast daglega í stofum almennings. Það er greinilega tvíeggjað að vera á skjánum. Slíkt þarf að vanda og hafa í hófi eins og annað góðgæti í lífinu.

Jarðvegur hefur um langt árabil verið góður fyrir nýjar stjórnmálahreyfingar, Sjaldnast hafa þær orðið langlífar, enda er auðveldara að sigra í einni orrrustu en að halda úti heilu stríði, kosningar eftir kosningar. Að þessu sinni eru engar slíkar hreyfingar á ferð.

Skilin milli stjórnmálaflokka eru orðin dauf og áhugi fólks á þeim hefur minnkað. Landsfundir og flokksráðsfundir stjórnmálaflokka eru að verða eins konar limbó, sem er í litlu samhengi við raunveruleika þjóðarinnar um þessar mundir. Hinum óákveðnu fjölgar stöðugt.

Í þessu ástandi ætti að vera betra að fiska en oft áður. Góð færi eru fyrir nýja flokka og leiðtoga eða nýuppgerða flokka og leiðtoga eins og andrúmsloftið er núna. Og alls ekki er fráleitt, að þjóðin vilji eitthvað annað en núverandi stjórnmálaþvælu og sérhagsmunaræktun.

Íslenzk stjórnmál hefðu gott af kosningasveiflum að kanadískum hætti. Limbó líðandi stundar hefur gengið sér til húðar og framtíðin er opin upp á gátt.

Jónas Kristjánsson

DV