50 framsóknarmenn

Greinar

Framsóknarmenn eru í öllum flokkum Alþingis, enda sagðist Egill Jónsson hafa 50 þingmanna fylgi af 63 í slagnum um búvörufrumvarpið. Meðal þeirra eru þingmenn í Alþýðuflokknum. Segja má raunar í þéttbýlinu, að atkvæði greitt Alþýðuflokki sé atkvæði greitt Eydalaklerki.

Flestir framsóknarmenn eru þó í þingflokki sjálfstæðismanna. Eftir síðustu kosningar urðu framsóknarmenn í þingflokki sjálfstæðismanna fleiri en í þingflokki framsóknarmanna. Þessa sér skýr merki í störfum þeirra á Alþingi og í svonefndu samstarfi flokksins í ríkisstjórn.

Meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem ganga fram fyrir skjöldu í stuðningi við landbúnaðarstefnu Egils, eru þingmaðurinn frá Bolungavík, þingmaðurinn frá Hafnarfirði, þingmaðurinn frá Stykkishólmi og nýi þingmaðurinn frá Akureyri. Allir eru þeir nýir á þingi.

Athyglisvert er, að nýrri þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli vera harðari stuðningsmenn hefðbundinnar landbúnaðarstefnu en sumir eldri þingmennirnir. Einnig er athyglisvert, að þingmenn þéttbýlissvæða eru ekki síður harðir á þessu en þingmenn dreifbýlissvæða.

Þingflokkur sjálfstæðismanna og ráðherrar hans vekja einnig eftirtekt fyrir andstöðu við flest, sem orða mætti við frjálshyggju, það er að segja við þá hugsun, að markaðsöfl eigi að ráða ferðinni. Sjálfstæðisflokkurinn telur, að málum eigi að miðstýra með handafli hins opinbera.

Eini ráðherrann, sem reynir eftir mætti að losa um höft, er Sighvatur Björgvinsson, sem skar niður lyfjakostnað og ýmsan annan heilsukostnað ríkisins og er nú að reyna að gera olíuverzlun frjálsa að meira en nafninu til. Hann er auðvitað ráðherra Alþýðuflokksins.

Vafalítið mun rísa andstaða í þingflokki sjálfstæðismanna við olíufrumvarp viðskiptaráðherra. Það væri eðlilegt framhald af núverandi ástandi, sem líkist æ meira miðstýringaráráttu síðustu vinstri stjórnar í landinu. Sértækar aðgerðir handa Vestfjörðum sýna það vel.

Á síðasta kjörtímabili reis alda frjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum. Sumir studdu hana til að geta snúið út úr einkavæðingu og búið til úr henni einkavinavæðingu, sjálfum sér til framdráttar. Frjálshyggjan var fyrst og fremst notuð til að einkavæða opinbera spillingu.

Að öðru leyti er frjálshyggja einkum höfð að háði og spotti í Sjálfstæðisflokknum. Þeir, sem meintu hana í alvöru, fara með veggjum og láta lítið fara fyrir sér. Eftir frammistöðuna á kjörtímabilinu verður erfitt fyrir flokkinn að dusta rykið af henni á síðasta ári þess.

Þingflokkur og ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa varið hefðbundna búnaðarstefnu af hörku gegn atlögum Alþýðuflokks; hafa haft forustu um að endurvekja sértækar aðgerðir hins opinbera að hætti Steingríms Hermannssonar; hafa hafnað skrefum í átt til markaðsbúskapar.

Sem dæmi um þessa stöðu má nefna fjármálastjórn, sem ekki hefur tekizt að laga útgjöld ríkisins að minnkuðum tekjum vegna samdráttar í atvinnulífinu, þannig að sett var Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs í fyrra og að reiknað er með nýju Íslandsmeti á þessu ári.

Í stórum dráttum hefur Sjálfstæðisflokkurinn á þessu kjörtímabili hvergi reynt að rétta hlut neytenda og skattgreiðenda gegn þrýstihópum sérhagsmuna og hvergi reynt að laga hlut sérhagsmuna sjávarútvegs gagnvart yfirþyrmandi dýrum sérhagsmunum landbúnaðar.

Það verður gaman að sjá, hvernig flokkurinn hagar kosningabaráttu að ári, með þá staðreynd kjörtímabilsins á bakinu, að hann er tvíburabróðir Framsóknarflokksins.

Jónas Kristjánsson

DV