Eignir þínar gefnar

Greinar

Við útboð SR-mjöls, opnun tilboða og mat á þeim var ekki farið eftir hefðum og góðum siðum, þótt í húfi væru mörg hundruð milljónir af eign íslenzkra skattborgara. Við 800 milljón króna dæmi var ekki beitt sömu nákvæmni og beitt er við 8 milljón króna dæmi.

Alþjóðlegar hefðir og reglur á þessu sviði eru mörgum kunnar. Tilboð eru til dæmis undantekningarlaust opnuð við formlega athöfn, þar sem gögnin eru rifin upp í viðurvist votta og þeirra, sem að tilboðum standa. Lesnar eru upp niðurstöðutölur tilboðanna við athöfnina.

Síðan hefjast samningar við hæstbjóðandi. Ef í ljós kemur, að tilboð hans er svo gallað, að ekki þykir hættandi á að taka því, er tekinn upp þráðurinn við þann, sem næsthæst bauð. Ákvörðun um slíka breytingu fylgir föstum reglum, sem raktar eru í útboðslýsingu.

Þegar um staðgreiðslu er að ræða, hlýtur að vera erfitt að halda fram, að ekki séu líkur á, að bjóðandi hafi bolmagn til að kaupa. Annaðhvort reiðir hann fram umrædda upphæð eða ekki. Ef hann gerir það ekki, snúa menn sér þá fyrst að næsta aðila, en ekki fyrirfram.

Hver einasta málsgrein í alþjóðlegum stöðlum útboða var brotin, þegar einkavinavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar lét bjóða út SR-mjöl. Tilboðin voru til dæmis opnuð í kyrrþey og umsvifalaust var ákveðið að þiggja ekki staðgreiðsluverð þess, sem hæst bauð í fyrirtækið.

Annaðhvort eru málsaðilar hins opinbera, það er ráðuneytis, nefndar og banka, svo óhæfir til starfa, að þeim er ekki kunnugt um reglurnar, eða þá að þeir eru svo spilltir, að þeim er hjartanlega sama um þær. Önnur hvor skýringin er rétt að minnsta kosti, kannski báðar.

Afleiðing vinnubragðanna er, að skattgreiðendur tapa tugum milljóna, er renna í greipar þeim, sem eru þóknanlegir hinum opinberu aðilum, er stóðu að útboðinu. Þetta er eitt af mörgum dæmum um, að Ísland er ekki alvörulýðræði, heldur bananalýðveldi í þriðja heims stíl.

Eitt einkenna bananalýðvelda er, að gripnar eru alþjóðlegar hefðir og þeim snúið upp í ranghverfu sína, svo sem gert var í útboðsmáli þessu. Svipað má segja um einkavinavæðinguna í heild. Hún siglir undir fölsku flaggi einkavæðingar, en er upptaka á almannafé.

Í alþjóðlegri einkavæðingu er átt við markaðsvæðingu, þar sem fyrirtæki hins opinbera eru sett út á gadd samkeppninnar. Hér á landi felst einkavæðingin fyrst og fremst í, að opinberri einokun er breytt í tvöfalt gráðugri einkaeinokun, samanber Bifreiðaskoðun Íslands.

Framlag Íslands til þessara mála er annars vegar einkavinavæðing og hins vegar einkaeinokunarvæðing, en alls engin markaðsvæðing. Þetta byggist á fullvissu stjórnmálamanna, ráðgjafa þeirra og embættismanna um, að þeir komist upp með það. Kjósendum sé sama.

Er SR-mjöl var gefið einkavinum og sægreifum, hafði það þá aukaverkun að setja sægreifa í þá stöðu, að þeir sitja við tvær hliðar borðs og hafa ekki lengur sömu hagsmuni og sjómenn af háu löndunarverði. Þetta kann að opna augu sjómanna fyrir því, sem kjósendur sjá ekki.

Í máli þessu sker í augu, að ráðherra, ráðgjafar og bankamenn hafa ekki fyrir neinum frambærilegum rökstuðningi fyrir framgöngu sinni. Þeir fullyrða bara í síbylju, að allt tal um röng og spillt vinnubrögð sé á misskilningi byggt, án þess að rökstyðja þá skoðun nánar.

Gjafir sem þessar munu halda áfram meðan kjósendur velja leiðtoga, er líta á kjósendur sem sauðfé, enda hefur ekkert komið fram, sem bendir til, að þeir séu annað.

Jónas Kristjánsson

DV