Ódýrt er að borða í hádeginu á ýmsum góðum veitingastöðum í Reykjavík. Lægst er verðið í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem kjúklingasúpa og rækjuréttur kosta 495 krónur í hádeginu. Og hagstæðast er verðið í stjörnuveitingahúsinu Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem súpa og réttur dagsins kosta 800 krónur í hádeginu.
Síðan hefðbundnir viðskiptamálsverðir lögðust að mestu af á Íslandi hefur of lítið verið um að vera í hádeginu í veitingarekstri. Kvöldin eru vinsælli hjá viðskiptavinunum. Þetta hefur lækkað hádegisverðlag sumra veitingahúsa og kallað á margvísleg tilboð, sem sum hver eru svo freistandi, að fólk ætti að gefa þeim meiri gaum.
Kínahúsið er bezti austurlandastaður borgarinnar og um leið einn hinn ódýrasti. Rækjurnar eru djúpsteiktar, með þunnum steikarhjúp, og bornar fram með súrsætri sósu. Fyrir 595 krónur fæst þetta sama og til viðbótar karrílamb og hnetukjúklingur. Gæðin eru hátt yfir hamborgarastöðum og pizzubúlum höfuðborgarsvæðisins.
Sumir austurlandastaðirnir bjóða hlaðborð í hádeginu. Góð kjör eru í Asíu við Laugaveg, þar sem súpa og sex réttir kosta 790 krónur. Gæðin takmarkast af því, að maturinn er geymdur í hitakössum, en við slíku er lítið að gera, ef menn sækjast eftir aðgangi að hlaðborði.
Sama lága verðið er á hlaðborðinu í Sjanghai, aðeins ofar við Laugaveg. Þar eru einnig súpa og sex réttir á borðum, en eldamennskan er fremur kæruleysisleg.
Bezti Ítalíustaðurinn í borginni, Pasta Basta við Klapparstíg, býður súpu og pastahlaðborð í hádeginu á litlar 720 krónur. Þetta er girnilegur og góður matur, en pastað er auðvitað kalt, því að það mundi spillast, ef því væri haldið heitu. Í verðinu eru fimm tegundir af pasta, sem er gert á staðnum, eins og brauðið, sem fylgir súpunni.
Hefðbundið salatborð er þekktast, einna ódýrast og sennilega bezt í Pottinum og pönnunni við Nótatún. Súpa og salat kostar 790 krónur. Sama verð er á kvöldin, svo að þá er veitingastaðurinn í hagstæðasta kanti. Með eftirrétti fer hlaðborðsverðið í 890 krónur. Svipað salatborð er á boðstólum í samnefndu steikhúsi við Laugaveg.
Bezta hlaðborðið, bæði heitt og kalt, með mörgum kjötréttum, er í Aski við Suðurlandsbraut. Salatbarinn er girnilegasti þáttur þessa hlaðborðs, sem kostar 890 krónur í hádeginu og hefur raunar lækkað töluvert í verði.
Ýmsir aðrir veitingastaðir bjóða hádegisverð á minna en 1000 krónur á mann. Það kostar til dæmis 790 krónur að borða á Pisa í Austurstræti, 890 krónur í Lækjarbrekku í Bankastræti, 895 krónur í Prag við Hlemmtorg, 950 krónur í Óðinsvéum við Óðinstorg og 990 krónur í glæsilegum Primavera í Húsi verzlunarinnar.
Raunar kostar ekki nema 1395-1595 krónur að borða í hádeginu í bezta veitingastofu borgarinnar, Hótel Holti. Þetta verð er í rauninni sáralágt í samanburði við gæðin.
Fáir gera sér svo grein fyrir, að það kostar ekki nema 800 krónur að borða í hádeginu á einum af þremur beztu stöðum landsins. Hádegistilboðið við Tjörnina í Templarasundi er einstakt í sinni röð, af því að staðurinn er rómantískur og matreiðslan oftast í meistaraflokki.
Drykkjarföng eru ekki meðtalin í krónutölum þessarar greinar, nema kaffi er víða innifalið í hádegisverði.
Jónas Kristjánsson
DV