Aðvífandi hversdagsleiki

Greinar

Hin margumtalaða björgunarþyrla er ekki enn komin á fjárlög ríkisins, þótt ríkisstjórnin hafi lofað henni oftar en nokkurn rekur minni til. Hún var ekki sett á fjárlög þessa árs, af því að án hennar var fjárlagahallinn kominn upp í ótrúlega stærðargráðu, 9,6 milljarða króna.

Björgunarþyrlunni marglofuðu var haldið fyrir utan til að fegra fjárlögin og gefa reiknistofnunum ríkisins lægri hallatölu til að miða við, þegar þær færu að spá lágum vöxtum og lítilli verðbólgu á síðari hluta ársins. Þær spár hljóta nú að vera um það bil að gliðna.

Ríkisstjórnin hefur haldið þeim gamla sið að taka ekki mark á fjárlögum ríkisins. Hún hefur samþykkt margvísleg útgjöld utan fjárlaga, einkum á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar á ofan hefur ríkisreksturinn farið úr böndum, einkum á vegum þess hins sama ráðuneytis.

Þetta er ekki bara vont fyrir þjóðina, heldur einnig ríkisstjórnina. Gliðnunin er of snemma á ferð til að koma ríkisstjórninni að gagni í kosningum að ári. Í millitíðinni er hætt við, að vextir og verðbólga hafi byrjað að taka við sér, þegar ríkisstjórnin fer fyrir þjóðardóm.

Algengt er hér og erlendis, að ríkisstjórnir gefi útgjöldum lausari taum á kosningaári til að koma kjósendum í heldur betra skap fram yfir kosningar. Ráðherrar hugsa sem svo, að meginmálið sé að halda stólunum. Síðan megi reyna að bjarga málum fyrir horn eftir kosningar.

Þetta bragð gengur ekki upp, þegar taumurinn er gefinn laus árið á undan kosningaárinu. Þá eru timburmenn eyðslufyllirísins farnir að koma í ljós fyrir kosningar. Þess vegna er brýnt fyrir ríkisstjórnina sjálfa að herða tökin, sem hafa verið að linast að undanförnu.

Bragðið gengi aðeins upp, ef ætlunin væri að fara í kosningar áður en kjörtímabilið rennur út. Ef ríkisstjórnin ætlar sér í haustkosningar, er einmitt rétti tíminn í sumar að fara að eyða peningum, sem ekki eru til. Það hefur aðeins áhrif á vexti og verðbólgu eftir kosningar.

Þriggja til fjögurra milljarða aukning á ríkishallanum getur bent til, að annaðhvort sé ríkisstjórnin að hugleiða haustkosningar eða neyðist til að efna til þeirra til þess að vera ekki með allt niðrum sig á kosningadegi. Þannig gæti raunar ósjálfrátt komið til haustkosninga.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er ríkisstjórnin aftur komin í meirihluta meðal kjósenda eftir langvinnar óvinsældir. Ef stjórnin tekur könnunina eins alvarlega og stjórnmálamenn taka kannanir yfirleitt, er líklegt, að niðurstaðan hvetji landsfeður til haustkosninga.

Ríkisstjórnin getur ekki talað sig út úr vandanum með því að leggja fram ráðagerðir um, að næsta ríkisstjórn geri eitthvað í málunum á næstu árum. Hún þarf að mæta kjósendum með lága vexti og litla verðbólgu. Þetta eru nefnilega einu trompin, sem hún hefur á hendinni.

Ríkisstjórnin getur svo sem látið góða hagfræðinga búa til gáfulegt plagg um æskilega stefnu í ríkisfjármálum til langs tíma. En kjósendur verða tæplega svo mikið í skýjunum út af pappírum af því tagi, að þeir taki ekki eftir raunverulegum breytingum á vöxtum og verðbólgu.

Fyrir þjóðina er betra, að ríkisstjórnin fari ekki auðveldu leiðina með því að láta reka á reiðanum og efna til haustkosninga, heldur fari hún erfiðu leiðina, taki af festu á málum sínum, svo að hún geti með nokkur tromp á hendi mætt þjóðinni í kosningum á eðlilegum tíma.

Því miður er svo notalegt að láta reka á reiðanum, að ósjálfrátt dregur mátt úr mönnum, þegar þeir þurfa að nýju að takast á við aðvífandi hversdagsleika.

Jónas Kristjánsson

DV