Einu sinni var mér boðið til Þýzkalands að hitta þarlenda mektarmenn. Átti meðal annars viðtal við Willy Brandt, sem þá var borgarstjóri Berlínar. Brandt var drukkinn í viðtalinu, en komst samt sæmilega frá því. Ég hitti líka menn úr utanríkisráðuneytinu í Bonn, þar á meðal ráðuneytisstjórann. Við vorum í hádegisverði á veitingahúsi með Pétri Eggerz sendiherra. Ráðuneytisstjórinn og ég töluðum á fullu gasi, en Pétur sagði ekki orð allan tímann. Spakmælið segir, að fæst orð hafi minnsta ábyrgð. En sendiherra, sem segir bara alls ekki stakt orð, er áreiðanlega sérstæður í stétt sinni.
Haustið 1974 kom Olof Wahlgren til landsins, útgefandi Sydsvenska Dagbladet. Hann var þá í framboði sem forseti International Press Institute, félags ritstjóra um allan heim. Reyndi að afla samtökunum félagsmanna á Íslandi og fékk meðal annarra mig í lið með sér. Olof var einstakur atfylgismaður, öll áhugamál tók hann með trompi. Við hjónin áttum eftir að verða kunningjafólk hans og nutum gestrisni hans í Málmey. Í framhaldi af aðild minni að félaginu fór ég á ársþing þess í Zürich vorið 1975. Sú ferð var lærdómsrík og leiddi til brennandi áhuga míns á starfi og sjónarmiðum samtakanna.
Einu sinni var ég í Kaupmannahöfn og Olof Wahlgren bauð mér í kvöldmat yfir til Málmeyjar. Við fórum þrenn hjón á fínasta og bezta veitingahúsið. Sú veizla átti að vera mér til heiðurs sem nýjum formanni Íslandsdeildar Alþjóðasambands ritstjóra, IPI. Með í för var nýráðinn ritstjóri Sydsvenska Dagbladet, Ulf Ryttarborg og kona hans. Að veizlu lokinni var farið heim til Olofs. Þar byrjaði önnur veizla sama fólks og hún var til heiðurs nýráðnum ritstjóra blaðsins. Við afrekuðum að borða kvöldverð tvisvar sama kvöldið. Wahlgren var þekktur fyrir að tvínóna ekki, heldur taka hlutina með trompi.
Árið eftir fór ég á ársþing International Press Institute til Fíladelfíu í Bandaríkjunum og síðan nánast árlega um langt árabil. Að vori fór ég á ársþingið og á haustin á sérstakan fund deilda félagsins á Norðurlöndum. Þarna var ég kominn í félagsskap manna, sem ég leit upp til. Margir þeirra höfðu miklu mótaðri hugmyndir en ég um starf ritstjóra. Og um siðferðileg álitamál, sem ritstjórar standa andspænis. Sumir höfðu mikil áhrif á mig með ræðum sínum á fundum félagsins eða í einkasamræðum. Aðild mín að félaginu opnaði mér nýjar víddir í viðhorfi mínu til starfsins. Þetta var opinberun.
Þarna var Harold Evans, sem þá var ritstjóri The Sunday Times. Frægur af skrifum blaðsins um Thalidomide-börnin, sem fæddust vansköpuð vegna mistaka opinberra aðila. Ég hitti hann nokkrum sinnum og borðaði með honum. Hann var eldstólpi af hugsjónum blaðamennskunnar. Síðar hrökklaðist hann úr starfi og gerðist útgefandi tímarita í Bandaríkjunum. Meiri urðu kynni mín af Mort Rosenblum, ritstjóra International Herald Tribune. Að ráði hans skrifaði ég nokkrar greinar í blað hans, einkum um blaðastyrki og afskipti stjórnvalda af fjölmiðlum. Af greinunum varð ég sæmilega kunnur í bransanum erlendis.
Jørgen Schliemann, fréttastjóri Rásar tvö í Danmörku, var mestur ræðumaður á fundum International Press Institute. Hann hafði mjög hrein og óspillt viðhorf til blaðamennsku. Kom nokkrum sinnum til Íslands og hitti mig þá gjarna. Af öðrum Dönum hafði ég bezt kynni af Arne Eyjbye-Ernst, sem var þá rektor blaðamannaskólans í Árósum. Kom ég nokkrum sinnum heim til hans. Þá má nefna Alf Schiött-Christensen, ritstjóra Ålborg Stiftstidende, sem jafnan hélt sambandi við mig. Einnig má nefna Íslandsvininn Bent A. Koch,sem var vinur Bjarna Benediktssonar og Morgunblaðsins, bað ætíð að heilsa Matthíasi.
Í framhaldi af kynnum mínum af Arne Eyjbye-Ernst var ég beðinn um að kenna. Smátíma á hverjum vetri við Norræna blaðamannaháskólann í Árósum. Kenndi þar í nokkur ár. Hafði af því mikla fyrirhöfn og fann mig ekki í starfi. Einn veturinn var ég úrskurðaður af nemendum sem bezti kennarinn, en næsta vetur fékk ég athugasemdir þeirra um skort á undirbúningi. Niðurstaða mín var, að þetta væri ekki starf fyrir mig. Hún tafði löngu síðar fyrir, að ég féllist á hugmynd um að fara að kenna blaðamennsku við Háskólann í Reykjavík. En þá hafði ég raunar fengið reynslu og yfirsýn, sem ég hafði ekki í Árósum.
Nokkrir Norðmenn urðu vinir mínir á þessum árum. Nánust urðu kynnin við Kjell Einar Amdahl, ritstjóra Adresseavisen í Þrándheimi, með gagnkvæmum heimsóknum. Og Svein Døvle Larsen, ritstjóra Tönsberg Blad, sem er einhver skemmtilegasti maður, sem ég hef kynnzt. Enn fleiri Finnum kynntist ég, einkum Keijo K. Kulha, sem þá var ritstjóri Helsingin Sanomat. Og Olavi Rantalainen, ritstjóra tímarits útgefenda. Lengi gekk á með gagnkvæmum heimsóknum. Bezt minnist ég kvöldverðar með Kulha í siglingaklúbbi Helsinki, þar sem við sátum hvor við sinn enda feiknarlangs borðs og kölluðumst á.
Ég nefni alla þessa menn, af því að þetta voru starfsbræður mínir og þetta var í fyrsta skipti, sem ég hafði náið samneyti við slíka. Hugmyndir mínar um starf ritstjóra mótuðust auðvitað af þessum kynnum. Mest samskipti hafði ég við framkvæmdastjóra International Press Institute, fyrst við Peter Galliner og síðan við Johann P. Fritz. Sem formaður Íslandsdeildar IPI átti ég raunar þátt í hálfgerðu samsæri um að losna við Galliner. Þá var hann orðinn of einræðishneigður. Vildum fá Fritz í staðinn. Hvorki fyrr né síðar hef ég tekið þátt í fjölþjóðasamsæri, enda ekki hneigður til undirhyggju.
Peter Galliner var óvenjulega hæfur maður, sem þeyttist um heiminn til að losa ritstjóra úr fangelsum. Árum saman var hann frábær í starfi. Smám saman varð hann upptekinn af sjálfum sér og hæfileikum sínum. Setti samasemmerki milli samtakanna og sjálfs sín. Sagði stjórnarmönnum að éta það, sem úti frýs. Neitaði að hitta formann samtakanna. Hætti að taka mark á félagsmönnum og úthúðaði þeim, sem hann taldi sitja á svikráðum við sig. Varð að lokum svo illa haldinn af vænisýki, að hann varð óstarfhæfur. Davíð Oddsson minnti mig löngu síðar á Galliner. Slík hafa verið örlög sumra hæfileikamanna.
Ég minnist áhrifanna, sem ég varð fyrir í Vestur-Berlín, þegar ég fluttist þangað eftir stúdentspróf. Þar var ilmur hins stóra umheims eftir innilokun í forpokuðum menntaskóla í Reykjavík. Sömu tilfinningu fékk ég, þegar ég fór að hitta erlenda starfsbræður mína. Þar var ilmur hins stóra umheims eftir innilokun í forpokuðum viðhorfum á Íslandi til fjölmiðlunar og blaðamennsku. Í báðum tilvikum var um eins konar endurfæðingu að ræða. Þess vegna hefur mér orðið hér svo tíðrætt um áhrifin, sem ég varð fyrir. Þegar ég fór að taka þátt í alþjóðasamtökum ritstjóra og hitta fólkið, sem bar það uppi.
Tengslin við alþjóðasamtök ritstjóra breyttu viðhorfum mínum til pólitíkusa og forstjóra. Ég hneigðist til aukinnar tortryggni. Áður hafði ég trúað, að menn gættu oft almannahagsmuna, þegar þeir réðu ríkjum og fyrirtækjum. Nú hitti ég fólk, sem taldi svo ekki vera. Fólk með meiri reynslu í fjölmiðlun en ég hafði ræktað með sér heilbrigða efahyggju. Vissi, að valdamenn reyndu að villa um fyrir fólki með hjálp almannatengla, blaðafulltrúa, spunakarla, ímyndarfræðinga. Ég áttaði mig á, að ritstjórar voru nánast eina vörn fólks gegn lygavefjum. Sem spunnir voru á æðstu stöðum viðskipta og stjórnmála.
Á alþjóðaþingum ritstjóra var oft talað um áhrif stjórnmála, eigenda og auglýsenda á ritstjórnir fjölmiðla. Ég gat miðlað reynslu af pólitískum afskiptum á Íslandi. Og hlustaði á, hvernig snúizt hafði verið við tilraunum eigenda og auglýsenda til að hafa áhrif á ritstjórnir. Samráð um þessi mál voru áreiðanlega gagnleg fyrir alla aðila. Ég hafði hins vegar ekki kynni af slíkum vandræðum. Ég hafði alltaf verið andvígur samskiptum við auglýsendur. Ýmis tímarit geta leyft sér slíkt, en kaupendur dagblaða láta ekki bjóða sér það. En margir eiga erfitt með að átta sig á því. Ekki sízt á síðustu árum.
Eftir Kosovostríðið tóku alþjóðasamtök ritstjóra saman bók um það. Þar kemur skýrt fram sú meginniðurstaða, að ekki bara stjórnvöld og her í Serbíu lugu yfirleitt. Einnig Atlantshafsbandalagið og stjórnvöld aðildarríkja þess. Stefna bandalagsins í fjölmiðlun var þessi: Komum á fót kviksögum, ýkjum botnlaust og endurtökum í sífellu rangar fréttir og ranga spádóma. Paul Watson frá Los Angeles Times sá þetta í Pristina. Fréttafundir bandalagsins neituðu fréttum, sem hann vissi, að voru réttar, og fullyrtu aðrar, sem hann vissi, að voru rangar. Réttlætingar bandalagsins breyttust í sífellu.
Bókin um Kosovo var nákvæm í smáatriðum og hafði mikil áhrif á mig, þegar hún kom út 1999. Þar var svo rækilega flett ofan af Nató, að ekki stóð þar steinn yfir steini. Síðari kynni mín af öðrum stofnunum, til dæmis Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sýndu mér, að Nató er ekkert einsdæmi. Valdamenn heimsins leggja hart að sér við að dreifa lygum og óhróðri. Blaðamenn heimsins megna ekki að andæfa gegn lygaflóðinu. Og hætta atvinnu sinni, ef þeir reyna það. Íslenzkir blaðamenn hafa oft verið reknir fyrir að segja satt, Árni Snævarr, Kristinn Hrafnsson, Jóhann Hauksson, margir fleiri, ég sjálfur þrisvar.