Minnisstæð ábyrgð

Greinar

Félög og félagasambönd launafólks hafa stuðlað að aukinni stéttaskiptingu í landinu síðasta áratuginn. Þessi aukning byrjaði árið 1984 og fór að hraða á sér árið 1986, einkum í svonefndum þjóðarsáttum. Síðustu tvö ár vaxandi atvinnuleysis hafa komið skiptingunni á skrið.

Konur eru fjölmennar í hópi lágstéttarinnar og á lægri stigum millistéttarinnar. Þær stunda lakar greidd störf en karlar og fá minna borgað fyrir sömu vinnu. Margar eru einstæðar mæður. Aukin stéttaskipting á einum áratug hefur í heildina komið sérstaklega hart við konur.

Það er því ofur eðlilegt, að pólitísk samtök kvenna veki umfram aðra athygli á lélegri frammistöðu samtaka launafólks í málefnum kvenna. Árangursleysið á þessu sviði er þó að verulegu leyti þáttur í almennu getuleysi þeirra og áhugaleysi um velferð lágstéttarinnar.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við lækkað ris á velferðarkerfi almennings. Það er að verða dýrara að veikjast og senda börn í skóla. Lágstéttin stendur í vaxandi mæli frammi fyrir að þurfa að velja lakari kostinn, af því að betri kosturinn er henni ofviða.

Þjóðarsættir samtaka launþega hafa farið saman við aukið bil milli tekna hinna bezt settu í þjóðfélaginu og þeirra, sem eru á nöktum töxtum eða atvinnuleysisbótum. Fimmtánfaldur munur er orðinn á tekjum ráðherrans og Sóknarkonunnar, en var áður minna en tífaldur.

Yfirstéttin í landinu hefur komið sér hjá aðild að samdrætti þjóðartekna. Hún hefur raunar bætt stöðu sína umtalsvert á þessu tímabili. Millistéttin og lágstéttin hafa tekið á sig alla minnkun þjóðartekna. Það er millistéttinni þungur baggi og lágstéttinni sligandi baggi.

Í grófum dráttum má skipta þjóðinni í þrjá hluta, tíu prósent yfirstétt og tíu prósent undirstétt og áttatíu prósent millistétt. Þetta hefur ekki verið mælt hér á landi, en er ekki fjarri því, sem hefur lengi mælzt í Bandaríkjunum. Millistéttin er hér alténd langsamlega fjölmennust.

Yfirstéttin stjórnar flestu því, sem máli skiptir í þjóðfélaginu og skammtar sér lífskjör, sem fara batnandi á sama tíma og lífskjörum annarra hrakar. Innan yfirstéttarinnar vex tillitsleysi gagnvart lítilmagnanum og græðgi í lífsins gæði, eins og áður gerðist í Bandaríkjunum.

Millistéttin býr við sæmilegan kost á ýmsum forsendum. Í mörgum tilvikum afla hjón tvennra tekna, í öðrum hafa menn mikla vinnu, hentuga menntun eða góða aðstöðu í einhverju hinna mörgu kerfa þjóðfélagsins, sem veldur því, að þeir þurfa ekki að sæta nöktum töxtum.

Samtök launafólks gæta einkum hagsmuna millistéttarinnar og reyna að verja hana áföllum. Svonefndur uppmælingaraðall hefur lengi verið einn helzti hornsteinn hinnar íhaldssömu forustu samtaka launafólks. Forustumennirnir sækja fylgi sitt í slíka millistéttarhópa.

Hagfræðilegt ósjálfstæði og hugmyndafátækt veldur því, að þau hafa ekki skorið upp herör gegn áhrifavöldum samdráttarins, annars vegar innflutningsbanni og ríkisstuðningi í landbúnaði og hins vegar fyrirstöðu sjávarútvegs gegn uppboðskerfi veiðileyfa í stað kvótakerfis.

Í skipulegu undanhaldi ósjálfstæðra og hugmyndasnauðra samtaka launafólks er ekkert rúm fyrir hagsmuni hins áhrifalitla minnihluta lágstéttarinnar. Sá hluti er bara skilinn eftir í varnarstríðinu og þjóðarsáttunum, sem varða veg launþegasamtakanna til kreppunnar.

Aukin stéttaskipting er íslenzk staðreynd, kortlögð í heilan áratug. Samábyrgð samtaka launafólks á þessari stéttaskiptingu er staðreynd, minnisstæð staðreynd.

Jónas Kristjánsson

DV