Grýla er fundin

Greinar

Grýla er fundin að nýju. Hún fannst í Rússlandi í kosningunum um helgina og gengur undir nafninu Zhírínovskí. Þar leikur hún hlutverk, sem skiptir ekki minna máli en fyrri hlutverk hennar. Hún sýnir Rússum og nágrönnum þeirra, að fara verður að mörgu með gát.

Eftir á að hyggja er skiljanlegt, að þjóðernisæðingur fái fjórðungs fylgi í Rússlandi. Þar í landi ríkir að mörgu leyti svipað öngþveiti og í Weimar-lýðveldi Þýzkalands eftir fyrri heimsstyrjöldina. Slíkt ástand er kjörinn jarðvegur þjóðernisæðinga á borð við Hitler og Zhírínovskí.

Zhírínovskí er meira að segja ruglaðri en Hitler, svo sem sést af umfjöllun hins fyrrnefnda um Ísland. Hann verður hins vegar ekki eins hættulegur og Hitler fyrr en hann fer að safna um sig vopnuðum dólgasveitum að hætti Hitlers. Það hefur Zhírínovskí ekki gert enn.

Að þessu leyti er hann ekki eins hættulegur og Kashbúlatov var sem þingforseti, þegar hinn síðarnefndi kom sér upp vopnuðum sveitum til mótvægis gegn ríkisvaldi Jeltsíns. Enn sem komið er hefur Zhírínovskí sérhæft sig í stóryrðum einum; og þau eru innan ramma lýðræðis.

Upphaf og ris Þriðja ríkis Hitlers á svipuðu fylgi og Zhírínovskí hefur nú er sagnfræðileg staðreynd, sem hægt er að læra af. Ríkisvaldið verður að hafa bolmagn til að koma í veg fyrir rekstur vopnaðra dólgasveita á vegum stjórnmálaflokks, ef Zhírínovskí reynir slíkt.

Einnig er mikilvægt, að stjórnmálaöfl í Rússlandi átti sig á þeirri reynslu af Hitler, að ekki er hægt að nota þjóðernisæðinga í stjórnarsamstarfi. Þessa sagnfræði skilja bæði framfarasinnar og afturhaldsmenn í Rússlandi og vilja því ekkert hafa með Zhírínovskí að gera.

Þótt þjóðernissinnar og kommúnistar séu öfgaflokkar í Rússlandi, eru þeir það hvorir með sínum hætti. Lífsskoðanir þessara öfgahópa eru svo andstæðar, að óþarfi er að leiða líkur að nánu samstarfi þeirra. Miklu líklegra er, að ýfingar verði með flokkunum, vonandi munnlegar.

Kommúnistar eru einkum studdir af öldruðu fólki, sem saknar öryggisnets velferðar flokksmanna í Sovétríkjunum sálugu, en þjóðernisæðingar eru einkum studdir af því fólki á starfsaldri, sem hefur farið halloka í sviptingum efnahagslífsins í Rússlandi á allra síðustu árum.

Rússar hafa litla reynslu af lýðræði og eru sumir hverjir ginnkeyptir fyrir lýðskrumurum á borð við Zhírínovskí, sem notar einföld slagorð sem svör við öllum hugsanlegum vandamálum og ræktar hvern þann fordóm, sem finnanlegur er í hnignandi þjóðfélagi öreiga.

Það er ekki fín auglýsing fyrir Rússa, að fjórðungur kjósenda skuli styðja mann, sem er róttækari nasisti en Hitler var. Fylgi Zhírínovskís er þó skiljanlegt við þær forsendur, sem þjóðarsaga og þjóðarhagur hafa búið til í Rússlandi. Þeim forsendum þarf að breyta smám saman.

Mikill ágreiningur er milli alvöruflokka Rússlands, annars vegar þeirra, sem vilja halda meira eða minna óbreyttum hraða í átt til vestræns hagkerfis, og hinna, sem vilja hægja á þeirri þróun og jafnvel stöðva hana. Allir geta þeir þó verið samtaka gegn Zhírínovskí.

Einhver málamiðlun milli framfara og kyrrstöðu er vænlegasti kostur Rússlands í framhaldi af þingkosningum helgarinnar. Alvöruflokkarnir verða að hafna þeirri freistingu, að þeir geti grætt á að taka þjóðernisæðinga inn í samstarf um meirihluta á nýkjörnu þingi.

Hin nýja Grýla er raunar gott tækifæri fyrir Rússa, nágranna þeirra og Vesturlandabúa til að rifja upp innreið nasismans og læra af mistökum, sem þá voru gerð.

Jónas Kristjánsson

DV