Agi og sjálfsvirðing

Greinar

Það er sök ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra sem verkstjóra hennar, að Ísland hefur að undanförnu ekki staðið við alþjóðlega viðskiptasamninga, hvorki nýlegan samning um Evrópska efnahagssvæðið né gamlan sáttmála á vegum alþjóðlega fríverzlunarklúbbsins GATT.

Ráðherrar voru í vor ósammála um, hvaða breytingar ætti að gera á búvörusamningi um leið og honum yrði breytt til samræmis við Evrópusamninginn. Landbúnaðarráðherra vildi að venju nota tækifærið til að bæta við hann atriðum, sem kosta skattgreiðendur meiri peninga.

Ríkisstjórninni bar skylda til að leysa þennan ágreining milli ráðherra og koma sér saman um frumvarp til lagabreytingar, sem gerði henni kleift að standa við evrópska samninginn. Það gerði hún ekki í vor og hefur ekki enn gert á þessu hausti. Hún er því ber að svikum.

Það er svo sem ekki nýtt, að ríkisstjórnin efni ekki loforð sín á innlendum vettvangi. Verra er, ef slíkt mat hennar á eigin orðum og undirskriftum nær til samninga, sem hún gerir við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir. Slík sjálfsfyrirlitning dregur dilk á eftir sér.

Um leið hefur ríkisstjórnin látið viðgangast, að landbúnaðarráðherra setji reglur, sem brjóta í bága við sáttmála, er Ísland hefur samþykkt í Gatt. Einnig hefur hún látið viðgangast, að fjármálaráðherra vísi erlendum vörum frá með rosagjöldum, sem standast ekki samninga.

Það er skylda ríkisstjórnarinnar og einkum forsætisráðherra sem verkstjóra hennar að sjá um, að ekki séu gerðir aðrir samningar við alþjóðlegar og fjölþjóðlegar stofnanir en þeir, sem hægt er að standa við, og að knýja fram lagabreytingar, er geri þessa samninga marktæka.

Hugsanlegt er, að svik ríkisstjórnarinnar við erlenda viðsemjendur leiði ekki í bráð til refsiaðgerða gegn Íslandi. Þau rýra eigi að síður álit Íslands á erlendum vettvangi og fæla erlend ríki, svo og fjölþjóðlegar og alþjóðlegar stofnanir frá frekari samningum við Ísland.

Þetta er slæmt veganesti inn í framtíð, þar sem velferð þjóðarinnar verður í auknum mæli háð vilja annarra ríkja og ríkjabandalaga til að kaupa af okkur sjávarafurðir og aðra framleiðslu okkar. Samningssvik hefna sín beint eða óbeint á skömmum eða löngum tíma.

Ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á, að landbúnaðarráðherra fær að leika lausum hala og valda neytendum og skattgreiðendum árlegum milljarðabúsifjum með búvörusamningum við þrýstihópa landbúnaðar og með einokunarreglugerðum, sem hann gefur út á færibandi.

Þetta árlega milljarðatjón í landbúnaði hefur búið til efnahagsástand, sem er svo slæmt, að ríkisstjórnin hefur gefizt upp við að reyna að stjórna af viti og hefur ákveðið að láta reka á reiðanum að færeyskum hætti. Hún ætlar nú að stórefla skuldasöfnun sína í útlöndum.

Agaleysið og ábyrgðarleysið í ríkisstjórninni veldur því, að á fimm ára tímabili, frá 1990 til 1995, hækkar greiðslubyrði þjóðarinnar gagnvart útlöndum úr 20% af útflutningsframleiðslu í 40% af útflutningsframleiðslu, ef ekki verður gripið í taumana á næstu mánuðum.

Ríkisstjórnin hefur í auknum mæli leiðst til að afgreiða ágreining á kostnað neytenda. Bann hennar við innflutningi á ýmsum ódýrum vörum, nú síðast gúrkum, er óbein stríðsyfirlýsing gegn almenningi, sem næði betri lífskjörum, ef staðið væri við erlenda samninga.

Skortur á aga og sjálfsvirðingu í ríkisstjórn og raunar einnig í stuðningsflokkum hennar á Alþingi á drjúgan þátt í ýmsum ógöngum þjóðarinnar að undanförnu.

Jónas Kristjánsson

DV