Gráta sig í svefn

Punktar

Hótel Adam á Skólavörðustíg er eitt þriggja hótela, sem árum saman eru neðst á gæðalista TripAdvisor. Hin eru Tunguvegur og Travel Inn. Harmur gesta þessara gistihúsa væri gott efni í íslenzkan framhaldsþátt að hætti Fawlty Towers. Adam jók frægð sína á að hafa svo vont vatn í krönum, að það ráðleggur gestum frekar að kaupa átappað vatn hússins á 400 krónur flöskuna. Það kallast að þurrvinda gesti. Ég hef áður lagt til, að hótelsamtökin hlutist til um lokun þessara þriggja gistihúsa. Að þeim frátöldum fer almennt gott orð af íslenzkum hótelum. Við þurfum að losna við þau sárafáu hótel, þar sem gestir gráta sig í svefn.