Varnarliðið fer

Greinar

Þjóðinni er ekki gerður greiði með örvæntingar-tilraunum stjórnvalda til að fá bandarísk stjórnvöld til að fresta brottför varnarliðsins á Íslandi eða draga hana á langinn. Nær væri að taka af festu á afleiðingum þess, að varnarliðið er að leka brott að loknu kalda stríðinu.

Hér í blaðinu hefur í nokkur ár verið bent á, að tímabært sé að mæta óhjákvæmilegri brottför varnarliðsins í stað þess að stinga höfðinu í sandinn eins og ekkert hafi í skorizt. Ísland hefur færzt úr miðju átakasvæði heimsveldanna yfir í hernaðarlegan norðurhjara veraldar.

Fyrir tæpum tveimur árum héldu öryggismálafræðingar Íslands ráðstefnu, þar sem þeir stungu sameiginlega höfði í sand og komust að þeirri niðurstöðu, að hernaðarlegt mikilvægi Íslands væri hið sama og áður. Ráðstefnan sýndi, að oft kemur menntun að engu gagni.

Síðan hefur varnarliðið verið að fara. Það hefur fjarlægt ratsjárþotur og fækkað orrustuþotum. Það hefur reynt að stöðva framkvæmdir og tekizt að draga töluvert úr þeim. Þegar núverandi athöfnum lýkur, er ekki hægt að reikna með frekari uppbyggingu á þess vegum.

Gamanfréttir berast af, að forustumenn ríkisstjórnar Íslands séu að reyna að telja bandarískum viðmælendum sínum trú um, að kalda stríðinu sé ekki lokið og að enn stafi ógn af erfðaríkjum Sovétríkjanna. Sagnfræðingar af slíku tagi tala fyrir daufum eyrum viðmælenda.

Eina haldbæra röksemdin er, að varnarliðið megi ekki fara alveg, því að í gildi sé langtímasamningum milli ríkjanna um varnir Íslands. En viðmælendurnir geta haldið fram, að þrjátíu menn dugi til þess, úr því að 3000 manns hafi dugað í mestu frosthörkum kalda stríðsins.

Komið hefur fram, að hinir bandarísku viðmælendur hafa ekki tök á öllum þáttum á sínum enda. Stjórnmálamenn í þinginu vilja í auknum mæli láta leggja niður úreltar herstöðvar í útlöndum til að spara peninga til ýmissa mála heima fyrir, sem þeir telja brýnni.

Framkvæmdir á vegum varnarliðsins hafa verið að dragast saman og munu fljótlega leggjast af. Þjónusta við starfsmenn varnarliðsins mun minnka hratt í hlutfalli við fækkun þeirra. Og í auknum mæli verður kostnaði við rekstur Keflavíkurvallar þrýst á okkar herðar.

Hugsanlegt er, að Atlantshafsbandalagið vilji kosta einhverju til að halda opnum flugbrautum á Keflavíkurvelli fyrir óvænta liðsflutninga og að Alþjóða flugmálastofnunin vilji taka þátt í að halda opnum varaflugvelli fyrir tveggja hreyfla úthafsþotur í farþegaflugi.

Ennfremur er hugsanlegt, að Atlantshafsbandalagið vilji halda uppi einhverju af hinu nýtízkulega ratsjáreftirliti, sem komið hefur verið upp hér á landi. En það má gera með tiltölulega fámennu starfsliði íslenzku. Á sama hátt er hægt að halda opnum vara- og viðlagaflugvelli.

Hermang Íslenzkra aðalverktaka er um það bil að leggjast niður og þar með mestöll vinna við framkvæmdir á Keflavíkurvelli. Einnig mun minnka mikið vinna við rekstur mannvirkja. Þar á ofan er og verður krafizt, að Ísland auki þátttöku sína í kostnaði við flugvöllinn.

Fyrir löngu hefðu íslenzk stjórnvöld átt að vera farin að skilja gang sögunnar. Þau hefðu fyrir löngu átt að hætta að þjónusta einokunaráráttu Flugleiða og búa í þess stað í haginn fyrir alþjóðlegt vöruflug um Keflavíkurvöll og íslenzk fríhafnarsvæði í tengslum við það.

Aumar hafa verið tilraunir stjórnvalda til að efla atvinnutækifæri á Suðurnesjum í stað þeirra, sem óhjákvæmilega fara forgörðum vegna fráfalls kalda stríðsins.

Jónas Kristjánsson

DV