Enginn bati í augsýn

Greinar

Hverju á fólk að trúa, þegar annars vegar er sagt, að atvinnuhorfur séu að batna og hins vegar, að þær séu að versna? Bezt er að trúa engu, en reyna að gera sér grein fyrir, við hvað er miðað, þegar stjórnmálamenn gefa yfirlýsingar af ýmiss konar hagkvæmnisástæðum.

Forsætisráðherra sagði í blaðaviðtali í vikunni, að atvinnuleysi færi minnkandi og það verulega minnkandi. Hann hefur það fyrir sér, að atvinnulausum fækkaði í apríl um 11%, úr 6,3% í 5,6%, og að gert er ráð fyrir, að þeim fækki í maí um 14% í viðbót, úr 5,6% í 4,8%.

Í rauninni hefði ráðherrann alveg eins getað sagt, að nú sé að vora. Tölurnar hér að ofan segja ekkert annað. Atvinnuleysi minnkar alltaf á vorin og eykst á veturna. Ef miðað er við sömu mánuði í fyrra, kemur í ljós, að atvinnuleysið er þvert á móti að stóraukast núna.

Í maí verður atvinnuleysið 4,8% eins og áður segir. Í sama mánuði í fyrra var það 4%. Þannig er atvinnuleysið um þessar mundir 20% meira en í fyrra. Það gefur því ekki rétta mynd af atvinnuástandinu að segja horfurnar vera betri. Þær eru í rauninni miklu verri.

Ef horft er fram á sumarið, má samkvæmt mannaflaspám fyrirtækja gera ráð fyrir, að ekki verði alveg eins erfitt fyrir skólafólk að fá sumarvinnu og í fyrra. Hins vegar er kvóti í sjávarútvegi víða svo langt kominn, að búast má við meiri uppsögnum fiskvinnslufólks.

Þegar líður að næsta vetri, mun ríkisstjórnin telja sig þurfa að auka atvinnutækifæri í landinu, svo að fólk verði í betra skapi, þegar kemur að næstu alþingiskosningum, sem verða í síðasta lagi næsta vor. Þetta mun hún sennilega gera með þekktum töfrabrögðum.

Annars vegar mun hún á næsta fiskveiðiári leyfa meiri þorskveiði en hagkvæmt er að veiða að ráði fiskifræðinga og hagfræðinga. Í stað þess að hugsa til langs tíma mun hún hugsa til loka kjörtímabilsins. Um leið mun hún auka líkur á hruni íslenzka þorskstofnsins.

Hins vegar mun hún lina ýmsar hömlur á opinberum útgjöldum. Það gera flestar ríkisstjórnir á kosningaárum. Hún mun þannig reyna að halda uppi skammtímaveltu í þjóðfélaginu, auðvitað á kostnað þeirra, sem eiga að greiða niður skuldir þjóðarinnar á næstu árum.

Slíkar aðgerðir munu samtals ekki duga til að gefa kosningahlé á kreppunni. Svigrúmið til sjónhverfinga er of lítið til þess. Framhald á núverandi ofveiði gefur ekki nægan pening til að lina kreppuna. Og mikil sprenging ríkisútgjalda yrði of áberandi í kosningabaráttu.

Hin heimatilbúna kreppa á Íslandi mun því halda áfram að draga Íslendinga aftur úr vestrænum þjóðum. Aðgerðirnar munu jafnframt framlengja kreppuna. Niðurstaðan verður svipuð og í spá OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, kreppa fram til aldamóta.

Hvað gerist svo eftir aldamót fer einkum eftir því, hvernig tekizt hefur að gæta fiskistofna. Ef landsfeður taka nú loksins í taumana og aðrir landsfeður, sem síðar koma til skjalanna, spilla ekki fyrir, má vænta mikilla tekna af endurreistum fiskistofnum eftir aldamót.

Kreppan á Íslandi stafar af ríkisskipulagðri ofveiði á fiski og of mikilli brennslu verðmæta í ríkisrekstri á landbúnaði. Ekkert hefur enn komið fram, sem bendir til, að þessum vandamálum muni linna á næstunni. Þess vegna er líklegt, að hin séríslenzka kreppa verði löng.

Þeir, sem nú segjast sjá batamerki í efnahagslífinu, gera það í von um, að ummælin verði gleymd, þegar komið hefur í ljós, að þau hafa alls ekki staðizt.

Jónas Kristjánsson

DV