Gleymanleg hátíð

Greinar

Landgræðslustjóri hefur kastað blautri tusku í andlit þjóðarinnar á fimmtíu ára lýðveldisafmæli hennar. Hann hefur leyft landeyðingarbændum Mývatns að reka fé sitt á svarta og steindauða afrétt. Hann ákvað meira að segja að skoða ekki afréttarlöndin fyrst að þessu sinni.

Undirlægjuháttur landgræðslustjóra gagnvart þröngum sérhagsmunum sauðfjárbænda á viðkvæmustu hlutum móbergssvæðis landsins hefur löngum verið með ólíkindum, þótt hann gangi núna lengra en nokkru sinni fyrr með því að neita beinlínis að kanna ástandið.

Það er einn tvískinnungurinn í lýðveldinu, að gælustofnun, sem sérstaklega er falið að skila aftur til landsins þeim gróðri, sem við og forfeður okkar höfum rænt það, skuli með annarri hendi hangandi stunda landgræðslu og purkunarlausa landeyðingu með hinni.

Niðurstaða þessa tvískinnungs er, að ekki hefur orðið nein aukning gróðurs. Landeyðing er enn þann dag í dag meiri en það sem næst á móti með landgræðslu. Þjóðargjöfin fræga frá landnámsafmælinu 1974 var meira að segja aðeins notuð til að hleypa fleira fé á fjall.

Merkilegast við alla þessa hneykslissögu er, að ráðamenn þjóðarinnar með forseta Íslands í broddi fylkingar virðast ekki þreytast á að reyna með hátíðlegum kjaftavaðli að halda rammfalskri mynd að þjóðinni af því, hvernig haldið er á einu helzta hugsjónamáli hennar.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um, hve illa okkur gengur að skyggnast undir yfirborð hlutanna. Til þess að þurfa ekki að sjá neitt ljótt og heyra neitt ljótt og þaðan af síður að segja neitt ljótt, gætum við þess að varpa hvergi skugga á galtómar klisjur um þjóðartilveruna.

Annað dæmi broslegra og annarrar ættar er orðalag um nýtt síldarævintýri, þótt sjá megi með því að skyggnast undir yfirborðið, að síldin er ekki söltuð, að ekki eru lengur stórir markaðir fyrir saltsíld og að salt og tunnur eru varla lengur til. Enda fer ævintýrið allt í gúanó.

Pylsu-, kók- og prinspóló-hátíðin á Þingvöllum á morgun er ágætt dæmi um efnisrýra stöðu lýðveldisins á 50 ára afmælinu. Alþingi Íslendinga gat ekki fundið sér neitt umræðuefni við hæfi. Það mun ekki einu sinni samþykkja breytt mannréttindaákvæði í stjórnarskránni.

Í staðinn ætlar Alþingi að samþykkja óþarfa þingsályktunartillögu um, að ríkisstjórnin láti semja frumvarp um þetta og leggi fyrir Alþingi. Þetta er án innihalds, af því að Ísland hefur þegar lofað skriflega í fjölþjóðlegum stofnunum að staðfesta slík mannréttindaákvæði.

Hefðir og siðir, form og fagrar ræður skipta máli. Umbúnaður af því tagi stuðlar að festu í tilverunni. Við stuðlum að velgengni lýðveldisins með því að gera okkur dagamun á 50 ára afmæli þess. Við megum samt ekki gleyma, að lýðveldi þarf líka að hafa innihald.

Sæmd Alþingis væri önnur og meiri, ef það hefði látið undirbúa vandað mál til að staðfesta á afmæli lýðveldisins. Það hefði til dæmis getað látið rannsaka, hvernig stendur á, að óbyggðar og óbeittar Hornstrandir og Jökulfirðir eru orðin að einni helztu náttúruperlu landsins.

Á grundvelli slíkrar vinnu hefði verið sæmd fyrir Alþingi að setja á lýðveldisafmælinu lög um aðferðafræði við að ná svipuðum árangri á viðkvæmum stöðum landsins, meðal annars með algerri friðun þeirra fyrir ágangi sauðfjár, sem er meira eða minna á opinberu framfæri.

Viðamikla og vel skipulagða lýðveldishátíð morgundagsins skortir innri eld, sem geti lyft henni úr umbúðunum og gert að minnisstæðum atburði í þjóðarsögunni.

Jónas Kristjánsson

DV