Naust

Veitingar

Matreiðsla í Naustinu er fremur góð og traust, en hættir sér lítt út í breytingar eða tilþrif. Matseðillinn er að breytast um þessar mundir eftir að hafa verið óbreyttur í nokkur ár, en breytingin er varfærin og íhaldssöm.

Naustið er að mestu dottið af markaði hádegisverða kaupsýslumanna og hefur sennilega aldrei verið á markaði mataráhugafólks, þótt matreiðslan hafi undanfarin ár verið betri en hún var á frægðarárum staðarins, enda gerði samkeppnin þá minni kröfur en hún gerir nú.

Fyrst og fremst er Naustið fyrir vel stæða ferðamenn, það er að segja funda- og ráðstefnufólk. Staðurinn er einstæður; rómantískur og stílhreinn í senn. Hann er þrauthannaður án þess að vera ofhlaðinn. Hann er einn bezt heppnaði rammi utan um veitingar, sem ég hef kynnzt á Vesturlöndum og þá er töluvert mikið sagt.

Raunar á Naustið líka erindi til Íslendinga, því að það þjónar annars vegar svo vel því hlutverki veitingastaðar að búa til viðfelldið andrúmsloft og hins vegar að bjóða veitingar, sem eru af föstum og slysalausum gæðastaðli.

Naustið er dýrt á kvöldin. Þá er hægt að velja af matseðli séríslenzkra rétta fyrir 2.980 krónur þríréttað og af fastaseðli fyrir 3.935 krónur, einning þríréttað. Síðari talan sýnist mér vera Íslandsmet. Í hádeginu er verðið hóflegra. Þá er hægt að fá súpu dagsins og val milli um það bil sjö aðalrétta á 1.110 krónur að meðaltali.

Á íslenzka matseðlinum eru þrjár síldartegundir og reyktur og grafinn lax, lambahryggur, hangikjöt og lax, bláberjaskyr og ostakaka. Þetta er mjög við hæfi útlendinga, en gefur íhaldssama mynd af íslenzkri matargerð.

Súpa dagsins var fremur góð blómkálssúpa með volgum heilhveitikollum og smjöri í bolla. Tindabikkja var hæfilega pönnusteikt, en tæpast volg, borin fram með hvítlauks- og gráðostasósu. Lundabringur voru léttsteiktar og bragðgóðar, bornar fram með hlutlausri og hveitiþykkri villibráðarsósu og títuberjasultu.

Meðlæti var staðlað, bæði í hádegi og að kvöldi, nema hvað kartöflur voru soðnar með fiski og bakaðar með kjöti. Stöðlun meðlætis er yfirleitt merki þess, að menn séu ekki mjög stoltir og framgjarnir í eldhúsi.

Hrásalat var ekki á sérdiski, svo að sósan rann saman við það og gerði fremur hráslagalegt. Soðið meðlæti, aðallega brokkál, var yfirleitt mildilega meðhöndlað.

Sniglar og smokkfiskur á smjördeigskodda er klassískur Naustréttur, yfirleitt mjög góður. Tvenns konar hrogn með eggjarauðu og ristuðu brauði var líka góður forréttur, en nokkur yfirgnæfður í bragði af hráum lauki.

Ofnsteikt Pekingönd var ágæt, borin fram með appelsínusósu að hefðbundnum hætti. Nautasteik var meyr og bragðgóð, borin fram með bragðsterkri rauðvínssósu.

Kryddlegnir ávextir voru margs konar og allir ferskir, bornir fram í ljósri og góðri hvítvínssósu. Ostatertan var þétt og falleg, á góðum botni úr hnetumassa, borin fram með sultu, jarðarberjum og blæjuberjum.

Þjónusta Nausts er góð og hæfir vel notalegum húsakynnum og stöðu hússins sem eins af helztu gluggum íslenzkrar veitingamennsku gagnvart gestkomandi útlendingum. Ef framtak væri heldur meira í eldhúsi, féllu allir þættir staðarins í sama og góða farveginn.

Jónas Kristjánsson

DV