Landnemarnir fari

Greinar

Eftir fjöldamorðin í Hebron hafa SS-sveitir Ísraelshers drepið rúmlega tuttugu manns til viðbótar á hernumdu svæðunum í Palestínu. Enn hefur herraþjóðin þrengt að Palestínumönnum með útgöngubanni, fleiri handtökum án dóms og laga og auknum dólgshætti SS-sveitanna.

Á sama tíma er ekkert gert til að hafa hendur í hári vopnaðra ofsatrúarmanna í hópi ísraelskra landnema á hernumdu svæðunum. Eins og fjöldamorðinginn Goldstein bera þeir hríðskotabyssur, sem þeir hafa fengið frá hernum. Þeir umgangast Palestínumenn eins og hunda.

10.000 Palestínumenn sitja í fangelsi fyrir lögmætt andóf gegn brotum Ísraels á undirrituðum alþjóðareglum um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Dag eftir dag fréttist af nýjum mannréttindabrotum herraþjóðar, sem er að krumpast á sama hátt og Þýzkaland Hitlers.

Hrunið er norska samkomulagið um friðarferil í Palestínu, enda var það byggt á sandi. Ísraelsstjórn samþykkti það til að vinna tíma, en ekki til að láta það ná fram að ganga í raun. Og Arafat samþykkti það til að reyna að ná frumkvæði, sem hann hafði glatað.

Flokkur Arafats nýtur ekki lengur stuðnings Palestínumanna. Þvergirðingsháttur Ísraels í framhaldi friðarviðræðnanna hefur kippt fótunum undan viðsemjanda þeirra. Palestínumenn styðja nú Hamas og aðra flokka, sem eru róttækari en útlagaflokkur Arafats.

Þetta er eðlileg þróun. Framkoma Ísraels, einkum landnema og SS-sveita hersins, á hernumdu svæðunum ár eftir ár eftir ár leiðir smám saman til þess, að kúgaðir og smáðir Palestínumenn hætta að styðja miðjuflokk og gerast róttækari í skoðunum sínum á ástandinu.

Fjöldamorðin í Hebron sýna líka, að röng var aðferðafræðin í fyrstu skrefum friðarviðræðnanna. Það eru ísraelsku landnemarnir á hernumdu svæðunum, sem eru krabbameinið. Þeir framkalla meirihlutann af vandræðunum, sem gera friðarviðræðurnar svo erfiðar.

Ástandið í Hebron er dæmigert. Þar búa 70.000 óvopnaðir Palestínumenn og 400 vopnaðir landnemar, sem ögra meirihlutanum með stuðningi SS-sveita Ísraelshers. Þetta er tímasprengja, sem stjórn Ísraels hefur búið til með því að leyfa landnám á hernumdum svæðum.

Stærstu ábyrgðina ber Bandaríkjastjórn, sem hefur stutt Ísrael peningalega, pólitískt og hernaðarlega þrátt fyrir landnám, mannréttindabrot og stríðsréttindabrot. Ef Bandaríkin hefðu skilyrt stuðninginn, hefði Ísrael ekki krumpazt eins mikið og dæmin sanna dag eftir dag.

Ekki er lengur hægt að búast við friði í Palestínu nema landnemarnir og SS-sveitir Ísraelshers fari þaðan. Það er þáttur af fyrsta skrefinu í átt til friðar, ef það verður stigið. Fortíðarinnar vegna ber Bandaríkjastjórn ábyrgð á, að svo skuli verða. Hún fjármagnaði krabbameinið.

Allt þetta hefði átt að vera mönnum ljóst, þegar þeir dönsuðu af gleði yfir norska samkomulaginu um friðarferil í Palestínu. Menn létu óskhyggjuna ráða, þótt ljóst mætti vera, að samkomulagið tók ekki á staðreyndum um orsök vandans og var því dæmt til að mistakast.

Nú er hins vegar kominn tími til að opna augun. Bandaríkjastjórn neyðist á endanum til að axla sína þungu ábyrgð og hætta öllum stuðningi, fjárhagslegum, pólitískum og hernaðarlegum, við skjólstæðing, sem hefur breytzt úr undrabarni í alþjóðlegt vandræðamál.

Bandaríkin verða á eigin kostnað að ganga í milli og sjá um, að Ísraelar geti búið og ráðið í sínu landi og Palestínumenn búið og ráðið í sínu landi. Í friði.

Jónas Kristjánsson

DV