Grýla verndar hermang

Greinar

Samkomulag Bandaríkjanna og Íslands um framvindu varnarmála felur í sér málamiðlun, sem verndar í tvö ár mestan hluta af atvinnu Suðurnesjamanna af Keflavíkurvelli og sparar ríkinu í tvö ár að horfast í augu við rekstrarkostnað borgaralegrar flugumferðar um völlinn.

Í rauninni felur samkomulagið í sér, að bandaríska varnarliðið hefur lent í því hlutverki að vernda atvinnu Suðurnesjamanna um skeið og spara um leið íslenzka ríkinu verulegan hluta af milljarðakostnaði við fábrotið millilandaflug, sem vaknar til lífsins tvisvar á sólarhring.

Í aðdraganda samkomulagsins um varnarmál kom í ljós, að margir þeir, sem um það fjölluðu af bandarískri hálfu, töldu standa mega við loftvarnarskuldbindingar við Ísland með orrustuflugvélum, sem væru staðsettar utan Íslands, til dæmis í Norfolk í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn eru að reyna að skera niður útgjöld til hermála um 40% og fækka um þriðjung í mannahaldi hersins. Þótt þeim hafi ekki tekizt að þessu sinni að láta þessa stefnu koma niður á kostnaði vegna Íslands, munu þeir vafalítið taka upp þráðinn að nýju eftir tvö ár.

Íslenzk stjórnvöld hafa fengið tvö ár til viðbótar til að sinna vanræktum skyldum sínum við atvinnulíf á Suðurnesjum og við millilandaflug þjóðarinnar. Eins og fyrri daginn verður þetta svigrúm ekki notað, svo að við munum aftur mæta svipuðum vanda eftir tveggja ára grið.

Álvinnsla á Keilisnesi er hvorki í augsýn né er hún mjög atvinnuskapandi grein. Því eiga stjórnvöld þess einan kost að hætta að leggja steina í götu notkunar Keflavíkurvallar í alþjóðlegu vöruflugi og byrja að undirbúa lagalegar aðstæður fyrir virka fríhöfn á Rosmhvalanesi.

Meðan kalda stríðið var og hét, átti svokölluð aronska hljómgrunn hér á landi. Sú stefna tók mið af, að þá lögðu Íslendingar sig í kjarnorkuhættu og aðra hættu við að lána land undir sameiginlega hagsmuni Vesturlanda, og í staðinn ættu þau að kosta hluta af almannavörnum.

Það er móðgun við aronskuna að kenna hermangsstefnu stjórnvalda við hana. Aronskan var rökrétt afsprengi síns tíma og byggðist á hliðstæðri stefnu norskra stjórnvalda á þeim sama tíma. Nú eru aðrar aðstæður og hernaðarleg ógn steðjar ekki lengur að Íslandi.

Jafnvel þótt ófriðlegt sé enn í heiminum og meira að segja í hlutum Evrópu, hefur átaka- og hættusvæðið færst frá heimshluta Íslands suður til Miðjarðarhafs, Balkanskaga og Kákasusfjalla. Ísland er ekki lengur í brennidepli, heldur herfræðilega á afskekktum slóðum.

Í þessum mikla hermangsvanda kom hinn málglaði Zhírínovski til bjargar málstað íslenzkra stjórnvalda. Hann gerðist sú Grýla, sem dugði til að draga vígtennurnar úr þeim aðilum á Vesturlöndum, sem mest vildu draga úr kostnaði við hernaðarlegan viðbúnað þeirra.

Zhírínovski gerðist málsvari vonsvikinna Rússa og gaf geðveikislegar yfirlýsingar út og suður um endurreisn sovézka nýlenduveldisins og kjarnorkuárásir á vanþóknanleg ríki, þar á meðal um sérstaka refsingu til handa Íslandi. Eftir kosningasigurinn varð hann enn hressari.

Vonandi kemur í ljós, að rugludallur þessi reynist sápukúla í rússneskri pólitík. Ef hann reynist hins vegar varanlegur, þurfa Vesturlönd að endurskoða sparnaðarhugmyndir sínar í varnarmálum. Þá kann varnarliðið á Keflavíkurflugvelli að fá sitt fyrra varnarhlutverk.

Á meðan hefur bandaríska varnarliðið tekið að sér að vernda atvinnu á Suðurnesjum og að spara íslenzka ríkinu kostnað við borgaralegt millilandaflug.

Jónas Kristjánsson

DV