Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins vilja ekki, að það fari inn í tómarúmið, sem myndaðist í Austur-Evrópu við skyndilegt fráfall Sovétríkjanna. Þess vegna fer bandalagið undan í flæmingi, þegar nýjar ríkisstjórnir í þessum heimshluta fara fram á aðild að bandalaginu.
Atlantshafsbandalagið lamaðist, þegar óvinur þess, Varsjárbandalagið, hvarf af vettvangi með Sovétríkjunum. Svo samofið var bandalagið við andstæðu sína í austri, að það hefur haltrað um í ráðaleysi misserum saman, án þess að fá sér nýjan tilverugrundvöll.
Þetta kom greinilega fram, þegar Júgóslavía liðaðist í sundur. Þetta var ríki á mörkum austurs og vesturs og hafði raunar árum saman verið vestan járntjalds, þegar það hrundi. Atlantshafsbandalagið hefur ekkert marktækt gert til að hlaupa í skarð Júgóslavíu heitinnar.
Aðgerðaleysi Atlantshafsbandalagsins í arftakaríkjum Júgóslavíu hefur eflt öryggisleysi í heiminum, þar á meðal í Sovétríkjunum. Róttækir öfgamenn úr röðum þjóðernissinna um allan heim hafa tekið eftir velgengni sálufélaga sinna í röðum serbneskra stríðsglæpamanna.
Serbar hafa staðið fyrir óhugnanlegum stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og glæpum gegn menningarsögunni í nágrannaríkjum sínum, fyrst í Króatíu, nú í Bosníu og næst í Kosovo. Þessi ögrun við vestræna menningu hefur orðið öðrum glæpamönnum fyrirmynd.
Aidid gefur Bandaríkjunum langt nef í Sómalíu og Cédras gefur þeim lengra nef í sjálfum túnfæti Bandaríkjanna, á Haiti. Atlantshafsbandalagið skelfur, þegar geðbilaður stjórnmálamaður veður elginn í Moskvu. Þannig eru brauðfætur sigurvegara kalda stríðsins.
Ef Atlantshafsbandalagið hefði haft innri burði til að setja Serbum stólinn fyrir dyrnar í Bosníu, hefði það sent allt önnur skilaboð til heimsbyggðarinnar. En bandalagið sá ekki tækifærið, sem Bosnía gaf því til að ganga í endurnýjun lífdaganna í breiðara hlutverki.
Ef bandalagið hefði nú innri kraft til að læra af biturri reynslu í Bosníu og samþykkti að taka við þeim löndum Varsjárbandalagsins, sem fullnægja vestrænum lýðræðisreglum, mundi það um leið fá annað tækifæri til að sýna fram á tilverurétt sinn í breyttum heimi.
En nú eru ráðamenn ríkja Atlantshafsbandalagsins einmitt staddir í höfuðstöðvunum í Bruxelles til að segja Zhírínovskí í Moskvu og Milosevic í Belgrad og öðrum útþenslusinnum, að bandalagið treysti sér ekki til að fylla í tómarúmið, sem myndazt hefur í Austur-Evrópu.
Bandarískur ráðherra var í Reykjavík í síðustu viku og flutti þær fréttir, að öryggi Bandaríkjanna, Íslands og Vesturlanda yfirleitt stafaði ekki ógn af arftökum fyrri andstæðinga úr kalda stríðinu. Hann sagði frá miklum samdrætti í hernaðarlegum viðbúnaði Bandaríkjanna.
Samkvæmt þessu hefur Atlantshafsbandalagið ekki lengur fyrra hlutverk. Innihaldið er að hverfa og formið eitt stendur eftir. Hafnað er sögulegu tækifæri til að treysta vestrænt lýðræði í sessi með því að treysta öryggishagsmuni þess á miklu víðara landsvæði en áður var.
Með því að neita að taka inn ríki í Austur-Evrópu er Atlantshafsbandalagið að neita að fylla tómarúmið, sem myndazt hefur. Um leið er það óbeint að bjóða öðrum, hættulegri aðilum að fylla hluta þess, svo sem Milosevic hefur reynt að gera og Zhírínovskí segist ætla að gera.
Fundurinn í Bruxelles hefur staðfest, að Atlantshafsbandalagið er orðið að skrifræðisstofnun, sem er ófær að laga sig að nýjum kringumstæðum í veraldarsögunni.
Jónas Kristjánsson
DV