1989-2002 Bækur um hross

Starfssaga

Raunar var sala hlutabréfa minna 1995 ærið tilefni fyrir mig að draga mig í hlé frá amstri blaðamennskunnar. Einhverra hluta vegna mannaði ég mig ekki upp í það og hengslaðist áfram til ársloka 2001. Þessi árin skrifaði ég jafnframt árbækur um hrossarækt, sem komu út á tímabilinu 1989-2002. Þau bættu úr brýnni þörf hrossaræktenda. Fram að þeim tíma, er gagnabankar í tölvum á veraldarvefnum tóku við hlutverki bókanna. Voru þungavigtarbækur í bókstaflegum skilningi, mældust tvö kíló hver bók á vog. En áreiðanlega tóku þær frá mér orku, sem kannski hefði betur átt heima á DV eða í hestamennsku.

Bækur mínar um hrossarækt höfðu yfirlitssíður um helztu stóðhesta og hryssur ársins. Þær birtu falleg ættargröf, sem náðu sex kynslóðir aftur í tímann. Einnig ljósmyndir og árangur í mótum. Hver bók hafði einnig sitt sérefni: Frægðarhross fortíðar og tengsl þeirra við nútímann. Skrá yfir 5500 eigendur ræktunarhrossa og hrossaeign þeirra. Afkvæmi þekktra stóðhesta og hryssna. 3000 hrossajarðir og hross þeirra. Ræktunarsýningar frá upphafi. Erlend ræktun íslenzkra hrossa og tengsl hennar við Ísland. Langstærsta nafnaskrá íslenzkra hrossa með skýringum 7000 hrossaheita á íslenzku og ensku.

Ég fullvann bókaflokkinn um hrossarækt sem fyrri bókaflokk um ferðaborgir heimsins. Eiríkur Jónsson hrossaljósmyndari tók myndirnar, en annað gerði ég sjálfur. Annaðist myndvinnslu, grafík, hönnun og umbrot. Grafíkin skipti miklu máli í hrossabókunum og tókst vel, að mínu auðmjúka viti. Öll þessi tæknilega vinna veitti mér vellíðan. Þótti gott að koma frá mér prentgripum, þar sem öll handtök voru mín eigin. Þessi nána snerting við fagið bætti mér upp fjarlægðina, sem er frá ritstjóra til fjölmiðils á fjölmennri ritstjórn. Aðferðin var líka nauðsynleg til að halda í skefjum kostnaði við bækurnar.

Að baki bókanna var mikill og fjölvíður gagnabanki um hross, sem ég setti á veraldarvefinn. Þar gátu notendur leitað fram og til baka. Eftir hrossum og eigendum þeirra, forfeðrum hrossa og afkomendum, ræktunarjörðum og þátttöku í mótum. Um tíma seldi ég aðgang að bankanum, fyrst einn sér. Síðan í góðri samvinnu við Bændasamtök Íslands, sem ráku hliðstæðan gagnabanka, Veraldar-Feng. Alþjóðasamtök um íslenzka hestinn fóru í samstarf við bændasamtökin um nýjan World-Feng og vildu ekki hafa einkaaðila með. Bændasamtökin stóðu með mér, helzt Jón Baldur Lorange, en fengu ekki að ráða. Ég datt úr samstarfi.

Nokkru síðar lenti ég í tæknilegum erfiðleikum með bankann og tímdi ekki að uppfæra hann. Ég hef þó alltaf haldið honum við og nota hann sjálfur. Hef fært inn nýjar upplýsingar eftir þörfum. Get samt ekki veitt öðrum aðgang að upplýsingum bankans. Væri þó gagnlegt. Þær eru sumpart töluvert ýtarlegri en samkeppnisbankans, ná sumpart lengra aftur í tímann og eru sumpart á öðrum sviðum. Aðgangur hestamanna að bankanum mínum mundi auka víddina í þekkingu þeirra á viðfangsefninu. En uppfærsla mundi kosta mig töluvert fé, sennilega nokkur hundruð þúsund krónur. Þess vegna hefur hún setið of lengi á hakanum.

Næsti kafli