Fordómur ráðherrans

Greinar

Ef menn koma með kenningar, sem stríða gegn viðurkenndum fræðum, verða þeir að rökstyðja þær vel. Þeir, sem kasta fram slíkum kenningum órökstuddum, verða tæpast taldir viðræðuhæfir. Nema þeir séu ráðherrar og geti sem slíkir látið mikla bölvun af sér leiða.

Tugir og sennilega hundruð rannsókna í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós, að áfengissýki er arfgengur sjúkdómur. Meðal upplýsingaforðans, sem myndazt hefur, eru rannsóknir á mismunandi afdrifum margra eineggja tvíbura, sem fengu mismunandi fóstur og uppeldi.

Til er gamalt og viturt spakmæli, sem segir, að fjórðungi bregði til fósturs. Læknavísindi nútímans virðast hneigjast að svipaðri niðurstöðu um orsakir fjölmargra sjúkdóma. Þeir eru margir hverjir að mestu leyti arfgengir, en að hluta til háðir áunnum umhverfisþáttum.

Þetta gildir um marga algengustu sjúkdóma nútímans. Með heilbrigðu lífi getur fólk dregið úr líkum á krabbameini og hjartasjúkdómum, þótt það megni ekki að koma í veg fyrir arf sinn, sem getur falið í sér hættu á þessum sjúkdómum. Hið sama gildir um áfengissýki.

Þegar fávís heilbrigðisráðherra Íslands segir áfengissýki vera áunna, er ekki meira sannleikskorn í því en, að krabbamein og hjartasjúkdómar séu áunnir, svo og endalaus röð sjúkdóma, sem hlaða heilbrigðiskerfið kostnaði. Fjórðungi þeirra bregður til fósturs.

Þegar ráðherrann segir, að fólk eigi að borga kostnað við einn sjúkdóm af þessu tagi, ætti hann um leið að segja, að fólk eigi að borga kostnað við krabbamein sitt og hjartasjúkdóma. Það verður að vera sístem í galskapnum, ef ráðherrar flagga kenningu sjálfskaparvítis.

Svo hlálega vill til, að áfengissjúklingar hafa þá sérstöðu meðal sjúklinga að hafa flestir áður greitt opinber gjöld af áfengi í margfalt meira mæli en sem nemur hinum tiltölulega lága kostnaði við endurhæfingu þeirra. Þeir ættu því ekki hafa minni rétt en aðrir.

Ef ráðherra vill í raun láta svokölluð áunnin atriði eða sjálfskaparvíti ráða því, hvort fólk þarf að borga fyrir heilsuþjónustu eða ekki, á hann að byrja á íþróttunum. Þær eru fyrirferðarmesti þátturinn í vandamálunum, sem rekur á fjörur slysadeilda heilbrigðiskerfisins.

Ef hins vegar er ekki ætlun hans að láta fólk borga fyrir aðgerðir, sem stofnað er til vegna iðkunar íþrótta og annars sjálfskaparvítis, er fráleitt að láta það borga fyrir aðrar aðgerðir, er stafa af sjúkdómum, sem eru að mestu leyti arfgengir. Þar á meðal er áfengissýki.

Ekki er nóg með að nærri allar rannsóknir í Bandaríkjunum á þessum sjúkdómi renni í þennan arfgengisfarveg. Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur tekið mark á þeim og formlega viðurkennt áfengissýki sem sjúkdóm. Og það hefur íslenzka heilbrigðiskerfið einnig gert.

Undir venjulegum kringumstæðum nenna menn ekki að elta ólar við órökstuddar kenningar af tagi ráðherrans. Þar sem hann hefur aðstöðu til að láta frumstæða fordóma sína njóta sín til mikils skaða fyrir þjóðfélagið, er nauðsynlegt að víkja frá hinni venjulegu reglu.

Það er ábyrgðarhluti að blaðra í sífellu á opinberum vettvangi án þess að hafa gert neina tilraun til að setja sig inn í málin, sem eru til umfjöllunar. Það, sem kann að hafa gengið í bæjarmálum Hafnarfjarðar, gengur alls ekki á sérhæfðu sviði á borð við heilbrigðismál.

Ráðherra heilbrigðismála er hvattur til að fara í þagnarbindindi og magna í þess stað upp viljastyrk sinn til að leggja til atlögu við skjölin í ráðuneytinu.

Jónas Kristjánsson

DV