Réttlæti síast inn

Greinar

Hæstiréttur hefur úrskurðað, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi farið offari í haust, þegar þeir stöðvuðu innflutning Hagkaups á skinku. Ráðherrar Alþýðuflokksins hafi hins vegar haft rétt fyrir sér, þegar þeir reyndu án árangurs að greiða fyrir þessum innflutningi.

Dómur Hæstaréttar er að sjálfsögðu áfall fyrir Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra, sem hafði frumkvæði að stöðvuninni; Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, sem lét framkvæma hana; og Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem úrskurðaði um forræði Halldórs í málinu.

Dómurinn er líka áfall fyrir embætti ríkislögmanns, sem afgreiddi álit á málinu í samræmi við pöntun fjármálaráðherra og neitaði síðan að láta utanríkisráðaherra hafa afrit af álitinu eða að gefa honum sérstakt álit. Eftir þá aumu framgöngu hefur ríkislögmaður ekkert vægi.

Af niðurstöðu Hæstaréttar er ljóst, að heimilt var að flytja inn þær landbúnaðarvörur, sem fluttar voru inn í haust í tilraunaskyni. Einnig er ljóst, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fóru yfir mörkin í hefðbundinni viðleitni þeirra við að bregða fæti fyrir íslenzka neytendur.

Ekki er nýtt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé andvígur neytendum og raunar skattgreiðendum líka. Hann hefur um skeið sérhæft sig í varðveizlu landbúnaðar og einkavinavæðingu. Hann hefur um skeið notað heimsku kjósenda til að hlynna þeim, sem bezt mega sín í landinu.

Hins vegar er nýtt, að úrskurður Hæstaréttar gangi gegn stjórnvaldi. Vonandi er það merki þess, að réttlæti verði í auknum mæli sótt til íslenzkra dómstóla í kjölfar þess, að ógnarsverð fjölþjóðadómstóla hangir yfir þeim íslenzkum dómstólum, sem eru undirlægjur stjórnvalda.

Að baki þessa bata liggur sú staðreynd, að íslenzkir aðilar hafa í auknum mæli borið rangindi íslenzkra stjórnvalda og íslenzkra dómstóla fyrir fjölþjóðlega dómstóla, sem í hverju málinu á fætur öðru hafa rassskellt íslenzk yfirvöld og þvingað fram réttarbætur á Íslandi.

Athyglisvert er, að mest af batanum á uppruna sinn í útlöndum. Dómarar eru farnir að sinna mannréttindum, svo að úrskurðum þeirra verði ekki hnekkt í útlöndum. Og stjórnvöld horfa með kreppta hnefa á ýmsar hagsbætur neytenda, sem koma frá fjölþjóðastofnunum.

Hagsbætur fyrir neytendur og skattgreiðendur koma aldrei að innan. Þær síast inn fyrir þrýsting og kröfur frá fjölþjóðastofnunum á borð við Evrópska efnahagssvæðið, Evrópusamfélagið og Alþjóðlega fríverzlunarklúbbinn, sem verja Íslendinga fyrir stjórnvöldum.

Undir forustu Sjálfstæðisflokksins berjast íslenzk stjórnvöld af hörku gegn þessari þróun. Þau beita öllum tiltækum ráðum og brögðum til að deyfa áhrifin og vega upp á móti þeim með nýjum álögum. Þegar þau neyðast til að lækka tolla, setja þau vörugjöld í staðinn.

Ef Hagkaup og Bónus og aðrir aðilar, sem telja sig hafa hag af góðu sambandi við neytendur, reyna að nota úrskurð Hæstaréttar til að efla það samband, munu stjórnvöld finna nýjar leiðir til að koma í veg fyrir, að íslenzkir smælingjar fái í nokkru að njóta þess.

Ef stjórnvöld neyðast til að hleypa inn vöru, munu þau skattleggja hana um hundruð prósenta til að kvelja neytendur. Á meðan munu þau láta Alþingi breyta lögum til að loka innflutningssmugum. Síðan munu þau verja slík ólög með kjafti og klóm fyrir fjölþjóðadómstólum.

Meðan kjósendur halda heimsku sinni, munu þeir sem neytendur og skattgreiðendur sæta ofsóknum stjórnvalda, er hafa þrengstu sérhagsmuni að leiðarljósi.

Jónas Kristjánsson

DV