Vinavæðingin

Greinar

Þótt mál blandist á ýmsa vegu, er stóra línan í verkaskiptingu stjórnarflokkanna, að Sjálfstæðisflokkurinn sérhæfir sig í að gefa vinum ráðherra sinna eignir skattborgaranna og Alþýðuflokkurinn í að gefa vinum ráðherra sinna stöður og stóla á vegum skattborgaranna.

Þetta byggist að mestu leyti á, að algengast er, að vinirnir hægra megin telja sig þurfa á meiri eignum að halda, og að vinirnir vinstra megin telja sig þurfa á betri launakjörum að halda. Þannig eru þetta tvær hliðar á sameiginlegu hugsjónamáli stjórnarflokkanna tveggja.

Alþýðuflokkurinn endaði árið með því, að hinn landsfrægi biðlaunamaður í embætti heilbrigðisráðherra skipaði mág sinn sem formann stjórnarnefndar Ríkisspítalanna, aðeins einum degi áður en við tóku ný stjórnskipunarlög, sem banna ráðherrum spillingu af slíku tagi.

Sjálfstæðisflokkurinn endaði árið með því, að sjávarútvegsráðherra gaf lykilmönnum úr flokkseigendafélaginu marga tugi milljóna með því að neita að láta reyna á, hvort hæstbjóðandi í ríkisfyrirtækið SR-mjöl hefði burði við að standa á tveim vikum við staðgreiðslutilboð sitt.

Árið 1993 var skrautlegt ár í sögu Alþýðuflokksins. Efnilegum og atvinnulausum krötum var raðað í stöður, sem Íslandi var úthlutað hjá Fríverzlunarsamtökunum og Evrópska efnahagssvæðinu, hvort tveggja í skjóli utanríkisráðherra, sem er nánast siðblindur með öllu.

Alþýðuflokksmaður, sem hafði verið iðinn í flokknum, var tekinn fram yfir marga reynda menn og skipaður veðurstofustjóri. Mislukkaður iðnaðaráðherra flokksins var gerður að Seðlabankastjóra, enda er sá banki aðallega notaður til að skekkja og skæla gengi krónunnar.

Umhverfisráðherra Alþýðuflokksins fékk að verða sendiherra í Noregi og gamall kratabæjarstjóri úr Keflavík varð skrifstofustjóri Flugmálastjórnar á Keflavíkurvelli. Aðstoðarmaður nýs iðnaðarráðherra var skyndilega orðinn ráðuneytisstjóri yfir öllu ráðuneytinu.

Þekktur þingmaður og ráðherraefni Alþýðuflokksins var gerður að forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins eftir langan skrípaleik, þar sem allir málsaðilar þóttust koma af fjöllum. Í það starf var nóg framboð af hæfum mönnum, þar á meðal sérfræðingum í trygginga- og fjármálum.

Á lokasprettinum skipaði utanríkisráðherra flokksbróður sinn sem yfirdeildarstjóra tollsins á Keflavíkurvelli. Það var síðasta afreksverk ráðherra Alþýðuflokksins, unz nýskipaður heilbrigðisráðherra þurfti að útvega mági sínum vel borgað verkefni í heilbrigðisgeiranum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið sína spillingu undir hatti hugsjónar einkavæðingar. Í rauninni er þar alls ekki um neina markaðsvæðingu að ræða, heldur er þreyttri ríkiseinokun breytt í einkavinaeinokun, án þess að skattgreiðendur eða neytendur njóti þess í nokkru.

Einkafyririrtækið Bifreiðaskoðun Íslands hefur verið skólabókardæmi um þetta. Hún leiddi til meiri kostnaðar fyrir almenning heldur en hafði áður verið hjá ríkinu. Um áramótin var hnykkt á einokun hennar með reglum, sem gera öðrum ókleift að keppa við einkavinina.

Útboð SR-mjöls undir árslok var dæmi um, hversu langt er seilzt til að þjónusta hina þóknanlegu. Við framkvæmd útboðs var ekki farið eftir hefðbundnum reglum, sem eiga að tryggja jafna stöðu tilboðsaðila. Og á endanum var hæsta tilboði hafnað, þótt staðgreiðsla væri boðin.

Stjórnarflokkarnir hafa hvor með sínum hætti sýnt fram á, að markmið þeirra í pólitík er að afla herfangs, sumpart með stólum og stöðum, sumpart með eignatöku.

Jónas Kristjánsson

DV