Bæjarstjórinn í Njarðvíkum var formaður nefndar, sem samdi tillögu um sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn í Njarðvíkum hefur unnið leynt og ljóst að því að spilla kynningu málsins og koma í veg fyrir, að það verði samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu.
Þannig hefur einn og sami maðurinn forustu um að búa til tillögu, sem hann síðan hefur forustu um að fella. Lengra verður tæpast gengið í tvískinnungi. Því miður hafa fleiri sveitarstjórnarmenn sýnt svipaðan skort á sjálfsvirðingu við varðveizlu á atvinnu sinni.
Til skamms tíma létu margir sveitarstjórnarmenn sér nægja að samþykkja sameiningartillögur í umdæmanefndum og fara síðan í felur. Síðustu daga hafa þeir hins vegar gerzt áræðnari í andstöðunni, enda er ekki nema hálf önnur vika til almennu atkvæðagreiðslunnar.
Dæmi um það er bæjarstjórn Seltjarnarness, sem um helgina lét dreifa kynningarbæklingi, þar sem sameiningartillagan er formlega kynnt. Aftan við hvern kafla kynningarinnar eru feitletraðar og undirstrikaðar athugasemdir, þar sem áherzla er lögð á rök gegn sameiningu.
Feita letrið og undirstrikanirnar leyna ekki skoðunum höfunda kynningarbæklingsins. Það gerir ekki heldur inngangur hans, þar sem beinlínis er klykkt út með því að segja, að bæjarfélagið hafi nú þegar og án sameiningar “alla burði og getu” til að sinna verkefnum sínum.
Röksemdirnar gegn sameiningu geta verið réttar, einkum í sveitarfélögum, sem hafa þúsundir íbúa fyrir sameiningu. Þegar bæjarstjórar og heilar bæjarstjórnir á slíkum stöðum leggjast gegn sameiningu, er eðlilegt, að íbúarnir fallist á það sjónarmið í atkvæðagreiðslunni.
Við slíkar aðstæður er svo vonlaust að leggja sameiningu fyrir kjósendur, að það er ekkert annað en sóun á tíma og peningum. Þess vegna hlýtur að teljast vera ábyrðarskortur sveitarstjórnarmanna að framleiða tillögur, sem þeir síðan láta fella í heimabyggðinni.
Sums staðar hafa hreppar sameinazt án átaks að utan. Þannig hefur Austur-Barðastrandarsýsla sameinazt, svo og Eyjafjarðarsveit og Skaftársveitir. Slík sameining getur haldið áfram á stöðum, þar sem hún er talin knýjandi og þar sem samstarf sveitarstjórna er orðið gott.
Þetta gerist hins vegar ekki með heildarátaki um allt land. Það hefur komið í ljós í aðdraganda almennu atkvæðagreiðslunnar, sem á að verða 20. nóvember. Ekki dugir að troða sameiningu upp á sveitarstjórnir, sem ætla að sjá til þess, að sameining verði felld.
Þegar settar eru fram hugmyndir um róttæka sameiningu sveitarfélaga, verður að hafa í huga, að margir sveitarstjórar missa vinnu og margir sveitarstjórnarmenn missa spón úr aski sínum, ef hún nær fram að ganga, og að hjarta margra þeirra slær nálægt veskinu.
Aðferðin við að drepa málinu á dreif hefur komið málstað sameiningar í opna skjöldu. Sveitarstjórnarmenn smíða fyrst sameiningartillögu í umdæmanefnd, fara síðan undan í flæmingi og enda með því að leggjast gegn tillögunni. Litlum vörnum verður við komið.
Niðurstðan er sú, að mikið er unnið fyrir gýg og að miklum fjármunum er varið af hálfu skattgreiðenda til að fara í gegnum feril, sem hefur ekkert hagnýtt gildi, því að fyrirfram er vitað, að ekkert kemur út úr honum, einmitt vegna andstöðunnar í sveitarstjórnum.
Viðurkenna ber, að tvískinnungum í sveitarstjórnum hefur tekizt að eyðileggja málið. Þess vegna er skynsamlegt að fresta atkvæðagreiðslunni um óákveðinn tíma.
Jónas Kristjánsson
DV