Taj Mahal hefur haldið góðri og fyrri reisn í matargerðarlist síðan það flutti á Hverfisgötuna við hlið Regnbogans, en er aðeins opið á kvöldin. Þótt það sé fremur dýrt af indversku veitingahúsi að vera, er það rétt innan við meðalverðlag reykvískra matsölustaða. Aðalréttir kosta um 1395 krónur og þríréttað kostar um 2490 krónur.
Umbúnaður og þjónusta eru í notalegu lagi á Taj Mahal. Mikið er lagt í indverskar skreytingar, þar á meðal hrossalegar eða öllu heldur fílslegar veggmyndir, svo og mikinn tjaldhiminn, sem hlykkjast um svæðið.
Gestir sitja við veggi eða í básum á miðju gólfi. Nokkuð er um, að fólk komi í fjörlegum hópum, enda hæfir það vel indverskum mat. Þá pantar fólk mismunandi rétti, sem eru hafðir á fötum á hitabrettum á miðju borði.
Matseðillinn er langur og nær til nokkurra helztu sviða indverskrar matreiðslu, sem er ein af hinum athyglisverðari í heiminum um þessar mundir. Þar má sjá milda rétti, sem eru ættaðir norðan frá Gengisdal, og sterka rétti, sem eru ættaðir sunnan frá Dekanskaga.
Gott er að byrja á næfurþunnu og stökku brauði, Poppadom, meðan verið að bíða eftir matnum. Með matnum er borðað mjúkt og seigt brauð, Nan, sem er bakað í leirofni. Báðar tegundirnar eru ágætar í Taj Mahal. Hrísgrjón eru sjálfsögð í allan mat, til dæmis soðin og saffrankrydduð Pilau; eða pönnustekt og kryddlituð Birjani, sem oft er beinlínis blandað í aðalrétti.
Forréttirnir voru góðir. Bhaji hétu góðar, djúpsteiktar, kryddaðar laukbollur, óreglulegar í laginu. Puri var gott brauð, sem hlaðið var karrílöguðum rækjum. Dhal var afar góð, þykk og sterk baunasúpa. Samosa voru góðir, djúpsteiktir þríhyrningar, sem voru vafðir um kjöt eða grænmeti. Mulligatavy var mild og góð grænmetissúpa.
Aðalréttirnir voru meira upp og ofan. Vindalú var afar sterkt, edikslegið kjöt í karrí, aðeins fyrir sérvitringa. Á matseðlinum er tekið fram, að það sé afar sterkt, eins og raunar er sagt um marga rétti, að þeir séu sterkir eða mildir. Það á að vera gestum til þæginda og er það.
Tandúrí réttir voru sæmilegir, en ekki eins góðir og þeir fást víða erlendis. Tandúrí er 700 gráðu leirofn og matreiðslan felur oftast í sér karrí- eða saffrankryddaða jógúrtsósu. Tandúrí lambakjöt var vel rautt af kryddi, en ekki nógu meyrt, hafði verið of lengi í ofninum. Tikka Masala kjúklingabringur voru betri, grillaðar í tandúrí, með sósu úr rjóma, möndlum og kókos, mildar og meyrar.
Dhansk er nafn á karríkjöti í sterkri baunasósu af súrsætum toga, nokkuð góðum rétti. Birjani hrísgrjón með grænmeti voru ekki merkileg, enda tæpast volg. Korma með rækjum í góðri karrírjómasósu var mildur og notalegur réttur. Pachanda nautakjöt var fremur gott, borið fram með kryddaðri jógúrtsósu góðri.
Sérstæðir eftirréttir frá Indlandi eru jógúrthristingar, sem hægt er að fá bæði sæta og salta. Hnetuís var ágætur, en nauðsynlegt negulbragðið hefur dofnað með árunum. Einnig er hægt að fá ís með mangóbragði.
Taj Mahal er eina indverska veitingahúsið, sem ég kannast við hér á landi. Þrátt fyrir þá afmörkuðu einokun er staðurinn frambærilegur, bæði í inlendum og er lendum samanburði. Hann er kominn til að vera.
Jónas Kristjánsson
DV