Uppstokkun í Reykjavík

Greinar

Tvisvar í röð hafa skoðanakannanir DV leitt í ljós, að sameinaður listi minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi miklu meira fylgi en samanlagt væri hjá þessum flokkum aðskildum, raunar mun meira fylgi en listi Sjálfstæðisflokksins hefur í könnununum.

Þetta stríðir gegn hinni hefðbundnu skoðun, að sameiginleg framboð geti við sérstakar aðstæður verið góð til að nýta atkvæði betur, til að koma í veg fyrir, að þau falli á brot úr fulltrúa; en slík framboð haldi hins vegar illa utan um fylgið, því að utan af því kvarnist.

Samkvæmt kenningunni eru alltaf til framsóknarmenn, sem ekki vilja nota atkvæði sitt til að ná inn manni frá Alþýðuflokknum eða einhverjum öðrum flokki; og svo auðvitað öfugt. Þetta þótti staðfestast eftirminnilega í Hræðslubandalaginu, sem kolféll árið 1956.

Kenningin stenzt ekki lengur, af því að tímarnir eru aðrir en þeir voru fyrir nokkrum áratugum. Lausafylgi hefur aukizt gífurlega á kostnað fastafylgis flokkanna og skiptir nú orðið miklu meira máli en fastafylgið, sem klókir menn gátu nánast talið upp á atkvæði í gamla daga.

Nú orðið snúast almennar kosningar í vaxandi mæli um að ná til sín meginstraumi lausafylgisins. Stofnaðir hafa verið rokuflokkar til að ná þessu fylgi, stundum með tímabundnum árangri, svo sem Frjálslyndir og vinstri menn og Borgaraflokkurinn voru dæmi um.

Einnig er algengt, að einn flokkur geti lyfzt upp úr sjálfum sér með nýjum mönnum og nýjum áherzlum, svo sem varð, þegar Vilmundur Gylfasom dró Alþýðuflokkinn upp úr lægð til fylgisskýja árið 1978. Það var eins manns kosningasigur fyrir heilan stjórnmálaflokk.

Forustumenn Alþýðuflokksins féllu þá í gryfju, sem heitir: “Nú get ég”. Þeir ímynduðu sér, að þeir ættu eitthvað í fylginu, sem fylgdi Vilmundi, og töldu sig geta hossað sér og haldið honum á hliðarspori. Það reyndist vera misskilningur, sem varð Alþýðuflokknum til tjóns.

Sama verður uppi á teningnum á næsta kjörtímabili, ef sameinaður listi minnihlutaflokkanna í Reykjavík fer þá með meirihluta. Þá munu ráðamenn einstakra flokka gleyma hinum sérstöku aðstæðum – og fyrir þarnæstu kosningar segja við sjálfa sig: “Nú get ég”.

Af skoðanakönnunum DV er ljóst, að á líðandi stund eru sérstakar aðstæður, sem valda því, að sameinaður listi með sérstöku borgarstjóraefni höfðar til mikils hluta lausafylgisins í Reykjavík. Hitt er svo erfiðara að skilgreina, hverjar þessar sérstöku aðstæður séu núna.

Óvinsæl ríkisstjórn er hugsanlega hluti af skýringunni. Fólk er oft óbeint að kjósa um landsmál í byggðakosningum, enda hafa skilin milli þeirra málaflokka verið alltof óskýr. Gramir kjósendur hafa oft sent óvinsælum landsfeðrum skilaboð og aðvörun í byggðakosningum.

Sveiflan er þó meiri en svo í skoðanakönnuninni, sem DV birti í gær, að hún verði skýrð að marki út frá ríkisstjórninni. Miklu meira máli skiptir, að fólk er að senda spilltum og sérgóðum stjórnmálaflokkum í heild skilaboð um, að það hafi fengi nóg af sjúklegri græðgi þeirra.

Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hafa stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hagað sér þannig, að fólk er hrönnum saman farið að líta á þetta sem ræningjaflokka með ribbalda í fararbroddi. Fólk er því tilbúið að taka þátt í hvers konar uppstokkun á þessu dauðvona valdakerfi.

Svo virðist sem margir kjósendur í Reykjavík vilji kjósa sér borgarstjóra úr nýrri átt og vilji um leið líta framhjá flokkskerfunum, sem enn leynast þar að baki.

Jónas Kristjánsson

DV