Gullna hananum virtist lítillega hafa daprazt flugið efst við Laugaveginn. Líklega var ég óheppinn, að eigandinn skyldi ekki vera við í neitt skiptið, sem ég sótti staðinn heim í þessari atrennu. Eldhúsið var mistækt, einkum í súpum, og gestamóttaka ekki eins fín og þegar eigandinn var sjálfur í hlutverkinu. Þeir réttir, sem mestu máli skiptu, voru þó góðir og þjónustan var í góðu lagi.
Verð er jafnan hið sama í veitingahúsum, þótt lykilmenn séu fjarverandi úr eldhúsi eða sal. Slíkt jafngildir yfirlýsingu um, að gæðin eigi að haldast, þrátt fyrir fjarvistir þeirra, sem gefa staðnum tóninn. Gestir eiga rétt á óbreyttum gæðum við allar aðstæður, ef verð er óbreytt.
Sumt hefur batnað. Nýr forskáli kemur í veg fyrir, að næði um gestina, sem næst sitja dyrum. Og fatahengi er komið á hlédrægari stað. Að öðru leyti er útlitið hið sama og áður, einfalt og vandað, að frátöldum skrautlegum bar, sem sést sem betur fer ekki víða að úr salnum.
Hálfsúlur og bogarið á veggjum, málverk Sólveigar Eggerz Pétursdóttur, reitað speglaloft, teppi og parkett einkenna staðinn nú sem fyrr. Þetta er notalegur staður, þótt hann sé ekkert hólfaður niður, og raunar dálítið góðborgaralegur. Hávaði úr gjallarhornum í hádegi og að kvöldi bætti ekki þessa mynd, en fékkst lækkaður.
Í hádeginu var hægt að fá súpu og rétt dagsins á 1140 krónur eða velja af hádegisseðli, þar sem þríréttað kostaði 2230 krónur. Á kvöldin var meðalverð á þríréttuðu 3130 krónur. Gullni haninn er fremur dýr staður.
Súpa dagsins var afar þykk hveitisúpa hlutlausrar ættar og gleymanleg. Með henni var léttristað fransbrauð með mjúku smjöri. Ofnbökuð grálúða dagsins var milt elduð og mikið pipruð, með mildri hvítvínssósu, smáum rækjum og léttilega elduðu grænmeti, ágætur matur.
Skeldýrakæfa á salatbeði var mjúk og góð, með hæfilega sterkri hvítlaukssósu. Hafrasteikt ýsuflök voru ofelduð og þurr, borin fram með góðu fiðrildapasta og góðri sojakryddsósu, sem björguðu réttinum fyrir horn.
Tómatbætt sjávarsúpa var afar þykk eins og súpa dagsins, með fjölbreyttu innihaldi, ekki spennandi. Blandaðir sjávarréttir kaldir höfðu meðal annars að geyma reyktan lax, vafinn um fiskikæfu; smáar rækjur góðar; góðan humar, seigan smokkfisk ekki góðan; afar saltan fisk leginn, sérkennilegan rétt; með rjómasósu og lime.
Í millirétt var gróft og létt vínberjakrap, fremur gott. Með aðalréttum var staðlað grænmeti, vel með farið í eldhúsi, léttilega soðið; brokkál, blómkál og rósakál, svo og seigar kartöflur, sem mér fannst vera endurhitaðar.
Pönnusteikt lúða var góð, með hæfilega mildri camembert-sósu og hvítvínssmjöri. Glóðaður lambavöðvi var rauður, sæmilega meyr og bragðgóður, vel pipraður, með góðri og sterkri sinnepssósu. Villikryddaðar svartfuglsbringur voru hæfilega eldaðar, meyrar, góðar og rauðar.
Rjómaís með fjölbreyttum berjum var góður, með góðri og sterkri jarðarberjasósu og súkkulaðihúðum kremhnappi. Rjómaostaterta var þétt, með mildri kirsuberjasósu og kiwi. Heimalagaður sveskjuís var góður, með mintu og mildu skyrkremi. Allir eftirréttir voru góðir.
Tveir eftirrétta voru á matseðli sagðir “gómsætir”, alveg eins og hinir væru það ekki. Seðla þarf að semja með gát.
Jónas Kristjánsson
DV