Reykjavík fékk slæma útreið í skoðanakönnun ferðatímaritsins Condé Nast Traveler um, hvaða borg heimsins hefði verstu veitingahúsin. Þessi niðurstaða er afar skaðleg fyrir ferðaímynd landsins, því að þetta er eitt allra þekktasta og mest selda ferðatímarit í heimi.
Öfugir vinsældalistar af þessu tagi hafa tilhneigingu til að hafa varanleg áhrif, sem engin leið er að bæta með auglýsingaherferðum. Skoðanakannanir eru yfireitt óhlutdrægt ritstjórnarefni, sem hefur meira vægi en kynningarefni frá aðila, sem hefur hagsmuna að gæta.
Niðurstaða könnunarinnar kemur okkur í opna skjöldu. Íslenzkir gagnrýnendur á sviði veitinga hafa fremur talið ástandið í Reykjavík vera gott í samanburði við erlendar borgir. Erlendir kunnáttumenn á þessu sviði hafa yfirleitt stutt þetta álit að fenginni reynslu.
Fyrsta hugsunin eftir lestur tímaritsins er, að einhver mistök hafi átt sér stað við úrvinnslu skoðanakönnunarinnar, til dæmis að víxl hafi orðið á borgum. Þetta er langsótt skýring, svo að við neyðumst til að líta í eigin barm til að leita að því, sem hlýtur að vera í ólagi.
Hafa verður í huga, að þeir, sem róma íslenzk veitingahús, eru yfirleitt að tala um nokkra veitingastaði í Reykjavík. Þetta eru yfirleitt frekar fínir staðir, sem margir ferðamenn tíma ekki að sækja. Þótt þetta séu dýrir staðið, eru þeir ekki dýrari en hliðstæðir staðir í útlöndum.
Verðbilið frá venjulegum stað yfir í dýran stað er miklu þrengra hér á landi en í útlöndum. Þótt dýrari staðirnir í Reykjavík standist samkeppni við hliðstæða staði í útlöndum, gera ódýrari staðirnir það ekki. Það eru ódýru staðirnir í borginni, sem eru allt of dýrir.
Erlendir ferðamenn laðast sennilega að stöðum, sem þeir búast við, að séu ódýrir og frambærilegir í senn. Í þessum hópi eru vestrænir skyndibitastaðir fyrir hamborgara, pítsur og pítur, svo og austræn veitingahús af ýmsu tagi. Á þessum alþýðlegu sviðum fáum við mínus.
Enn verra er ástandið, þegar komið er út á þjóðvegina. Þar ríkir víðast undarleg verðlagning, þar sem hamborgarasjoppur við benzínstöðvar eru að reyna að herma eftir verðlagi fínu staðanna. Þessar sjoppur eru misjafnar að gæðum, en almennt séð á óvenjulega lágu plani.
Verið getur, að erlendir ferðamenn séu með í huga þessa utanbæjarstaði, þegar þeir gefa Reykjavík lága veitingaeinkunn. Við vitum alténd, að þetta eru staðir, sem margir útlendingar neyðast til að skipta við, af því að ekki er kostur á neinum öðrum á viðkomandi svæði.
Annað atriði, sem dregur okkur niður í áliti ferðamanna, er svimandi hátt verð á bjór. Útlendingar telja hann vera hversdagslega fæðu á borð við kartöflur, en stjórnkerfið á Íslandi telur hann vera eina helztu lúxus-vöruna, sem beri að skattleggja upp fyrir topp.
Þriðja atriðið er óbeins eðlis, hin opinberu mötuneyti. Þau eru óhagkvæm í rekstri og tefja útbreiðslu ódýrra hádegisverðarstaða í borginni. Framkvæma þarf ágæta nefndartillögu um, að starfsfólk fái að nota hina niðurgeiddu matarmiða sína á frjálsum veitingastöðum.
Aðilum íslenzkra ferðamála ber að taka málið föstum tökum. Skilgreina þarf, hvað það er, sem erlendum ferðamönnum fellur ekki, og reyna síðan að bæta þá þætti, sem lakastir eru. Afleitt er, ef hluti ferðaþjónustunnar kemst upp með að skaða hagsmuni heildarinnar.
Þegar íslenzk veitingamennska er sumpart rómuð og sumpart talin alræmd, hlýtur það að byggjast á einhverju misræmi, sem breyta má í hagstætt jafnvægi.
Jónas Kristjánsson
DV