Upphaflega átti DV að vera eðlilegt framhald Vísis, hinn sanni og rétti Vísir. Þegar til átti að taka, vorum við búnir að hanna alveg nýtt blað, frjálst af gamla Vísi. Það réði úrslitum um velgengni blaðsins. Það sló í gegn frá fyrsta degi. Þjóðin tók þessu nýja blaði fagnandi. Lesendabréf, kjallaragreinar og smáauglýsingar voru hornsteinninn. Þjóðin taldi sig með þeim efnisþáttum hafa fengið aðgang að eigin fjölmiðli. Þetta var sameinað afrek allra þeirra, sem tóku þátt í undirbúningsfundunum á Fornuströnd. Ég átti auðvitað drjúgan þátt í útkomunni, en ég átti hana langt í frá einn.
Við lentum í þæfingi við stjórn Blaðaprents um vinnslu Dagblaðsins. Fengum prentun næst á eftir Vísi í tíma. Það tók af okkur lausasöluna um miðjan daginn og hefði drepið blaðið. Við reyndum að útvega okkur eigin vinnslu. Sem betur fer náðist samkomulag við Árvakur um prentun. Fyrir tilstilli Völundarbræðranna Leifs og Haraldar Sveinssonar. Þeir voru heiðursmenn í viðskiptalífinu, tóku viðskipti fram yfir pólitík. Við þurftum því bara að útvega forvinnslu. Við útveguðum setningartæki, sem Steindórsprent keypti og plötuvinnslu, sem prentsmiðjan Hilmir keypti. Við losnuðum við fjárfestingu.
Steindór Hálfdánarson í Steindórsprenti var gott dæmi um þann góða anda, sem umvafði Dagblaðið. Hann sagði: “Kaupið bara strákar það, sem þið þurfið og setjið upp hjá mér, ég borga.” Viðskiptin við hann voru snurðulaus sem og viðskiptin við Hilmi og Árvakur. Ferillinn var þannig, að hönnuðir okkar unnu í Steindórsprenti, þar sem blaðið var sett. Það fór síðan í plötugerð í Hilmi, prentsmiðju Vikunnar, og endaði í Árvakri, prentsmiðju Moggans. Þessi umskipti urðu 2. febrúar 1976. Útkomutími blaðsins færðist fram á eðlilegan tíma í hádeginu. Bjargaði götusölu blaðsins og um leið fjárhag þess.
Letur Steindórsprents hentaði ekki dagblaði. Við pöntuðum dagblaðaletur hjá Compugraphic, framleiðanda setningarvélanna. Þegar það kom á síðustu stund, reyndist uppsetningin á leturdiskunum vera gölluð. Ákveðið var, að ég hoppaði upp í flugvél til Boston. Tók leigubíl til Wilmington og sat á tröppum Compugraphic, þegar fólk kom til vinnu. Mér var vel tekið. Smám saman áttuðu menn sig á, að ég ætlaði að sitja á kontórnum, þangað til ég fengi diskana. Þeir vildu allt gera fyrir mann, sem kom um hálfan hnöttinn og sat á tröppunum. Allt var sett í gang og ég fékk nýja diska fyrir kvöld.
Á leiðinni út á flugvöll var ég í góðu skapi og ákvað að fá mér humar á Anthony’s Pier 4. Þegar kominn var tími til að fara út á völl, voru engir leigubílar fyrir utan. Smám saman kom í ljós, að leigubílar í Boston voru komnir í verkfall frá klukkan fjögur síðdegis. Vandræði mín bárust til eyrna eiganda staðarins, Anthony. Hann sagði bara: “Ég skutla þér út á völl”. Þangað var klukkutíma ferð og ég náði flugvélinni heim. Þetta var nánast eins og allir aðrir erfiðleikar okkar við stofnun Dagblaðsins. Hvarvetna voru menn reiðubúnir að rétta okkur hjálparhönd, hvar í álfu, sem þeir voru.
Anna Bjarnason kom fljótt til starfa á ritstjórn Dagblaðsins. Hún tók að sér að fleyta af stað neytendasíðu blaðsins, sem hóf göngu sína 13. júní 1978. Síðan var daglegur hluti blaðsins, ævinlega á virðulegum stað á bls. 4, næst á eftir opnu lesendabréfanna. Anna gaf neytendasíðunni vítt svigrúm. Þar var fjallað um félagsþætti og skólamál. Beztar voru uppskriftirnar, sem voru verðreiknaðar svo nákvæmlega, að kryddið var metið til fjár. Með þessari síðu vildum við nálgast almenning frá þeirri hlið, sem öllum kemur við. Neytó átti að hjálpa fólki til að lifa og lifa af. Anna sá um, að svo varð.
Neytendasíðan kannaði verðlag í matvörubúðum og birti vísitölu matarverðs. Vísitala Dagblaðsins var fundin úr heimilisbókhaldi kunningja blaðsins um allt land. Þeir sendu blaðinu mánaðarlega upplýsingaseðla með niðurstöðum heimilisbókhaldsins. Sú vísitala stakk í stúf við opinberu vísitöluna, þar sem vörur voru teknar inn og út. Á tveimur árum hækkaði vísitala Dagblaðsins um níu prósentustig umfram opinberu vísitöluna. Geðþótti stjórnvalda réði nefnilega opinberu vísitölunni. Þegar vísitala Dagblaðsins var orðin föst í sessi, treystu pólitíkusar sér ekki lengur til að falsa opinberu vísitöluna.
Frægt varð tómatamálið 1978. Þá birti blaðið mynd af stórum breiðum góðra tómata, sem fleygt hafði verið á haugana. Baráttan í kjölfarið leiddi til tímabundins útsöluverðs, sem síðan hefur verið á grænmeti á hátíma framleiðslunnar. Þröngsýnir forsvarsmenn framleiðenda héldu fram, að stórlækkun tómataverðs mundi auka söluna um 5-10%. Reynslan varð samt, að salan jókst um 300%, þegar garðyrkjumenn létu undan herferð Dagblaðsins. Og blaðið bar ekki bara saman verð, heldur birti líka umfangsmikinn samanburð á gæðum. Neytendasíða Önnu Bjarnason varð stórveldi í baráttu fyrir neytendur.
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur sá um, að umfjöllun blaðsins um listir og menningu væri því til sóma. Hann átti hugmyndina að Menningarverðlaunum Dagblaðsins, sem veitt voru árlega í sjö-átta flokkum um langt árabil. Á þeim tíma var fátt um slík verðlaun, silfurlampi leiklistargagnrýnenda hafði andast. Menningarheimurinn tók verðlaunum þessum vel. Um langt árabil voru þau bezt metnu listaverðlaun landsins. Verðlaunin voru afhent á Hótel Holti. Ég tók með kokkum staðarins þátt í að velja sérstætt hráefni og sérstæða matreiðslu í hádegismatinn. Margt af því fékk lengri lífdaga á matseðlum.
Ómar Valdimarsson varð fréttastjóri Dagblaðsins 7. maí 1979, hafði áður verið varafréttastjóri í nokkur ár. Jónas Haraldsson varð varafréttastjóri og átti eftir að verða fréttastjóri DV nokkrum árum síðar. Jónas var einn minna beztu samstarfsmanna, ákaflega hæfur maður, bæði sem blaðamaður og stjórnandi. Stýrði mönnum rösklega með mildri hendi. Jafnframt var hann mikill húmoristi, meinfyndinn og ósmeykur við að gera grín að sjálfum sér. Eftir mína tíð fór hann yfir á Viðskiptablaðið, þar sem hann var ristjóri um skeið. Síðan fór hann á skoðanavefinn AMX og skrifaði þar beittasta háðið.
Þegar ég vann á Tímanum var þar fullt af sérvitringum, sem fóru aðrar leiðir en samferðamenn. Á Vísi og Dagblaðinu var dálítið af slíkum, svo sem hér hefur komið fram. Á Dagblaðinu voru baráttumenn, sem lögðu nótt við dag til að koma út efni, sem ekki þekktist annars staðar. Til dæmis Anna Bjarnason á neytendasíðunni. Dagblaðið vann kraftaverk í fátækt sinni. Sameinað DV var öðru vísi en Dagblaðið, hálfgerð stofnun. Þar var þyngra að kveikja áhuga fólks. Kannski var ég orðinn of gamall til að vekja eldmóð manna. Stofnun hefur tilhneigingu til að lifa eigin þunglamalífi án tilverknaðar yfirmanna.
Dagblaðið var frjálst og óháð dagblað. Það studdi engan stjórnmálaflokk og gekk í kosningabaráttu ekki til liðs við neinn þeirra. Það hafnaði einnig ríkisstyrkjum, sem þá voru mikilvægur liður í rekstri dagblaða. Annars vegar voru beinir styrkir og hins vegar kaup á hundruðum eintaka af hverju dagblaði. Hagsmunir blaðsins áttu að fara saman við hagsmuni borgaranna, sem flestir fjölmiðlar meðhöndluðu eins og ósjálfráða börn. Blaðið vildi birta fréttir af viðkvæmum málum. Þau höfðu oftast legið í þagnargildi hjá flokkstengdum fjölmiðlum, sem höfðu annarra hagsmuna að gæta en lesendanna.
Dagblaðið var ekki bara frjálst og óháð gagnvart pólitíkinni. Það var líka óháð helztu þrýstihópum og hagsmunaöflum samfélagsins, svo sem aðilum vinnumarkaðarins. Við gerðum auglýsendum ekki heldur neina greiða, lögðum í fyrstu áherzlu á smáauglýsingar almennings. Smám saman komu líka stórar auglýsingar, en það tók langan tíma. Oft hættu menn við auglýsingasamninga, því að þeir fengu ekki aukaþjónustu með auglýsingunum. Lesendur blaðsins áttuðu sig á þessu. Þeir skildu, hvað við áttum við með “frjálst og óháð”. Var þá nýjung í fjölmiðlun landsins, sem er núna talinn sjálfsagður réttur.
DV hélt áfram að öllu leyti sömu stefnu og Dagblaðið. Það var líka óháð og frjálst. En fólk tók því ekki á sama sjálfsagða hátt. Samfélagið leit svo á, að Dagblaðið hefði risið upp úr grasrótinni. Það leit hins vegar á DV sem fjölmiðlarisa, sem lifði sjálfstæðu lífi ofan við hagsmuni almennings. Fólk leit á DV sem hálfgerða stofnun, fremur en sitt eigið almenningsblað “litla mannsins”. Þrátt fyrir velgengni DV í lestri og tekjum varð aldrei eins náið samband milli blaðsins og fólksins í landinu og áður hafði verið. Ég sá það af fækkun lesendabréfa. En ytri velgengni blaðsins deyfði þessa sýn mína.