Sjómannaverkfallið markar þáttaskil í ævi kvótakerfisins í sjávarútvegi. Augu manna eru að opnast fyrir því, að ekki gengur til lengdar að afhenda skipaeigendum auðlindir fiskimiðanna til ráðstöfunar og gera þeim kleift að ryðja öðrum hagsmunaaðilum og þjóðinni til hliðar.
Fiskurinn í sjónum er eign þjóðarinnar, enda hefur hún gert auðlindina verðmæta með pólitískum aðgerðum á fjölþjóðavettvangi. Hún hefur aflað sér auðlinda- og fiskveiðilögsögu, sem hún lætur ríkisvaldið annast fyrir sig, en ekki til að gefa í hendur svonefndra sægreifa.
Tími er kominn til, að þjóðin taki til baka fríkvótann til fiskiskipa og fari að leigja hann út, til dæmis með uppboðum. Þetta hafa hagfræðingar lengi lagt til og rökstutt rækilega, en gagnrök hafa verið lítilfjörleg og nærri eingöngu komin frá hagsmunaaðilum í útgerð fiskiskipa.
Gjafakvótinn til eigenda fiskiskipa hefur meðal annars í för með sér verri samkeppnisaðstöðu annarra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ef sjómenn kvarta, er kvótinn fluttur af skipi þeirra og nýr kvóti ef til vill keyptur, ef þeir taka þátt í að borga, án þess þó að eignast hlutdeild.
Hið sama gildir um hagsmunaaðila í landi, svo sem fiskiðjur, fiskvinnslufólk og sveitarfélög. Sægreifar láta bara sigla annað með aflann, ef þessir hagsmunaaðilar eru með múður. Þannig verða eigendur fiskiskipa alls ráðandi í mynztri sjávarútvegs og fá einokunaraðstöðu.
Ef kvóta er úthlutað ókeypis eins og var gert á sínum tíma til eigenda fiskiskipa, ber að gera það á breiðari grundvelli í sjávarútvegi. Hluta kvótans á að úthluta til sjómanna og hluta til hagsmunaaðila í landi, svo sem fiskvinnslustöðva, fiskvinnslufólks og sveitarfélaga.
Það er að vísu of seint að fara að tala núna um, að kvóta hefði átt að úthluta á annan hátt fyrir mörgum árum. Og endurúthlutun á breiðum grundvelli er tæpast inni í myndinni, því að í millitíðinni hefur orðið hagfræðilegt samkomulag um að betra sé að leigja út kvótann.
Sjómannaverkfallið er merki um, að ekki er lengur stætt á því kerfi, að ríkið gefi sægreifum kvóta, sem þeir síðan selja hver öðrum, meðal annars með peningum frá sjómönnum. Núverandi kvótakerfi er siðferðilega gjaldþrota, hver svo sem niðurstaða verkfallsins verður.
Heiðarlegast er að hafna úthlutunarstefnu, sem alltaf leiðir til spillingar. Bezt er að bjóða út kvóta til leigu og að allir hafi jafna aðstöðu til þátttöku, þar á meðal sjómenn sem einstaklingar, hálfar og heilar áhafnar, skipstjórar, félög og samtök sjómanna, svo og aðilar í landi.
Við þær aðstæður munu framlög sjómanna nýtast þeim sjálfum til varnar eigin hagsmunum þeirra, en ekki vera misnotuð af sægreifum. Hið sama er að segja um sveitarfélög, sem kunna að hafa hagsmuni af því að komast yfir kvóta til að verja atvinnu á staðnum.
Frjálst fiskverð er eitt af mörgum dæmum um, að frelsi er bezt í þessum efnum og því betra, sem það er meira. Frjáls leiga á fiskikvóta mun sanna gildi sitt á svipaðan hátt. Allt afnám hindrana er af hinu góða, þar á meðal afnám forréttinda eigenda fiskiskipa.
Sægreifar geta ekki lengur haldið fram, að tilfærslur á kvóta eigi sér ekki stað á kostnað sjómanna. Sjómannaverkfallið leiðir væntanlega til þess, að reynt verði að stemma stigu við þeirri misnotkun á aðstöðu, sem þjóðin hefur afhent sægreifum til ókeypis ráðstöfunar.
Vonandi verður það einnig upphaf að endalokum kerfis, sem hefur gengið sér til húðar, svo að upp fái risið nýtt, þar sem ekki er rúm fyrir úthlutun og spillingu.
Jónas Kristjánsson
DV