Vinsældalistinn

Veitingar

Að minnsta kosti sjö veitingahús í borginni eru dýrari en bezta matargerðarmusterið. Hótel Holt í Þingholtsstræti er orðinn betri kostur en nokkru sinni fyrr, því að verðlagi þess hefur verið haldið í skefjum. Á kvöldin kostar þar um 3.300 krónur að borða þrjá rétti, að drykkjarföngum frátöldum. Á öðrum fínimannsstöðum borgarinnar er hliðstætt verð frá 3.500 krónum upp í 3.700 krónur á mann.

Tvö næstbeztu matargerðarmusterin eiga það sameiginlegt að hafa haldið verðlagi í skefjum. Það er Við Tjörnina í Templarasundi, þar sem þríréttaður matur kostar 2.900 krónur, og Þrír Frakkar hjá Úlfari við Baldursgötu, þar sem hann kostar 2.800 krónur. Þetta verð er nálægt meðalverði reykvískra veitingahúsa og gæðin gefa ekkert eftir því, sem bezt þekkist í útlöndum.

Þessi þrjú veitingahús hafa um nokkurt skeið verið stjörnustaðir landsins. Þangað er gott að fara með útlendinga og aðra gesti, sem hafa vit á mat. Og þangað er gott að fara, þegar ætlunin er bara að fara út að borða. Allt eru þetta litlir og þægilegir staðir, hver með sínum hætti, Holtið virðulegast, Tjörnin rómantískust og Þrír Frakkar franskastir.

Í næsta gæðaflokki eru nokkur hús í verðflokknum 2.100 krónur til 2.500 krónur. Allt eru þetta traustir matstaðir með hagstæðu hlutfalli verðs og gæða. Tælenski staðurinn Siam á/899 Skólavörðustíg er í 2.100 krónum, íslenzki staðurinn Askur við Suðurlandsbraut í 2.200 krónum, bandaríski staðurinn Hard Rock Café í Kringlunni í 2.300 krónum, nautasteikhúsið Argentína á Barónsstíg í 2.400 krónum og ítalski staðurinn Pasta Basta á Klapparstíg í 2.500 krónum.

Landsins beztu steikur úr gamla, íslenzka nautakyninu fást í Argentínu. Ferskt pasta fæst í Pasta Basta, sem þar að auki er notalega innréttað. Hefðbundinn matarsmekkur Íslendinga fær útrás á Aski. Hard Rock Café gefur innsýn í góðar hliðar bandarískrar matargerðarlistar og er þar að auki sérkapítuli í hönnun veitingahúsa. Siam er bezti fulltrúi austrænnar matargerðarlistar í landinu, lítil og rómantísk matstofa.

Í ódýrasta kanti veitingahúsa höfuðborgarinnar eru nokkur hús, sem eru svo góð, að þangað er hægt að “fara út að borða” til að eiga kvöldstund og ekki bara til að seðja hungur sitt. Það er einfalt Kínahúsið við Lækjargötu, þar sem þríréttað kostar 1.700 krónur, sparibúinn Laugaás á Hótel Esju, þar sem það kostar 1.300 krónur, hálfítalskt og örsmátt Hornið í Hafnarstræti á 1.300 krónur og loks gamli, góði, hversdagslegi Laugaás á Laugarásvegi, þar sem það kostar 1.100 krónur.

Ýmsar aðrar matstofur eru góðir, en þessar hafa vakið sérstaka athygli mína á yfirreið um veitingamarkaðinn, sem lauk í síðustu viku. Verðlagið er miðað við kvöldmáltíð af valseðli. Hafa verður í huga, að í hádeginu er á sumum þessum stöðum og ýmsum öðrum hægt að fá mjög ódýran mat. Um það atriði verður fjallað í næstu grein, sem birtist í fyrsta föstudagsblaði eftir áramót og verður þá lögð höfuðáherzla á verðlagið.

Jónas Kristjánsson

DV