Ísland mun leggja 358%-674% tolla á innflutta búvöru samkvæmt samkomulagi landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra um tilboð landsins í svokölluðum GATT-viðræðum. Lægri tollur verður á örlitlu broti innflutningsins og bann verður á kjöti, mjólk og eggjum.
Þessar rosalegu prósentur segja mikla og átakanlega sögu um íslenzkan landbúnað árið 1993. Að baki þeirra er samanburður á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði. Hann sýnir, að innlenda verðið á búvöru er 4,6 sinnum til 7,7 sinnum hærra en heimsmarkaðsverð.
Það er þessi gífurlegi munur, sem nú kostar íslenzka neytendur marga milljarða króna á hverju ári, líklega tólf milljarða. Landbúnaðarráðherra hefur nú sjálfur staðið að samkomulagi, sem felur í sér viðurkenningu á, að innflutningsbannið kosti 50.000 krónur á mann.
Þetta segir ekki alla sorgarsögu landbúnaðarins. Ofan á tjón neytenda af núverandi innflutningsbanni og rosatollunum, sem eiga að leysa það af hólmi samkvæmt tilboðinu, kemur beinn kostnaður skattgreiðenda eins og hann birtist í fjárlögum hvers árs, um níu milljarðar á ári.
Samtals eru það 85.000-90.000 krónur á ári, sem er herkostnaður hvers Íslendings af landbúnaðarstefnu stjórnvalda, eins og hún birtist í búvörusamningum og í tollatilboðum Íslands á erlendum vettvangi. Þetta eru 350.000 krónur á ári á fjögurra manna fjölskyldu.
Í samanburði við þessar hrikalegu tölur, sem annars vegar má lesa úr fjárlögum ríkisins og hins vegar úr samkomulagi ráðherranna, eru öll önnur efnahagsleg og peningaleg vandamál þjóðarinnar ekkert annað en skítur á priki, sem leysa mætti með afnámi ríkisafskiptanna.
Ef ríkið mundi neita að styrkja landbúnaðinn með innflutningsbanni og tollum, niðurgreiðslum og ýmsum beinum styrkjum og sendi 10.000 manns í staðinn beinar atvinnuleysisbætur í pósti, mundi það ekki kosta nema sex milljarða af þessum 21 milljarðs herkostnaði.
Ef ríkið gerði þetta, fengju 10.000 manns lifibrauð af eins konar skaðabótum af hálfum ríkisins og gætu samt framleitt búvöru, unnið úr henni og selt afurðir að vild, svo framarlega sem alls engar kvaðir eða kostnaður legðust á ríkið í tengslum við þá framleiðslu og sölu.
Um leið og 10.000 manns gætu valið um að setjast í helgan stein eða stunda eins konar frístundabúskap án afskipta ríkisins, mundi þjóðin í heild spara mismuninn, heila fimmtán milljarða króna á ári. Það eru 240.000 krónur á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.
Þjóðin getur notað þessa peninga til að lækka skatta og vöruverð í landinu. Hún getur notað þá til að kosta ýmsa félagslega þjónustu, sem hefur farið halloka að undanförnu. Hún getur notað þá til að stöðva söfnun skulda í útlöndum og fara í staðinn að greiða þær niður.
Þjóðin getur líka notað þessa fimmtán milljarða á ári til að mæta tekjutapi og kostnaðarauka vegna hægfara brottfarar bandaríska varnarliðsins. Hún getur notað þá til að efla menntun í hagnýtum fræðum á nútímasviðum, svo sem í sérhæfðum tölvuiðnaði fyrir sjávarútveg.
Þótt leysa megi ótal vandamál með því að hætta ríkisafskiptum af landbúnaði, ráðgerir ríkisstjórnin að hvika hvergi frá núverandi stefnu. Í nýja tilboðinu til GATT er meira að segja gert ráð fyrir, að setja megi tolla á nauðsynjavörur á borð við hveiti og hrísgrjón.
Með samkomulagi sínu hafa ráðherrarnir staðfest, að engrar undankomu verði auðið úr vítahring landbúnaðarstefnunnar, meðan núverandi flokkakerfi blífur.
Jónas Kristjánsson
DV