Lestin brunar hjá

Greinar

Því færri kostir sem eru í boði, þeim mun auðveldara er kjósendum í Reykjavík að átta sig og taka afstöðu. Við val á milli aðeins tveggja lista fækkar óákveðnum og öðrum þeim, sem ekki svara, úr 45% niður í 18%. Allur þorri mismunarins styður sameinaðan lista.

Þetta er ein af niðurstöðum könnunar DV á skoðunum 600 kjósenda, sem birt var í blaðinu í gær og í fyrradag. Þar kom líka fram, að ekki er nóg með, að kjósendur styðji sameinaðan lista, heldur vilja þeir beinlínis velja milli tveggja nafngreindra borgarstjóraefna.

Í ljós kom, að sameinaður listi gegn núverandi meirihluta mundi fá 54% fylgi á móti 46% og að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur 52% fylgi á móti 48% fylgi Markúsar Arnar Antonssonar. Aðrir þeir, sem nefndir hafa verið, komust varla á blað í skoðanakönnuninni.

Litlu flokkarnir komast ekki lengur hjá því að vita, að sameinaðir geta þeir náð meirihluta í borginni og annars alls ekki. Og þeir komast ekki heldur lengur hjá því að vita, að þeir geta boðið vinsælt borgarstjóraefni, sem slær við sjálfum borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins.

Sennilega ýta mislukkaðir ráðamenn litlu flokkanna þessari óþægilegu staðreynd út af borðinu, af því að þeir óttast, að borgarstjóraefnið skyggi á þá sjálfa og að elsku litli flokkurinn þeirra sjálfra hætti að vera til, bráðni hreinlega í birtunni af sameiginlega framboðinu.

Niðurstöðurnar stríða gegn þeirri skoðun, að fjölbreytt framboð laði samanlagt að meira fylgi, af því að þá fái hver tegund sérvizku sinn griðastað og að síðan geti hinar ýmsu sérvizkur sameinazt um nægan meirihluta til að stjórna því kerfi, sem kosið er til.

Hingað til hafa margir talið, að heildarfylgi komist ekki til skila í sameinuðu framboði. Vísað er til reynslunnar af slysum á borð við af Hræðslubandalagið. En það bandalag var annars eðlis, því að þá studdu flokkar bandalagsins framboð hins á víxl eftir kjördæmum.

Ekki er heldur alltaf tækifæri til að nýta kosti sameiginlegra framboða. Ýmsar aðstæður geta valdið því, að fylgi kvarnist af jöðrum slíkra framboða og að þau nái ekki að grípa hugi kjósenda sem virkt og öflugt afl þeirra hluta, sem gera þarf. En tækifærið virðist þó vera núna.

Skoðanakönnunin sýnir einfaldlega, að meðal óákveðinna kjósenda sé mikill vilji til að skipta um meirihluta í Reykjavík og að sá vilji muni fá útrás, ef af sameiginlegu framboði smáflokkanna verður og ef Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður borgarstjóraefni framboðsins.

Könnunin sýnir líka, að viljinn fær ekki útrás, ef smáflokkarnir gauka áfram hver í sínu horni. Á þann hátt afla þeir ekki trausts meðal óákveðinna kjósenda. Á þann hátt vantar fókusinn, sem vera þarf að mati kjósenda, sem vilja hreinar og afdráttarlausar línur.

Dæmigerður kjósandi í nútíma kærir sig ekki mikið um smáatriði í raunverulegum eða ímynduðum mismuni flokka. Hann vill taka afstöðu í stórum línum og hann telur persónu lykilframbjóðandans skipta miklu máli. Það, sem hann vill í raun, er tveggja flokka kerfi.

Sú leið, sem smákóngar litlu flokkanna munu helzt sjá úr ógöngum sínum, er að halda áfram þeirri stefnu að bjóða fram í mörgu lagi, en gefa viljayfirlýsingu um stuðning við sameiginlegt borgarstjóraefni. Sú leið mun ná nokkrum árangri, en tæpast þeim, sem máli skiptir.

Kirkjugarður stjórnmálasögunnar er fullur af lítils háttar köllum, sem ekki höfðu vit á að stökkva um borð, þegar lestin brunaði hjá og hvarf inn í framtíðina.

Jónas Kristjánsson

DV