Pólitíska yfirstéttin

Greinar

Pólitísk yfirstétt landsins hefur skipað sem seðlabankastjóra þann stjórnmálaskörung, er harðast gekk fram í ógætilegri meðferð opinberra fjármuna, svo sem bezt kom fram í sjóðasukkinu mikla, er hann stofnaði til sem forsætisráðherra fyrir nokkrum árum.

Pólitísk yfirstétt landsins gætir hagsmuna sinna út fyrir flokkshagsmuni. Að loknum löngum ferli hlaut stjórnmálaskörungurinn þau verkalaun, sem pólitískir andstæðingar við stjórnvölinn töldu henta höfðingja af hans tagi. Almannahagsmunir skiptu engu máli.

Þegar minni háttar pólitíkusar missa stóla sína í sviptivindum lýðræðis, er þeim falið að framleiða skýrslur, sem greiddar eru með miklum fjárhæðum, svo sem fram hefur komið að undanförnu. Kerfið sér um sína og fer framhjá öllum góðum siðum og hefðum í því skyni.

Pólitísk yfirstétt landsins gerir skýran mun á sér og venjulegu skítapakki. Ráðherrar láta greiða fyrir sig allan kostnað á ferðalögum og láta þar á ofan greiða sér dagpeninga. Ráðherrar og þingmenn láta aðrar skattareglur gilda fyrir sig en annað fólk í landinu.

Pólitísk yfirstétt landsins telur völdin vera eins og hvert annað herfang í styrjöld, þar sem almenningur fer halloka. Hún skammtar stöður handa minni spámönnum í sínum hópi og stóla handa hinum meiri. Núverandi ríkisstjórn hefur farið hamförum á þessu sviði.

Pólitíska yfirstéttin gerir lítinn greinarmun á fjármálum hins opinbera, fjármálum stjórnmálaflokka sinna og sínum persónulegu fjármunum. Hún fer með þetta allt eins og einn pakka, þvert ofan í þær reglur, sem þróazt hafa með lýðræðisþjóðunum í næsta nágrenni okkar.

Einn nýjasti meiðurinn á séríslenzkri meðferð opinberra fjármuna er að afhenda völdum aðilum eigur ríkisins á undirverði. Það er einkavæðing í formi einkavinavæðingar. Er með því efldur hinn gamli sannleikur, að gengi fyrirtækja fer eftir pólitískum samböndum.

Pólitíska yfirstéttin hefur gert stóra hluta þjóðarinnar að hirð sinni með skipulagðri skömmtun verðmæta. Menn sjá ekki hluta sinn í kostnaðinum við hina pólitísku peningaveltu, en hver fyrir sig fagnar sinni Blönduóshöfn og kýs þingmanninn sinn eins og jafnan áður.

Pólitísku yfirstéttinni hefur tekizt að þrefalda tekjumuninn í þjóðfélaginu á þremur áratugum. Á sjöunda áratugnum voru ráðherratekjur fimmfaldar tekjur Sóknarkvenna, en núna eru þær orðnar fjórtánfaldar. Yfirstéttin lætur ekki kreppuna skerða tekjur sínar.

Svo vel smurt er þetta kerfi, að leiðtogar verkalýðsins láta mynda sig með valdhöfum líðandi stundar til að setja stimpilinn á 6.000 króna ölmusu, sem almenningi var afhent í sárabætur í eitt skipti fyrir öll. Enda varð einn verkalýðsrekandinn nýlega gerður að bankastjóra.

Innan pólitísku yfirstéttarinnar vex þeirri skoðun fylgi, að hæfilegt sé að hafa nokkurt atvinnuleysi, svo að pakkið sé ekki með rövl, heldur sé fegið að hafa yfirleitt nokkra vinnu. Meðan fólk sé með hugann við afkomu sína, hafi það ekki mátt til afskipta af ástandinu.

Hér væri ekki kreppa, ef hún væri ekki framleidd að ofan. Spilling og óráðsía hinnar pólitísku yfirstéttar, einkavinavæðing hennar og fyrirgreiðslustefna brenna tugum milljarða króna á hverju ári. Og aukin stéttaskipting virkar eins og eyðni á sjálfan þjóðfélagsvefinn.

Engin merki eru þess, að þjóðin hafi mátt til að losna undan ánauð hinnar pólitísku yfirstéttar. Ástandið mun áfram versna, áður en það byrjar að batna að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV