Kreppan kemur á næsta ári

Greinar

Verðmæti sjávarafla upp úr sjó hefur aukizt frá því í fyrra um hálfan milljarð króna. Fyrstu tíu mánuði þessa árs nam það 42,3 milljörðum króna, en hafði verið 41,8 milljarðar á sama tíma í fyrra. Magnið hefur líka aukizt nokkuð, um 200 þúsund tonn í 1.500 þúsund tonn.

Þessar ánægjulegu staðreyndir stríða gegn tuggunni um, að efnahagskreppan í landinu sé aflabrögðum að kenna. Aflabrögð eru raunar með bezta móti og verðmæti aflans stórkostlegt. Kreppan er hins vegar heimatilbúin, pólitísk framleiðsla ráðamanna þjóðarinnar.

Nokkur tilfærsla milli tegunda rúmast innan breytingarinnar á aflabrögðum. Þannig hefur þorskafli minnkað um 15 þúsund tonn í 211 þúsund tonn. Það er nú allt og sumt hrunið í þorskveiðum, sem hver étur upp eftir öðrum í tilraunum til að vísa vandanum á náttúruöflin.

Það er ekki einu sinni rétt, að lítillega breytt aflasamsetning hafi komið Vestfjörðum sérstaklega illa. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Þær segja okkur, að atvinnuleysi sé hvergi minna á landinu en á Vestfjörðum og hafi raunar minnkað þar milli ára úr 1,7 í 1,4%.

Miðað við íbúafjölda er atvinnuleysi þrefalt meira í Reykjavík og á Norðurlandi eystra, um og yfir 4% og fer ört vaxandi. Ráðstafanir gegn atvinnuleysi ber því einkum að miða við þessa landshluta, en ekki við hina, þar sem menn eru leiknastir við að barma sér opinberlega.

Ekki er heldur rétt, að skynsamlegt sé að miða ráðstafanir í efnahagsmálum við sem mestan fjölda starfa af völdum hverrar ráðstöfunar. Eina skynsamlega viðmiðunin er sem mest arðsemi vinnu og fjármagns, því að hún ein getur staðið undir vexti efnahagslífs.

Meðal annars er haldið fram, að efla beri smábáta á kostnað stærri skipa, því að hinir fyrri veiti fleiri störf á hver þúsund tonn. Það sem raunverulega er verið að segja með þessu, er, að arðsemi vinnu um borð í smábátum sé minni en arðsemi vinnu í stórum skipum.

Þegar menn halda fram, að efla beri atvinnuþætti með miklu vinnuafli og lítilli arðsemi vinnunnar, eru menn að reyna að dæma þjóðina til langvinns þrældóms í þjóðfélagi lífskjararýrnunar. Það er hin kalda staðreynd andspænis kenningum um gildi atvinnuskapandi aðgerða.

Merkilegasta breytingin á sjávarútveginum er innreið frystitogara. Þrátt fyrir mikinn fjármagnskostnað þeirra eru þeir langsamlega arðbærastir allra þátta sjávarútvegs. Það er fyrst og fremst þeim að þakka, að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi eru rekin með hagnaði á þessu ári.

Hingað til hefur svokölluð kreppa verið ræktuð í hugum fólks. Stjórnvöldum finnst þægilegt að geta vísað vandamálum til óviðráðanlegs náttúruafls, svo að þau geti haldið áfram að vernda gæludýr úreltra atvinnuhátta og safna skuldum fyrir hönd þjóðarinnar.

Þannig er reynt að tefja fyrir arðbærum tilfærslum og áherzlubreytingum í sjávarútvegi og reynt að varðveita ríkisafskipti af landbúnaði, hvort tveggja með árlegum milljarðakostnaði fyrir þjóðfélagið. Klisjan um kreppuna nýtist stjórnvöldum í þessari varðveizlu fortíðar.

Þetta hefur auðveldað stjórnvöldum að auka greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum úr þeim 20% útflutningstekna, sem þær voru árabilið 1985-1990, í tæplega 30% á þessu ári. Með ráðagerðum stjórnvalda fyrir næsta ár fer þessi greiðslubyrði í 36% á því ári.

Með þessu framhaldi verður raunveruleg kreppa í landinu. Hún hefst á næsta ári, meðal annars af því að markaðslögmálin hafa verið tafin í atvinnulífinu.

Jónas Kristjánsson

DV