Nákvæmar upplýsingar um fjármál þýzku stjórnmálaflokkanna birtust í þarlendum blöðum fyrir hálfri annarri viku. Þar birtast slíkar upplýsingar reglulega. Þær eru taldar vera hluti af eðlilegu og lögbundnu upplýsingaflæði þar í landi, svo sem víðast hvar á Vesturlöndum.
Einna lengst hafa Bandaríkjamenn gengið á þessu sviði. Þar er opið bókhald stjórnmálaflokka og stofnana á vegum þeirra, svo og takmarkanir á því fjármagni, sem nota má í kosningabaráttu af ýmsu tagi. Pólitískt samkomulag er þar í landi um, að þetta þjóni lýðræðinu.
Ísland er að þessu leyti ekki í hópi flestra lýðræðisríkja heims. Hér hafa stjórnmálaflokkarnir komizt upp með lítið og lokað bókhald, þótt oft hafi verið bent á vandann. Framkvæmdastjóri stærsta flokksins segist vera hissa á, að sér og slíkum skuli ekki vera treyst.
Í september lögðu átta háskólakennarar til, að hér yrðu settar um þetta hliðstæðar reglur og gilda í nágrannalöndunum. Ekki var tekið mark á tillögunni. Og að undanförnu hafa leiðtogar flokkanna verið að krunka saman um aukið skattfrelsi á framlögum til flokkanna.
Þörfin á opnu bókhaldi stjórnmálaflokka og stofnana á vegum þeirra er meiri hér á landi en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Það stafar af, að hér eru stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn meira en annars staðar í hlutverki skömmtunarstjóra lífsins gæða.
Íslenzkt þjóðfélag er afar miðstýrt. Valdamiklir stjórnmálamenn ráða miklu um gengi stofnana og fyrirtækja úti í bæ. Einkaleyfi, einokun og fáokun blómstra, svo og kvótar og aflamiðlanir af ýmsu tagi. Markaðsvæðing er lítil sem engin, en einkavinavæðing þeim mun meiri.
Í óvenjulega miðstýrðu þjóðfélagi er mikil hætta á óeðlilegum hagsmumatengslum milli stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna annars vegar og hins vegar stofnana og fyrirtækja og þrýstihópa úti í bæ. Birtingarskylda á fjárreiðum flokka dregur úr þessu vandamáli.
Það er blettur á íslenzku lýðræði, að ekki skuli vera hægt að komast að raun um, hvaða fyrirtæki og hvaða þrýstihópar leggja hversu mikið af mörkum til hvaða stjórnmálaflokka í formi peninga, auglýsinga, happdrættismiðakaupa og afsláttarkjara af ýmsu tagi.
Eðlilegt er, að framlög til stjórnmálaflokka séu skattfrjáls að vissu marki, svo að þeir hafi bolmagn til að sinna mikilvægu hlutverki sínu í lýðræðinu. En slíkt skattfrelsi er ótækt nema því fylgi birtingarskylda á beinum og óbeinum framlögum hagsmunaaðila til flokkanna.
Mestu máli skiptir, að almenningur geti áttað sig á meginlínum fjárstreymisins til flokkanna annars vegar og hins vegar á upphæðum þeirra aðila, sem fyrirferðarmestir eru. Minni ástæða er til að tíunda opinberlega félagsgjöld og önnur minni háttar framlög einstaklinga.
Birta þarf heildarupphæð hvers flokks og skiptingu hennar í bein framlög og óbein, svo og skiptingu hennar í félagsgjöld, opinberan stuðning og gjafmilda stórvildarvini. Ennfremur þarf að birta skrá yfir stærstu vildarvini, þá sem fara yfir einhverja viðmiðunartölu.
Úr því að þetta er hægt að gera og er gert í nágrannalöndunum, er engin ástæða til að fara undan í flæmingi hér á landi. Opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna hljóta að vera ágæt aðferð til að efla mikilvægt traust almennings á einum helzta burðarási lýðræðisins í landinu.
Ráðamenn flokkanna vilja ekki hlusta á þetta, af því að þeir telja, að kjósendur muni leyfa sér að komast upp með að hlusta ekki. Og það er því miður rétt ályktað.
Jónas Kristjánsson
DV