Sumarfreisting

Greinar

Hugsanlegt er, að á síðari hluta þessa árs muni hefjast hin margumtalaða kreppa, sem Íslendingar voru að búa sig undir allt árið í fyrra, en kom ekki. Viðbúnaður þjóðarinnar mun koma að gagni, þegar þar að kemur, enda þarf þá að taka óvenjulega erfiðar ákvarðanir.

Sjávarafli jókst í fyrra og verðmæti aflans hélzt nokkurn veginn óbreytt. Minnkunin kemur fyrst fram, þegar nokkuð er liðið á þetta ár. Ef sjómannaverkfallið leysist og veiðar hefjast að nýju, munu aflabrögð verða sæmileg fram eftir vetri, meðan kvótinn er ekki enn búinn.

Þegar kvótinn fyllist, munu stjórnvöld lenda í þungbærum þrýstingi af hálfu sjávarútvegs og sjávarsíðu. Heimtað verður, að vikið verði frá áður settum aflatakmörkunum og leyft verði að fara töluvert fram úr því, sem Hafrannsóknastofnun hefur talið vera hættumörk.

Krafan verður studd rökum um, að mikil veiði spilli klaki og nýliðun fiskistofna lítt eða ekki. Þau rök hafa lengi verið uppi á borði, en ekki haft hljómgrunn margra annarra en sumra þeirra, sem hafa hagsmuna að gæta. Fræðimenn í fiskifræði eru sárafáir á þeirri línu.

Reynsla þjóða heims hefur áratugum saman verið sú, að ofveiði leiði til hruns fiskistofna. Sú kenning, að einhverjar aðrar aðstæður séu hér við land um þessar mundir, er ákaflega ótrúleg og raunar stórhættuleg, af því að hún felur í sér, að ekki verði aftur snúið.

Hjáfræðinni um sambandsleysi sóknar og nýliðunar mun aukast fylgi af tveimur hliðarástæðum. Annars vegar munu fréttir af góðum afla á afmörkuðum sviðum kynda undir tilfinningu fyrir því, að meiri fiskur sé í sjónum en Hafrannsóknastofnunin vilji vera láta.

Hins vegar munu vaxandi óvinsældir kvótakerfisins leiða til þess, að erfiðara verður að verja það. Eðlilegur arftaki kvótakerfisins er auðlindaskattur, en hann má ekki nefna í viðurvist hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í þess stað verður heimtað leyfi til meiri sóknar.

Í vor verður í mesta lagi eitt ár til næstu alþingiskosninga. Freistandi verður fyrir stjórnvöld að reyna að friða sjávarútveginn og sjávarsíðuna með eftirgjöfum í kvótanum og fresta því um leið, að yfir ríði hin margumtalaða kreppa, sem þjóðin hefur verið að búa sig undir.

Með frestun kreppunnar er hægt að breyta fremur lítilli kreppu fyrir kosningar í afar mikla kreppu eftir kosningar. Sú leið getur hentað stjórnvöldum, ef kjósendur sjá almennt ekki gegnum hana. Verður það þá ekki í fyrsta skipti, sem menn falla fyrir freistingu.

Með kenningunni um minni og meiri kreppu fyrir og eftir kosningar er auðvitað gert ráð fyrir, að ofveiði á síðari hluta þessa árs og fyrri hluta næsta árs muni skaða fiskistofnana til langs tíma, enda er það í samræmi við þann meginstraum fiskifræðinnar, sem viðurkenndur er.

Hingað til hefur kreppan fyrst og fremst verið í hugum fólks og forráðafólks fyrirtækja. Fólk hefur dregið úr væntingum sínum. Fyrirtæki hafa fækkað starfsliði. Eindregnast hefur þetta komið í ljós í stórminnkuðum vöruinnflutningi og góðum jöfnuði í viðskiptum við útlönd.

Viðbúnaðurinn gegn kreppunni er því kominn í fremur gott horf. Engin vandræði eru fyrirsjáanleg í vetur, enda er líklegt, að senn linni verkfalli á fiskiskipaflotanum. Þess vegna eru til sæmilegar forsendur fyrir því, að stjórnvöld standist þrýsting og freistingu sumarsins.

Þetta mun þó standa svo tæpt, að ósigur í borgarstjórnarkosningum gæti hæglega tekið Sjálfstæðisflokkinn á taugum og látið hann falla fyrir freistingunni.

Jónas Kristjánsson

DV