Vegamót í Suður-Afríku

Greinar

Nelson Mandela tekur við af de Klerk sem forseti Suður-Afríku eftir almennar kosningar, sem verða í landinu 26.-28. apríl í vor. Fylgi Afrísku þjóðarsamkomunnar, flokks Mandelas, nær samkvæmt skoðanakönnunum til meirihluta landsmanna, þar á meðal til Zulumanna.

Mangosuthu Buthelezi og Inkatha-flokkur hans eru á undanhaldi. Samkvæmt skoðanakönnunum nær hann minna en 20% fylgi í eigin heimahéraði, Natal, þar sem Zulumenn eru fjölmennastir. Þess vegna treystir Buthelezi sér ekki til að taka þátt í kosningunum.

Buthelezi hefur gert bandalag við róttæka hægri flokka hvítra manna um að taka ekki þátt í kosningunum, svokallað Frelsisbandalag. Allir aðilar að því bandalagi eiga það sameiginlegt, að þátttaka í almennum kosningum mundi leiða í ljós rýrt fylgi að baki miklum hávaða.

Fylgi flokkanna í Suður-Afríku fer ekki eingöngu eftir ættflokkum, heldur einnig eftir atvinnuháttum. Zulu-bændur hafa til skamms tíma yfirleitt stutt Inkatha og Zulu-kónginn, en Zulu-þéttbýlismenn eru farnir að styðja Afrísku þjóðarsamkomuna eins og aðrir svartir menn.

Svipað er að segja um flokka hvítra manna í Suður- Afríku. Þéttbýlisbúar styðja flestir Þjóðarflokk de Klerks eða Lýðræðisflokkinn, sem einnig er sáttasinnaður, en margir bændur styðja nokkra róttæka smáflokka, sem hafa myndað með sér svokallað Þjóðarbandalag.

Á mánudaginn samþykkti þingið í Suður-Afríku nokkrar breytingar á stjórnarskránni í því skyni að koma til móts við dreifbýlisöflin meðal hvítra manna og svartra. Þær fela meðal annars í sér sérstakar kosningar til héraðsþinga og traustari verkaskiptingu ríkis og héraða.

Inkatha og Þjóðarbandalagið hafa hafnað þessari sáttahönd og munu reyna að trufla kosningarnar eftir tvo mánuði. Búast má við blóðbaði í tengslum við kosningarnar, enda hafa þegar fallið 14.000 manns í átökum milli stjórnmálaflokka svartra manna á síðustu fjórum árum.

Þótt Suður-Afríku takist að komast yfir þröskuldinn, eru vandamál landsins engan veginn úr sögunni. Afríska þjóðarsamkoman er fremur vinstri sinnuð og miðstýringarhneigð. Margir foringjar hennar hafa fremur lítinn skilning á markaðslögmálum og uppsprettu verðmæta.

Nelson Mandela gerir sér grein fyrir, að illa hefur farið fyrir nærri öllum ríkjum svartra manna í Afríku. Ástandið hefur verið svo slæmt í nágrannaríkjunum, að stríður straumur flóttamanna hefur verið til aðskilnaðarlandsins Suður-Afríku, en alls ekki í hina áttina.

Stjórn Mandelas mun líklega gera ráðstafanir til að reyna að sefa ótta fjármagnseigenda í landinu og soga til landsins fjármagn frá Vesturlöndum og Japan. Ef þetta tekst, eru horfur í Suður-Afríku fremur bjartar, því að landið er nógu stórt og ríkt fyrir alla íbúa þess.

Suður-Afríka er auðug að ótal góðmálmum og hefur góð skilyrði til landbúnaðar. Vestrænt fyrirmyndarástand er á samgöngum og síma og fjölmiðlun. Stjórnkerfið er virkt og dómstólar eru óháðir. Suður-Afríka hefur alla burði til að verða leiðandi afl í Afríku.

Mandela er orðinn 75 ára og er ekki einráður í flokki sínum. Í valdastöðum flokks hans eru margir, sem hafa stjórnmálaskoðanir, er munu fæla fjármagn frá landinu, svo og margs konar þekkingu, sem Suður-Afríka þarf á að halda til að komast hjá örlögum svörtu Afríku.

Fordæmin eru til viðvörunar. Illa fór fyrir Rhódesíu, þegar hún varð að Zimbabve. Með því að læra af reynslu annarra getur Suður-Afríka komizt hjá sömu örlögum.

Jónas Kristjánsson

DV