Hópur lærisveina Hannesar Hólmsteins haslar sér völl í pírataspjallinu. Eru þar í sókn og vörn fyrir einkavæðingu innviða samfélagsins. Afleiðing af langvinnum sigurtölum pírata í könnunum er, að allir vilja komast þar á skip. Næst fara menn að flykkjast á fundi pírata. Spjall pírata er opið og kjörið fyrir áróður. Þar er raunar eina pólitíska umræðan í fésbók. Önnur pólitík á fésbók er prívat eða í lokuðum hópum sértrúaðra. Ýmsir, sem styðja samfélagsrekstur á innviðum samfélagsins, hafa tekið til varna. Samanlagt er þetta fróðlegt aflestrar. En tilefni er til varúðar, þegar allir þykjast allt í einu vera orðnir píratar.